Skipulags- og byggingarmál. Strandsvæðisskipulag. Staðfestingarhlutverk ráðherra.

(Mál nr. 12120/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun innviðaráðherra um að staðfesta tillögu svæðisráðs að strandsvæðisskipulagi Austfjarða.  

Þar sem fyrir lá að aðrir aðilar höfðu höfðað mál gegn íslenska ríkinu og krafist þess að skipulagið yrði fellt úr gildi og mál vegna þessa því rekið fyrir dómstólum voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar A 27. mars sl. er lýtur að ákvörðun innviðaráðherra 2. mars sl. um að staðfesta tillögu svæðisráðs að strandsvæðisskipulagi Austfjarða sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. sama mánaðar.

Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur þeirri reglu verið fylgt í framkvæmd að fjalla ekki um einstakar kvartanir samtímis því að mál vegna sömu atvika og ákvarðana eru rekin fyrir dómstólum og ætla verður að í dómsmálinu kunni að reyna á sömu atriði, bæði um atvik og lagareglur, sem annars reyndi á við athugun umboðsmanns á málinu. Er þessi afstaða byggð á því að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá ákveðinni verkaskiptingu milli umboðsmanns og dómstóla. Þannig tekur t.d. starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna, en í því felst m.a. að það kemur almennt ekki til kasta umboðsmanns að fjalla um málefni sem leitt hefur verið til lykta fyrir dómstólum. Þá hefur það verið afstaða umboðsmanns Alþingis að ekki sé rétt að nýta fjármuni og krafta þessara opinberu embætta til þess að fjalla um sama mál á sama tíma.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að fyrir liggur að X ásamt [...] á Y, hefur höfðað mál gegn íslenska ríkinu þar sem þess er krafist að strandsvæðisskipulag Austfjarða verði fellt úr gildi, en upplýsingar þess efnis má nálgast á vefsíðu X. Þar sem fyrir liggur að mál er nú rekið fyrir dómstólum til ógildingar á ákvörðun innviðaráðherra tel ég ekki rétt að svo stöddu að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Ef félagið telur að enn sé tilefni til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun þess að fenginni úrlausn málsins fyrir dómstólum er því fært að leita til embættisins á nýjan leik og verður þá tekin afstaða til þess hvort skilyrði séu að lögum til að taka málið til frekari athugunar. Verður þá ekki litið svo á að ársfrestur, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sé liðinn vegna þeirra atriða sem kvörtun félagsins lýtur að, en þó að því gættu að það sé gert án ástæðulausra tafa.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.