Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 12354/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytisins um skipun í embætti rektors við framhaldsskóla.  

Þar sem meira en ár var liðið frá stjórnsýslugerningnum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 2. september sl. yfir ákvörðun mennta- og barnamálaráðuneytisins um skipun í embætti rektors X sumarið 2022.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að kvörtun skuli berast innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Af gögnum málsins má ráða að yður hafi verið tilkynnt um téða skipun eigi síðar en 10. ágúst 2022 en þá sendi starfsmaður ráðuneytisins yður tölvubréf þess efnis. Þá liggur fyrir að tilkynnt var um skipun í embættið á vefsíðu ráðuneytisins 13. júlí það ár. Með hliðsjón af því að kvörtunin barst 2. september sl. fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.