Fjölmiðlun.

(Mál nr. 12417/2023)

Kvartað var yfir sjónvarpsþætti í Ríkisútvarpinu ohf. þar sem viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni hefðu verið opinberaðar.

Þar sem Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag tekur eftirlit umboðsmanns ekki til dagskrár þess. Var viðkomandi bent á að mögulega mætti leita til fjölmiðlanefndar með erindið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. október 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 14. október sl. sem beint er að Ríkisútvarpinu ohf. og lýtur að sjónvarpsþætti sem sýndur var [...]. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið að í þættinum hafi verið gerðar opinberar viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni yðar. Þá hafið þér kvartað yfir þættinum við Ríkisútvarpið.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er Ríkisútvarpið sjálfstætt opinbert hlutafélag. Að öðru leyti en fram kemur í lögunum gilda um Ríkisútvarpið lög nr. 2/1995, um hlutafélög og lög nr. 38/2011, um fjölmiðla, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 23/2013.

Af framangreindu er ljóst að Ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag og starfar því á sviði einkaréttar þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkisins, svo sem kemur fram í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013. Þau atriði sem kvörtun yðar beinist að fela ekki í sér beitingu opinbers valds sem Ríkisútvarpinu hefur verið fengið með lögum eða ákvarðanatöku á þeim grundvelli. Fellur efni kvörtunar yðar því utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997.

Ég vek þó athygli yðar á því, í ljósi þess sem kemur fram í kvörtun yðar, að samkvæmt 2. og 3. málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, skal fjölmiðlaveita í starfi sínu virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Skal fjölmiðlaveita gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er fjölmiðlanefnd sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit samkvæmt lögunum. Þá kemur fram í 1. mgr. 11. gr. laganna að erindum vegna ætlaðra brota á ákvæðum laganna skuli beint til fjölmiðlanefndar, sem tekur ákvörðun um það hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar. Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2011 eru nefndarmenn, varamenn og starfsmenn fjölmiðlanefndar bundnir þagnarskyldu samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga.

Teljið þér tilefni til, getið þér því freistað þess að beina erindi til fjölmiðlanefndar. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá nefndinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.