Eignarréttur. Bótaábyrgð ríkisins.

(Mál nr. 12411/2023)

Kvartað var yfir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vegna friðlýsingar X. Jafnframt því að ráðuneytið hygðist ekki taka afstöðu til bótakröfu vegna tjons sem viðkomandi taldi sig hafa orðið fyrir vegna þessa fyrr en að fenginni niðurstöðu dómstóla í máli sem hafði verið höfðað til ógildingar á úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta vegna skerðingar á réttindum við friðlýsinguna, en viðkomandi átti ekki aðild að því máli.

Þar sem fyrir lá að mál til ógildingar á úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta var fyrir dómstólum taldi umboðsmaður ekki rétt að svo stöddu að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 13. október sl. sem beinist að umhverfis- orku- og loftslagsráðherra vegna friðlýsingar á grundvelli laga nr. 60/2013, um náttúruvernd. Fram kemur að einkahlutafélag í eigu yðar eigi ... % í jörðinni Y sem hafi orðið fyrir tjóni vegna friðlýsingar X. Þá segir jafnframt að matsnefnd eignarnámsbóta hafi kveðið upp úrskurð vegna skerðingar á réttindum landeigenda við friðlýsingu X en ráðuneytið hafi höfðað mál til ógildingar hans. Samkvæmt kvörtuninni var félag yðar ekki aðili að því máli en með erindi til ráðuneytisins 30. júní sl. gerði það kröfu um bætur í samræmi við téðan úrskurð matsnefndarinnar. Þá fylgdi kvörtuninni bréf ráðuneytisins til yðar 9. október sl. þar sem fram kemur að ráðuneytið muni ekki taka afstöðu til bótakröfu yðar fyrr en niðurstaða dómstóla liggur fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá er í lögum um umboðsmann Alþingis gengið út frá ákveðinni verkaskiptingu milli hans og dómstóla. Þannig tekur t.d. starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, sbr. b. lið 4. mgr. 3. gr. laganna, en í því felst m.a. að hafi málefni, svo sem ákvörðun stjórnvalds, verið borið undir dómstóla kemur það almennt ekki til kasta umboðsmanns að fjalla um það málefni sem var leitt til lykta fyrir dómstólum.

Þar sem fyrir liggur að mál er nú rekið fyrir dómstólum til ógildingar á úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta nr. [...] tel ég ekki rétt að svo stöddu að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Ef þér teljið að enn sé tilefni til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að fenginni úrlausn málsins fyrir dómstólum er yður fært að leita til mín á nýjan leik og verður þá tekin afstaða til þess hvort skilyrði séu að lögum til þess að taka málið til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.