Skattar og gjöld. Orkuveita Reykjavíkur. Innheimta vanskilagjalds. Útgáfa reiknings.

(Mál nr. 3471/2002, 3608/2002 og 3635/2002)

Undanfarna mánuði hafa umboðsmanni Alþingis borist nokkur erindi vegna innheimtu Orkuveitu Reykjavíkur á vanskilagjaldi að fjárhæð 450 krónur 15 dögum eftir gjalddaga í tilefni af vanskilum á greiðslu orkureikninga hjá fyrirtækinu. Auk þessa voru gerðar athugasemdir við það að fyrirtækið sendi ekki þeim viðskiptavinum, sem kjósa að greiða fyrir áætlaða orkunotkun með bein- eða boðgreiðslum, reikning vegna viðskiptanna nema einu sinni á ári. Umboðsmaður lauk framangreindum málum með bréfum til þeirra sem leitað höfðu til hans auk þess að senda Orkuveitu Reykjavíkur bréf um málin.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, og benti á að á grundvelli laganna hefði verið sett gjaldskrá nr. 156/2001 sem staðfest hefði verið af iðnaðarráðherra. Framangreint vanskilagjald kemur fram í lið 4.5. í gjaldskránni og er þannig sérgreint sem einn þáttur í kostnaði við kaup á orku og þjónustu frá Orkuveitu Reykjavíkur. Umboðsmaður tók fram af gefnu tilefni að lagagrundvöllurinn að baki gjaldinu væri ólíkur þeim sem stæði að baki svonefndu gírógjaldi sem innheimt hefði verið af Ríkisútvarpinu og hann hefði fjallað um í áliti sínu frá 15. mars 2002 í máli nr. 3350/2001.

Umboðsmaður tók fram að þegar horft væri til eðlis gjaldsins og þeirrar staðreyndar að það hefði verið afmarkað með skýrum og glöggum hætti í gjaldskrá sem staðfest hefði verið af iðnaðarráðherra samkvæmt lögum nr. 139/2001 yrði af hálfu umboðsmanns ekki gerðar athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að sú fjárhæð sem þar væri byggt á væri hófleg og innan skynsamlegra marka. Umboðsmaður taldi þannig ekki fært að fullyrða að það hefði verið í ósamræmi við staðfestingarhlutverk ráðuneytisins að það skyldi byggja staðfestingu sína á mati enda þótt ekki lægi fyrir nákvæmur útreikningur eða kostnaðargreining á umræddu vanskilagjaldi.

Í tilefni af þeim erindum sem lutu að því að Orkuveita Reykjavíkur gæfi ekki út reikninga nema einu sinni á ári til orkukaupenda, sem kosið hafa að greiða fyrir orkunotkun sína með bein- eða boðgreiðslum, ritaði umboðsmaður fyrirtækinu bréf og óskaði upplýsinga um þetta atriði. Af svari Orkuveitu Reykjavíkur til umboðsmanns taldi hann mega ráða að ákveðið hefði verið að breyta þessu fyrirkomulagi og að framvegis gætu þeir sem þess óska fengið sent í pósti afrit áætlunarreikninga sinna auk venjulegrar útsendingar uppgjörsreikninga. Umboðsmaður tilkynnti þeim sem til hans höfðu leitað vegna þessa atriðis um þessi viðbrögð fyrirtækisins.

Í bréfi til Orkuveitu Reykjavíkur kynnti umboðsmaður fyrirtækinu að hann hefði í ljósi svara fyrirtækisins ákveðið að ljúka umfjöllun sinni um erindin. Í bréfinu tók umboðsmaður fram að hann gengi út frá því að þau afrit áætlunarreikninga sem orkukaupendur gætu fengið send yrðu af hálfu fyrirtækisins útbúin þannig að þau teldust fullnægjandi skjöl í bókhaldi orkukaupenda, meðal annars vegna reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila. Þá taldi umboðsmaður rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri við Orkuveitu Reykjavíkur, í ljósi þeirra skyldna sem hvíla á fyrirtækinu um útgáfu reikninga vegna seldrar vöru og þjónustu, að þess yrði gætt að kynna orkukaupendum möguleika þeirra til að fá útgefna reikninga vegna þeirra greiðslna sem þeir inna af hendi fyrir keypta orku. Tók umboðsmaður fram að hann teldi það vera í betra samræmi við stöðu Orkuveitu Reykjavíkur sem eina söluaðila á rafmagni og heitu vatni á orkuveitusvæði sínu og fyrirtækis í opinberri eigu að Orkuveita Reykjavíkur hefði frumkvæði að því að kynna orkukaupendum umrædda möguleika til að fá útgefna reikninga heldur en að láta vitneskju viðskiptavina um þá ráðast af því hvort þeir kunni að beina fyrirspurn um þetta til þjónustuvers fyrirtækisins.

Með bréfi til Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 5. mars 2004, ítrekaði ég ósk mína um að fyrirtækið gerði mér skriflega grein fyrir því hvernig brugðist yrði við framangreindri ábendingu minni. Í svarbréfi Orkuveitunnar, dags. 29. sama mánaðar, kemur meðal annars fram að fyrirhugað sé að senda öllum viðskiptavinum fyrirtækisins kynningarbréf og að stefnt sé að útsendingu þess fyrir 15. apríl 2004.

Með bréfi til Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 2. mars 2005, ítrekaði ég ósk mína um að orkuveitan gerði mér grein fyrir því hvernig fyrirtækið hefði brugðist við ábendingu þeirri sem sett var fram í bréfi mínu 31. janúar 2003. Svarbréf Orkuveitu Reykjavíkur barst mér 21. mars 2005. Er þar gerð grein fyrir bréfum sem viðskiptavinum orkuveitunnar hafa verið send til kynningar á möguleikum þeirra til að fá útgefna reikninga vegna þeirra greiðslna sem þeir inna af hendi fyrir keypta orku.