Útlendingar.

(Mál nr. 12404/2023)

Kvartað var yfir því að Útlendingastofnun hefði synjað viðkomandi um að vera viðstaddur viðtal við umbjóðanda sem væri umsækjandi um alþjóðlega vernd þar sem hann væri ekki á svonefndum talsmannalista stofnunarinnar. Ekki hafi verið veittar skýringar á lagagrundvelli synjunarinnar.

Í tölvupósti frá Útlendingastofnun til viðkomandi kom fram að talsmaður umsækjanda um alþjóðlega vernd teldist vera sá sem stofnunin mæti hæfan til að taka að sér hagsmunagæslu fyrir slíkan umsækjanda og væri jafnframt skráður á talsmannalista hennar. Þar sem viðkomandi væri ekki skráður á þann lista teldi stofnunin honum óheimilt að vera viðstaddur viðtöl við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ef hann yndi ekki þeirri ákvörðun mætti kæra hana til dómsmálaráðuneytisins. Þar sem ekki varð séð að það hefði verið gert og afstaða ráðuneytisins til málsins þannig fengin voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. október sl. sem beinist að Útlendingastofnun og lýtur að því að stofnunin hafi synjað yður um að vera viðstaddur viðtal við umbjóðanda yðar, sem sé umsækjandi um alþjóðlega vernd, sökum þess að þér séuð ekki á svonefndum talsmannalista stofnunarinnar. Í kvörtuninni segir að stofnunin hafi ekki veitt skýringar um lagagrundvöll synjunarinnar.

Í þessu sambandi skal tekið fram að þér hafið áður leitað til umboðsmanns með kvörtun sem hlaut málsnúmerið 11915/2022 sem lokið var með bréfum umboðsmanns til yðar 15. nóvember og 7. desember 2022. Laut kvörtunin að ákvörðun Útlendingastofnunar í tengslum við skráningu yðar á talsmannalistann og upplýsingagjöf stofnunarinnar um afdrif tiltekins máls. Í bréfi mínu til yðar 7. nóvember 2022 kom m.a. fram að stofnunin hefði í skýringum sínum til umboðsmanns, sem óskað var eftir í tilefni kvörtunar yðar, greint frá því að yður væri heimilt að koma fram sem umboðsmaður umsækjanda hjá stofnuninni og kæmi heimild til þess að njóta aðstoðar talsmanns ekki í veg fyrir það.

Kvörtuninni fylgdu afrit af samskiptum yðar við Útlendingastofnun vegna málsins. Í tölvubréfi stofnunarinnar 22. september sl. til yðar segir að það sé mat hennar að talsmaður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist vera sá aðili sem stofnunin metur hæfan til að taka að sér hagsmunagæslu fyrir slíkan umsækjanda og er jafnframt skráður á talsmannalista hennar. Þar sem þér eruð ekki skráður á listann telji stofnunin að yður sé óheimilt að vera viðstaddur viðtöl stofnunarinnar við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá segir að unið þér ekki þeirri ákvörðun getið þér kært hana til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að Útlendingastofnun hefur leiðbeint yður um að unnt sé að bera synjun stofnunarinnar um að þér fáið að vera viðstaddur viðtal við umbjóðanda yðar undir dómsmálaráðuneytið. Þar sem ég fæ ekki séð að þér hafið leitað til ráðuneytisins tel ég rétt og í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að þér freistið þess að koma athugasemdum yðar á framfæri við dómsmálaráðuneytið áður en til umboðsmanns er leitað með kvörtun. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar að þessu leyti ætti að hljóta hjá ráðuneytinu. Kjósið þér að fylgja máli yðar frekar eftir og teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni afstöðu ráðuneytisins, getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.    

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.