Samgöngumál. Sveitarfélög.

(Mál nr. 12374/2023)

Kvartað var yfir því að Reykjavíkurborg hefði synjað umsókn um íbúakort því skilyrði væru ekki uppfyllt til að fá það.  

Samkvæmt reglum um bílastæðakort fyrir íbúa í Reykjavík er óheimilt að gefa út slíkt kort fyrir íbúa í íbúð sem skilgreind er sem námsmannaíbúð, hjúkrunarheimili eða dvalarheimili. Þar sem viðkomandi bjó í námsmannaíbúð var ekki ástæða til að gera athugasemdir við niðurstöðu borgarinnar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. september sl. yfir því að Reykjavíkurborg hafi með tölvubréfi 23. ágúst sl. synjað umsókn yðar um svonefnt íbúakort þar sem þér uppfyllið ekki skilyrði reglna nr. 370/2021, um bílastæðakort fyrir íbúa í Reykjavík. Í kvörtun yðar byggið þér einkum á því að í niðurstöðu borgarinnar sé ekki tekið tillit til þess að þau bifreiðastæði, sem sé að finna á lóð þeirrar fasteignar þar sem þér búið, séu ónothæf vegna framkvæmda.

Í 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 segir meðal annars að sveitarstjórn sé heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum hennar. Með stoð í þessari lagagrein hefur Reykjavíkurborg sett reglur nr. 370/2021, um bílastæðakort fyrir íbúa í Reykjavík, sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2021. Í ofangreindu tölvubréfi starfsmanns Reykjavíkurborgar 23. ágúst sl. er höfnun umsóknar yðar um bílastæðakort fyrir íbúa rökstudd með vísan til b-liðar 2. gr. reglna nr. 370/2021 en þar segir að ekki sé heimilt að gefa út íbúakort til íbúa í íbúð, sem er skilgreind námsmannaíbúð, hjúkrunarheimili eða dvalarheimili. Í kvörtun yðar og samtali við starfsmann umboðsmanns 24. október sl. kom fram að þér búið í námsmannaíbúð. Þegar af þessari ástæðu sýnist ljóst að óheimilt sé að úthluta yður svonefndu íbúakorti og þar með sé ekki tilefni til að gera athugasemd við ofangreinda synjun Reykjavíkurborgar.

Í ljósi þessa þykir ekki tilefni til að fjalla um þann hluta kvörtunar yðar, sem lýtur að skýringu c-liðar 2. gr. sömu reglna, enda leiðir af ofangreindu að niðurstaða þar um geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar, sem Reykjavíkurborg komst að.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.