Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 12430/2023)

Kvartað var yfir seinagangi á uppbyggingu hverfis í Úlfarsárdal í Reykjavík. Af kvörtuninni varð jafnframt ráðið að leitað hefði verið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna þessa en ekki séð á hvaða grundvelli það væri eða hvort viðkomandi ætti aðild að því máli.  

Þar sem kvörtunin laut almennt að því hvernig tekist hefði til við uppbyggingu hverfisins voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Var viðkomandi bent á að ákvæði laga um mannvirki og það kynni að vera fært að leita til byggingarfulltrúa og eftir atvikum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fenginni niðurstöðu hans.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. nóvember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 27. október sl. sem þér beinið að Reykjavíkurborg og lýtur að seinagangi á uppbyggingu hverfis í Úlfarsárdal. Af kvörtun yðar verður jafnframt ráðið að mál sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála en ekki verður skýrlega ráðið af kvörtun yðar á hvaða grundvelli það er rekið eða hvort þér séuð aðili að því máli.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans umfram aðra.

Þá segir í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi, þ.e. þau atriði sem þér tilgreinið í kvörtun yðar snerta ekki hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti umfram aðra heldur lýtur hún að því hvernig almennt hefur tekist til með uppbygginu hverfis í Úlfarsárdal. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Ég bendi yður þó á að í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, er m.a. kveðið á um að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Þá segir í 59. gr. laga nr. 160/2010 að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt framangreindu kann yður að vera fært að beina erindi til byggingarfulltrúa, og eftir atvikum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fenginni afstöðu hans, sé til að mynda frágangi mannvirkis eða lóðar í nágrenni fasteignar yðar ábótavant. Fari svo að þér leitið með athugasemdir yðar til þessara stjórnvalda getið þér að fenginni afstöðu þeirra leitað til mín á ný með kvörtun yfir henni, ef þér teljið tilefni til. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir yður að beina athugasemdum yðar til umræddra stjórnvalda.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.