Rafræn stjórnsýsla. Persónuréttindi.

(Mál nr. 12426/2023)

Kvartað var yfir fyrirkomulagi aðgengis að þjónustu ýmissa stofnana og fyrirtækja með rafrænni auðkenningu. Fyrir vikið ætti viðkomandi erfitt með að aðstoða móður sína sem væri heilabiluð þótt hann væri ráðsmaður hennar í skilningi lögræðislaga.  

Þar sem kvörtunin laut almennt að fyrirkomulagi við rafræna auðkenningu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana. Aftur á móti yrði litið á erindið sem ábendingu um málsmeðferð stjórnvalda sem kynni að girða fyrir að tilteknir samfélagshópar gætu neytt réttinda sinna með sama hætti og aðrir.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. nóvember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 23. október sl. þar sem þér komið á framfæri athugasemdum við fyrirkomulag aðgengis að þjónustu ýmissa stofnana og fyrirtækja með rafrænni auðkenningu. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að vegna strangra krafna til notkunar slíkrar auðkenningar sé yður óhægt um vik að aðstoða móður yðar við ýmis lögskipti, sem henni reynast erfið vegna heilabilunar, þótt þér séuð ráðsmaður hennar í skilningi lögræðislaga nr. 71/1997.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að ég vek athygli á þessu er sú að af erindi yðar verður ráðið að það beinist öðrum þræði að einkaréttarlegum aðilum, m.a. hlutafélögum er komið hefur verið á fót með stofnsamningi samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og af þeim sökum brestur skilyrði til að kvörtun yðar verði að þessu leyti tekin til frekari meðferðar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns Alþingis. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds, sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Af kvörtun yðar verður ráðið að hún beinist ekki að afmarkaðri athöfn eða ákvörðun stjórnvalds heldur að almennu fyrirkomulagi við rafræna auðkenningu, sem hefur rutt sér til rúms í ríkum mæli undanfarið, enda hafi þetta fyrirkomulag í för með sér erfiðleika fyrir ákveðna hópa manna. Í ljósi þess að erindi yðar uppfyllir að þessu leyti ekki þær kröfur, sem gerðar eru til málsmeðferðar hjá umboðsmanni á grundvelli kvörtunar, verður litið á það sem ábendingu til umboðsmanns um málsefni, sem tilefni kann að vera fyrir umboðsmann til að taka til meðferðar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi þess að litið verður á erindi yðar sem ábendingu á almennum grundvelli um málsmeðferð stjórnvalda, sem kann að girða fyrir að tilteknir samfélagshópar fái neytt réttinda sinna með sama hætti og aðrir, tel ég rétt að vekja athygli yðar á yfirstandandi athugun umboðsmanns að eigin frumkvæði hans. Sú athugun beinist að aukinni notkun stjórnvalda á stafrænum miðlum í samskiptum við borgaranna og þar á meðal hvernig gætt sé að hagsmunum þeirra, sem höllum fæti standa gagnvart slíkum miðlum, við notkun stjórnvalda á þeim. Líkt og kemur fram hér að ofan er frumkvæðisathugun umboðsmanns yfirstandandi en þegar niðurstaða hennar liggur fyrir verður tilkynnt um hana á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is. Þær ábendingar, sem þér færið fram í erindi yðar, verða hafðar til hliðsjónar við frekari meðferð ofangreindrar athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á erindi yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.