Lögreglu- og sakamál. Meðferð ákæruvalds. Rökstuðningur.

(Mál nr. 12394/2023)

Kvartað var yfir ríkissaksóknara og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu yfir að fimm ákærur hefðu verið gefnar út á hendur fimm manns í stað einnar fyrir alla. Jafnframt var kvartað yfir synjun lögreglustjórans á að rökstyðja ráðstöfunina.

Umboðsmaður hafði þegar afgreitt kvörtun lögmanns fyrir hönd viðkomandi vegna sama máls með vísan til þess að atvikin hefðu átt sér stað utan ársfrests sem mælt er fyrir um í lögum um umboðsmann Alþingis. Þá hafði kvörtun yfir því að beiðni um rökstuðning hefði ekki verið svarað verið lokið þegar það var gert. Hvað snerti þá afstöðu lögreglu sem kom fram í því svari, að málsaðilar ættu ekki rétt á sérstökum rökstuðningi fyrir því hvernig saksókn einstakra mála væri hagað, benti hann m.a. á að við meðferð ákæruvalds þyrftu ákærendur að taka ýmis konar ákvarðanir aðrar en þær sem beinlínis teldust til stjórnvaldsákvarðana sem skylt væri að rökstyðja, þ.e. svonefndar málsmeðferðarákvarðanir. Þar á meðal væru ákvarðanir um nánari tilhögun saksóknar og ekki væri því tilefni til að gera athugasemdir við afstöðu lögreglustjórans.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. október 2023.

  

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 4. október sl., sem beinist að ríkissaksóknara og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Lýtur kvörtunin að því að lögreglustjórinn hafi árið 2020 gefið út fimm ákærur á hendur fimm aðilum, þar á meðal eina á hendur yður, í stað þess að ákæra þá í einu lagi fyrir þátttöku í sama verknaði í samræmi við heimild þar um í 2. mgr. 143. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Jafnframt lýtur kvörtunin að synjun lögreglustjórans 25. september sl. á að veita rökstuðning vegna sömu ráðstöfunar embættisins.

    

II

Í bréfi umboðsmanns 25. apríl 2022 til B lögmanns, sem leitaði fyrir hönd yðar og fjögurra annarra, til umboðsmanns með kvörtun vegna framangreindra atvika, sem hlaut málsnúmerið 11633/2022 í málaskrá umboðsmanns, kom fram að þar sem kvörtunin lyti að atvikum frá árinu 2020, hafi skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ekki verið uppfyllt. Þar segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Að þessu virtu eru ekki efni til að framangreindur hluti kvörtunar yðar verði tekinn til frekari umfjöllunar.

 

III

Þér leituðuð jafnframt til umboðsmanns með kvörtun 25. ágúst sl. vegna tafa á afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á erindi 17. ágúst 2021 sem þér, ásamt þeim sem voru einnig ákærð, komuð á framfæri við lögreglustjórann. Hlaut sú kvörtun málsnúmerið 12341/2023. Í tilefni af henni var lögreglustjóranum ritað bréf 30. ágúst sl. þar sem þess var óskað að veittar yrðu upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins.

Í svari lögreglustjórans til umboðsmanns 22. september kom fram að embætti lögreglustjórans hefði litið svo á að málsaðilar ættu almennt ekki rétt á sérstökum rökstuðningi fyrir því hvernig ákæruvaldið háttaði saksókn einstakra mála svo og að handhafar lögreglu- og ákæruvalds nytu að lögum verulegs sjálfstæðis við ákvörðun um rannsókn og höfðun refsimáls, sbr. III og VII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Af þeim sökum hefði rökstuðningur ekki verið veittur en farist hefði fyrir að tilkynna yður um það. Í framangreindu bréfi lögreglustjórans til yðar 25. september sl. var yður tilkynnt um þá afstöðu embættisins og að beiðni yðar um rökstuðning væri hafnað.

Þar sem kvörtunin laut að töfum á afgreiðslu á erindi yðar til lögreglustjórans og fyrir lá að embættið hafði svarað yður taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar og tilkynnti yður um það með bréfi 27. september sl.

 

IV

Í 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um hvenær veita skuli rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðunum. Í 1. mgr. 21. gr. kemur fram að aðili máls geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt. Þá kemur fram í 3. mgr. 21. gr. laganna að beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skuli bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skuli stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún barst.

Þótt handhafar ákæruvalds njóti að lögum sjálfstæðis í störfum sínum telst starfsemi þeirra stjórnsýsla í skilningi 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar af leiðandi gilda stjórnsýslulög þegar þeir taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, svonefndar stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Skylda til rökstuðnings samkvæmt 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga hvílir að jafnaði aðeins á stjórnvöldum vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana. Ákvæðið skyldar því ekki stjórnvöld til að rökstyðja ákvarðanir sem teknar eru um meðferð máls og ekki binda endi á það (sjá Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur – málsmeðferð, bls. 816). Af því leiðir að skylda handhafa ákæruvalds til að rökstyðja ákvörðun sína skriflega tekur almennt einungis til stjórnvaldsákvarðana þeirra.

Við meðferð ákæruvalds þurfa ákærendur hins vegar að taka ýmis konar ákvarðanir aðrar en þær sem beinlínis teljast til stjórnvaldsákvarðana, svonefndar málsmeðferðarákvarðanir. Er hér t.d. átt við ákvarðanir um frekari rannsóknaraðgerðir, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 og ákvarðanir um nánari tilhögun saksóknar, svo sem fyrir hvaða refsiákvæði laga ákært skuli fyrir og hvenær ákæra skuli gefin út. Á þetta jafnframt við um ákvörðun um að beita heimild 2. mgr. 143. gr. laga nr. 88/2008 um að sækja ekki menn til saka fyrir þátttöku í sama verknaði í sama máli. Að þessu virtu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að synja beiðni yðar um veitingu rökstuðnings samkvæmt 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

 

V

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.