Landbúnaður. Eftirlit stjórnsýsluaðila. Yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur ráðherra.

(Mál nr. 12384/2023)

Kvartað var yfir matvælaráðherra og ráðuneyti hennar vegna viðbrögðum ráðuneytisins við erindum þar sem gerðar voru athugasemdir við eftirlit með sauðfé a riðuveikisvæðum.  

Hvorki varð ráðið að athugasemdirnar hefðu verið bornar undir Matvælastofnun eins og rétt hefði verið að gera né að fyrir lægi ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stofnunarinnar sem snerti hagsmuni viðkomandi umfram aðra. Eftir að hafa kynnt sér svör ráðuneytisins við erindum viðkomandi taldi umboðsmaður því að svo stöddu ekki forsendur til að gera athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins vegna þeirra eða taka til nánari skoðunar skyldur ráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans, enda virtist hafa verið brugðist við í samræmi við svarreglu stjórnsýsluréttar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 2. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 27. september sl., sem beinist að matvælaráðherra og ráðuneyti hennar. Verður ráðið að kvörtunin lúti að viðbrögðum  ráðuneytisins við erindum yðar til þess þar sem gerðar voru athugasemdir við rækslu Matvælastofnunar á eftirliti með sauðfé á riðuveikisvæðum í Húnavatnssýslum og í Skagafirði.

Fyrr á árinu leituðuð þér til umboðsmanns með kvörtun vegna tafa á afgreiðslu ráðuneytisins á erindi yðar 12. apríl sl. Í svari matvælaráðuneytisins 1. ágúst sl. vegna fyrirspurnar umboðsmanns sama dag kom fram að erindi yðar hefði verið svarað deginum áður, þ.e. 31. júlí sl. Í bréfi umboðsmanns til yðar 11. ágúst sl. kom fram að þar sem erindi yðar hefði verið svarað væri ekki ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni. Samkvæmt kvörtun yðar 27. september sl. og gögnum sem henni fylgdu beinduð þér einnig erindi til ráðuneytisins 7. júlí sl. þar sem gerð var grein fyrir framangreindum athugasemdum yðar. Bar erindið yfirskriftina „Stjórnsýslukæra“ og verður ráðið að það hafi lotið að sömu atriðum og erindi yðar 12. apríl sl. sem varð tilefni fyrri kvörtunar yðar til umboðsmanns, þ.e. eftirliti með sauðfé á riðuveikisvæðum.

Í svari sem yður barst frá ráðuneytinu 26. september sl., sem kvörtun yðar nú lýtur að, er m.a. framangreint svar ráðuneytisins 31. júlí sl. rakið. Þar hafi komið fram að um eftirlit með aðbúnaði með sauðfé færi samkvæmt reglugerð nr. 1066/2014, um velferð sauðfjár og geitfjár, og að Matvælastofnun annaðist eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Þá hafi komið fram að stjórnsýslukæra yðar beindist ekki að stjórnvaldsákvörðun í fyrirliggjandi máli sem þér væruð aðili að. Í téðu svari ráðuneytisins 26. september eru fyrri svör þess ítrekuð og yður leiðbeint að nýju um að leita með athugasemdir yðar til Matvælastofnunar. Kemur jafnframt fram að ráðuneytið hyggist áframsenda erindi yðar til stofnunarinnar.

Reglugerð nr. 1066/2014, um velferð sauðfjár og geitfjár, er sett með stoð í lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. síðarnefndu laganna skal Matvælastofnun vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að dýrasjúkdómum og framkvæmd laganna. Þá segir í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2013 að matvælaráðherra fari með yfirstjórn mála er varða velferð dýra en framkvæmd stjórnsýslunnar sé að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Þótt velferð dýra og varnir gegn dýrasjúkdómum heyri samkvæmt framangreindu undir yfirstjórn matvælaráðherra er ljóst að Matvælastofnun er fengið það hlutverk að sinna framkvæmd laganna og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim. Á ráðherra getur hvílt bein jákvæð skylda til að grípa til virkra úrræða á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda þegar fyrir liggur að mati ráðuneytisins að þess hafi ekki verið gætt um nokkurn tíma í starfsemi undirstofnunar að haga innra skipulagi hennar og málsmeðferð, hvort sem er inn á við gagnvart starfsmönnum stofnunar, eða út á við gagnvart borgurunum, með þeim hætti sem áskilið er í lögum. Sjá hér til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 18. nóvember 2011 í máli nr. 5986/2010.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem starfssvið umboðsmanns tekur til, kvartað af því tilefni til hans. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Þá kemur fram í 1. mgr. 10. gr. laganna að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Líkt og áður greinir lýtur kvörtun yðar að viðbrögðum matvælaráðherra og ráðuneytis hennar í tilefni af framangreindum erindum yðar. Í íslenskum stjórnsýslurétti gildir sú óskráða meginregla sem nefnd hefur verið „svarreglan“ að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í það. Í reglunni felst hins vegar ekki að sá sem ber upp erindi eigi rétt á sérhverjum þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir heldur ræðst réttur hans að því leyti af öðrum reglum stjórnsýsluréttarins.

Af erindum yðar til ráðuneytisins svo og kvörtun yðar, eins og hún er sett fram, verður hvorki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar undir Matvælastofnun né að fyrir liggi ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stofnunarinnar sem snertir hagsmuni yðar umfram aðra, en kvörtuninni fylgdu aðeins afrit af tölvubréfum yðar til ráðuneytisins. Eftir að hafa kynnt mér svör ráðuneytisins við erindum yðar um aðbúnað sauðfjár tel ég mig að svo stöddu ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins vegna þeirra eða taka til nánari skoðunar skyldur ráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans, enda fæ ég ekki annað ráðið en að brugðist hafi verið við þeim í samræmi við framangreinda svarreglu stjórnsýsluréttar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar því lokið.