Neytendamál.

(Mál nr. 12428/2023)

Leigjandi bílaleigubíls kvartaði yfir gjaldi sem var lagt á hann vegna aksturs í gegnum Vaðlaheiðargöng sem og umsýslugjaldi frá bílaleigu vegna þess. Engar upplýsingar um gjaldtökuna hefðu verið sýnilegar við göngin.  

Þar sem kvörtunin laut að einkaaðila voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 26. október sl. yfir gjaldi sem lagt var á yður sem leigjanda bifreiðar er ekið var í gegnum Vaðlaheiðargöng 14. september sl. Gerið þér athugasemdir við að engar upplýsingar um gjaldtöku hafi verið sýnilegar við göngin.

Kvörtun yðar ber með sér að henni sé beint að Vaðlaheiðargöngum hf. og bílaleigunni X sem starfar undir firmaheitinu Y ehf. Í henni er tiltekið að bílaleigan hafi annars vegar tekið af yður gjald sem nemur 1.650 krónum fyrir að aka í gegnum göngin, sem þér mótmælið ekki sérstaklega, og hins vegar umsýslugjald sem er aðalefni kvörtunar yðar og nemur 4.000 krónum. Samkvæmt gögnum málsins, sbr. einkum 14. gr. samningsskilmála bílaleigusamningsins sem bílaleigan virðist styðjast við að þessu leyti, hefur bílaleigan áskilið sér rétt til þess að innheimta umsýslugjald frá leigjanda ökutækis vegna stöðvunarbrota og umferðarlagabrota.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að Vaðlaheiðargöng hf. er hlutafélag og starfar sem slíkt á grundvelli laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Felur starfsemi félagsins ekki í sér beitingu opinbers valds til að taka ákvörðun um rétt eða skyldu manna í framangreindri merkingu. Fellur efni kvörtunar yðar að þessu leyti því utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997. Hið sama á við um bílaleiguna en hún starfar á grundvelli laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og sinnir útleigu á bifreiðum til viðskiptavina sinna. Er því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.