Höfundaréttur. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 12416/2023)

Kvartað var yfir menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna upplýsingabeiðni sem beint var til þess. Þá voru gerðar athugasemdir við framgöngu ráðuneytisins við rannsókn þess á því hvort þörf væri á aðgerðum á grundvelli höfundalaga og upplýsingabeiðni þess í því sambandi. 

Þar sem ekki lá annað fyrir en málið væri enn til meðferðar hjá ráðuneytinu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði að svo stöddu um þann þátt kvörtunarinnar er laut að rannsókn þess. Sama máli gegndi hvað snerti upplýsingabeiðnina til ráðuneytisins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. nóvember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 12. október sl. vegna menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem lýtur að upplýsingabeiðni sem þér beinduð til þess 4. október sl. Þá gerið þér einnig athugasemdir við framgöngu ráðuneytisins við rannsókn þess á því hvort þörf sé aðgerða á grundvelli 53. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og upplýsingabeiðni þess 4. október sl. í því sambandi. Var í þessari beiðni ráðuneytisins óskað eftir afriti af þá óútgefinni bók X ehf., [...], og tekið fram að því hefðu borist erindi frá ýmsum stofnunum og rétthafasamtökum þar sem farið hefði verið fram á að kannaður yrði grundvöllur þess að grípa til aðgerða vegna útgáfu bókarinnar.

Fyrir liggur að upplýsingabeiðni yðar tók til allra gagna framangreindrar rannsóknar ráðuneytisins. Hinn 26. október sl. voru yður fengin gögn vegna málsins. Í kjölfar ítrekana yðar tjáði ráðuneytið yður 6. og 14. nóvember sl. að það hefði þegar afhent útgáfunni öll þau gögn í málinu sem upplýsingaréttur aðila næði til samkvæmt stjórnsýslulögum. Önnur gögn sem óskað hefði verið eftir væru vinnuskjöl sem ráðuneytið hefði útbúið til eigin nota og væru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samhliða afhendingu gagnanna ítrekaði ráðuneytið ósk sína um afrit af fyrirhugaðri útgáfu. Var útgáfufélagið einnig hvatt til að veita frekari upplýsingar, þ. á m. um afstöðu til þess að höfunda nýrra mynda yrði getið á forsíðu, og tjá sig að öðru leyti um efni málsins á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga. Var þess óskað að umbeðnar upplýsingar og/eða andmæli bærust ráðuneytinu innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. höfundalaga er óheimilt að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Ákvæði þetta gildir um bókmenntaverk og listaverk, sem ekki eru háð höfundarétti, sbr. 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal mál út af brotum gegn 1. mgr. aðeins höfða eftir kröfu ráðherra, enda telji hann þess þörf vegna tillits til almennrar menningarverndar. Gögn málsins bera með sér að á framangreindum lagagrundvelli hafi menningar- og viðskiptaráðherra hafið rannsókn á því hvort að aðgerða sé þörf vegna útgáfu framangreindrar bókar.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir einnig að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki liggur annað fyrir en að málið sé enn til meðferðar hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Brestur því lagaskilyrði fyrir því að sá hluti kvörtunar yðar, er lýtur að rannsókn ráðuneytisins á því hvort þörf sé aðgerða á grundvelli 2. mgr. 53. gr. höfundalaga, verði tekinn til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns.

Hvað snertir þann þátt kvörtunarinnar sem lýtur að upplýsingabeiðni yðar til ráðuneytisins liggur fyrir að þér fenguð 26. október sl. afhent þau gögn málsins sem ráðuneytið taldi upplýsingarétt aðila máls ná til samkvæmt stjórnsýslulögum. Í síðari samskiptum yðar við umboðsmann hafið þér lýst yfir óánægju með þessa afgreiðslu ráðuneytisins og vísað m.a. til tveggja minnisblaða sem þér fenguð ekki afhent. Svo sem áður greinir er mál yðar enn til meðferðar hjá ráðuneytinu. Samkvæmt áðurgreindum sjónarmiðum að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru því ekki heldur, að svo stöddu, lagaskilyrði til viðbragða af minni hálfu vegna þessa þáttar málsins.

Teljið þér yður eða útgáfufélagið enn beitt rangsleitni að lokinni málsmeðferð ráðuneytisins getið þér freistað þess að leita til mín á ný.

Með vísan til framangreinds er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.