Lögreglu- og sakamál. Refsilögsaga.

(Mál nr. 12331/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að hætta rannsókn máls.

Í svari við fyrirspurn umboðsmanns vegna málsins kvaðst ríkissaksóknari geta tekið undir ábendingar umboðsmanns og að íslensk refsilögsaga kynni að ná yfir þá háttsemi sem lýst hefði verið í kærunni. Því yrði beint til lögreglustjórans að taka rannsókn málsins upp að nýju. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. október 2023.

  

    

Vísað er til kvörtunar yðar 14. ágúst sl. yfir ákvörðun ríkissaksóknara 23. nóvember 2022 samkvæmt 6. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þar var staðfest ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 4. ágúst 2022 um að hætta rannsókn máls nr. [...].

Í tilefni af kvörtun yðar var ríkissaksóknara ritað bréf 20. september sl. og óskað eftir því að embættið veitti skýringar sem það teldi kvörtunina gefa tilefni til. Þá var þess óskað að ríkissaksóknari skýrði nánar þá afstöðu að íslensk yfirvöld hefðu ekki refsilögsögu gagnvart meintum geranda í málinu, einkum með hliðsjón af ákvæði 7. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í svari ríkissaksóknara 18. október sl., sem fylgir hjálagt með í afriti, kemur m.a. fram að ríkissaksóknari geti tekið undir ábendingar umboðsmanns hvað varðar umrætt lagaákvæði og íslensk refsilögsaga kunni að ná yfir þá háttsemi sem lýst er í kæru yðar. Ríkissaksóknari muni því beina því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að taka upp rannsókn málsins að nýju, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, í því skyni að freista þess að taka skýrslu af kærða og afla frekari gagna vegna rannsóknar málsins.

Þar sem kvörtun yðar laut að því að rannsókn málsins hefði verið hætt og nú liggur fyrir að hún verður tekin upp að nýju tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.