Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Fasteignaskráning og fasteignamat.

(Mál nr. 12342/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu sýslumannsins á Suðurlandi á beiðni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stofnun lóðar. Jafnframt að sýslumaður hefði ekki svarað beiðni um upplýsingar um stöðu málsins sem hefði verið ítrekuð.  

Af svari sýslumanns til umboðsmanns varð ekki betur séð en málið væri í farvegi og erindunum hefði verið svarað. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. október 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. ágúst sl. yfir töfum á afgreiðslu sýslumannsins á Suðurlandi á beiðni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 27. júlí sl. um stofnun lóðarinnar X úr landi Y. Þá lýtur kvörtunin jafnframt að því að sýslumaður hafi ekki svarað erindi yðar 25. ágúst sl. þar sem þér óskuðuð eftir upplýsingum um stöðu málsins sem var ítrekað með tölvubréfum 31. sama mánaðar og 12. og 21. september sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var sýslumanninum á Suðurlandi ritað bréf 27. september sl. þar sem þess var óskað að embættið upplýsti hvort framangreind erindi hefðu borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Svör embættisins bárust 25. október sl. Þar kemur m.a. fram að ekki hafi verið unnt að afgreiða umrædda stofnun fasteignar þar sem upprunaland X hafi ekki verið fært í tölvufærða þinglýsingabók. Þá er skýrt nánar af hvaða sökum það hefur ekki verið unnt og hvaða áhrif það hefur haft á málsmeðferðartímann. Þá er einnig tekið fram að eigendur Y vinni að því að afmarka [...] og að von sé á skjali þess efnis til þinglýsingar. Þegar skjalið berist sýslumanni verði jarðirnar stað­festar í tölvufærðri þinglýsingabók og X stofnuð í kjöl­farið. Að öðru leyti tel ég óþarft að gera nánari grein fyrir útskýringum embættisins en svarbréf þess fylgir hjálagt í ljósriti.

Af svari sýslumannsins á Suðurlandi til mín verður ekki betur séð en að mál yðar sé í farvegi hjá embættinu og að erindum yðar til þess hafi verið svarað. Þá liggur fyrir að þér hafið verið í tölu­verðum samskiptum við embættið vegna málsins. Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess, sem fram kemur í svari embættisins um framvindu málsins, tel ég að svo stöddu ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á nýjan leik teljið þér ástæðu til þess.