Stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði. Sveitarfélög.

(Mál nr. 12360/2023)

Kvartað var yfir innheimtu Seltjarnarnesbæjar á dagsektum vegna nota af safnefni Bóksafns Seltjarnarness fram yfir skilafrest. Reglur um innheimtuna hafi ekki verið settar í samræmi við lög.  

Þar sem málið hafði ekki verið borið undir innviðaráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. september sl. yfir innheimtu dagsekta af hálfu Seltjarnarnesbæjar vegna afnota af safnefni Bókasafns Seltjarnarness fram yfir skilafrest. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að þær reglur, sem innheimtan sé reist á, hafi ekki verið settar í samræmi við lög.

Um starfsemi sveitarfélaga gilda sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna fer ráðuneyti sveitarstjórnarmála með málefni sveitarfélaga. Um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum er fjallað í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur innviðaráðherra eftirlit með því að sveitar­félög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 111. gr. laganna er fjallað um stjórnsýslukærur en þar segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftir­liti þess samkvæmt 109. gr. Að því leyti sem ekki er um að ræða slíkar ákvarðanir ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem fellur undir eftirlit þess á grundvelli frumkvæðiseftirlits þess sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 112. gr. laganna.

Ástæða þess að framan­greint er rakið er sú að af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þar kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Í ljósi framangreindra skilyrða fyrir því að kvörtun til umboðsmanns verði tekin til meðferðar og eftirlits innviðaráðuneytisins með stjórnsýslu sveitarfélaga, verður ekki séð að skilyrði séu að svo komnu máli til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar enda verður ekki séð að þér hafið borið athugasemdir yðar upp við ráðuneytið. Tel ég því rétt að þér freistið þess að leita fyrsta kastið með athugasemdir yðar við innheimtu sektanna, og eftir atvikum reglur bókasafnsins um innheimtu dagsekta og bóta, til innviðaráðuneytisins áður en til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns kemur.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér freistið þess að beina athugasemdum yðar til innviðaráðuneytisins og teljið yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu þess, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.