Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12387/2023)

Kvartað var yfir kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Reykjavíkurborgar á afgreiðslu erindis.  

Með hliðsjón af svörum borgarinnar á því að síðara erindi vegna málsins hefði ekki verið svarað og að fyrra erindi vegna þess hafði verið svarað var ekki nægilegt tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. október 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar húsfélagsins A 28. september sl. sem lýtur að töfum á afgreiðslu erindis sem lögmaður beindi til Reykjavíkurborgar fyrir hönd þess. Laut erindið að kröfu um bætur vegna tjóns sem varð á eignum íbúa hússins vegna jarðvatns sem ítrekað leitaði í kjallara hússins og framkvæmda og viðgerða af þeim sökum. Kvörtuninni fylgdi bréf lögmannsins 12. október 2021 til Reykjavíkurborgar.

Í tilefni af kvörtuninni var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 6. október sl. þar sem þess var óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um hvort téð erindi lögmannsins hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Í svari Reykjavíkurborgar 16. október kom fram að því hefði verið svarað með bréfi 2. mars 2022 til lögmannsins.

Í samtali starfsmanns umboðsmanns við yður 25. október sl. kom fram að lögmaður húsfélagsins beindi að nýju erindi til Reykjavíkurborgar 23. september 2022, sem væri ósvarað af hálfu sveitarfélagsins, en það fylgdi ekki kvörtuninni. Senduð þér umboðsmanni í kjölfarið afrit bréfsins. Með tölvubréfi 26. október til Reykjavíkurborgar var óskað upplýsinga um viðbrögð borgarinnar við því erindi. Upplýsti starfsmaður Reykjavíkurborgar umboðsmann samdægurs að óljóst væri um afdrif bréfsins en það fyndist ekki í skjalasöfnum borgarinnar og því kynni að vera að það hefði ekki borist. Því hefði erindinu ekki verið svarað.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna skorts á svörum og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt verið farin sú leið af hálfu umboðsmanns, og þá með hliðsjón af fyrirliggjandi samskiptum viðkomandi við stjórnvaldið sem á í hlut, að spyrjast fyrir um hvað líði svörum við viðkomandi erindum. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu. Að þessu gættu, og þar sem fyrir liggur að upphaflegu erindi lögmannsins til Reykjavíkurborgar hefur verið svarað, svo og með hliðsjón af skýringum borgarinnar vegna síðara erindisins, tel ég að svo stöddu ekki nægilegt tilefni til aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um málið, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek fram að freisti húsfélagið þess að beina erindi sínu til Reykjavíkurborgar á nýjan leik getur það leitað til mín verði óhóflegur dráttur á svörum Reykjavíkurborgar og þá að undangengnum ítrekunum þess.