Alþingi og stofnanir þess.

(Mál nr. 12421/2023)

Kvartað var yfir ummælum félags- og vinnumarkaðsráðherra í ræðustól Alþingis sem viðkomandi taldi beint að sér.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. nóvember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. október sl. en af henni verður ráðið að hún lúti að ummælum sem félags- og vinnumarkaðsráðherra mun hafa látið falla í ræðustól Alþingis og þér teljið beint að yður.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldu starfsmanna ríkisins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans umfram aðra.

Kvörtun yðar lýtur sem fyrr greinir að ummælum sem félags- og vinnumarkaðsráðherra á að hafa látið falla við umræður á Alþingi. Af kvörtuninni verður hins vegar ekki ráðið að um hafi verið að ræða ummæli sem ráðherra hafi beint sérstaklega að yður sem fyrirsvarsmaður þeirrar stjórnsýslu sem hann fer með en viðkomandi ráðherra er líka alþingismaður. Að þessu leyti skal jafnframt tekið fram að í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.