Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 12448/2023)

Kvartað var yfir tilteknum atriðum sem sneru að starfi viðkomandi hjá héraðsdómstóli.  

Þar sem það fellur almennt utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um stjórnsýslu dómstóla benti hann viðkomandi á að leita til dómstólasýslunnar á grundvelli lagaákvæðis sem fjallar um meðferð mála vegna ávirðinga forstöðumanns dómstóls.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. nóvember 2023.

  

  

Vísað er kvörtunar yðar 8. nóvember sl. f.h. A. Samkvæmt kvörtuninni lýtur hún að [...]. Kvörtuninni fylgdu afrit af beiðni yðar f.h. A um upplýsingar og gögn 24. ágúst sl. og svarbréfi dómstjóra til yðar 13. september sl.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við síðastnefnt ákvæði hefur það almennt verið talið falla utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um stjórnsýslu dómstólanna, sbr. t.d. skýrslu umboðsmanns Alþingis til Alþingis fyrir árið 2012, bls. 20.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 31. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla, skipar dómstólasýslan dómstjóra við hvern héraðsdómstól til fimm ára í senn. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar hefur dómstjóri, auk þess að sinna dómstörfum, með höndum stjórn héraðsdómstóls og ber ábyrgð á starfsemi hans. Hann skiptir m.a. verkum milli dómara og annarra starfsmanna, ræður aðra starfsmenn dómstóls en héraðsdómara og slítur ráðningu þeirra. Þá fylgist hann með störfum dómara og annarra starfsmanna og gætir aga gagnvart þeim að því leyti sem ekki kemur í hlut annarra samkvæmt VIII. kafla laganna. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 32. gr. laganna fer um ráðningu og starfslok starfsmanna héraðsdómstóla að öðru leyti eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 46. gr. laganna er mælt fyrir um meðferð mála vegna ávirðinga forstöðumanns dómstóls. Þar segir í 1. mgr. að telji dómari eða annar starfsmaður dómstóls að forstöðumaður dómstólsins hafi gert á sinn hlut í störfum sínum geti hann beint kvörtun vegna þess til dómstólasýslunnar. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 50/2016 segir m.a. eftirfarandi:  

Með forstöðumanni í skilningi ákvæðisins er átt við forseta Hæstaréttar, forseta Landsréttar og dómstjóra. Áréttað er að hér undir falla eingöngu þau störf sem forstöðumenn inna af hendi í skjóli stjórnunarheimilda sinna og sem forstöðumenn ríkisstofnunar en störf þeirra sem handhafar dómsvalds eru eðli málsins samkvæmt undanskilin. Þannig er lagt til með 1. mgr. að slíkri kvörtun verði beint til dómstólasýslunnar en einnig er gert ráð fyrir því að dómstólasýslan geti tekið upp mál sem varða stjórnunarstörf forstöðumanns að eigin frumkvæði, telji hún tilefni til þess. Með þessari breytingu er skapaður farvegur fyrir dómara og aðra starfsmenn dómstóla sem telja að forstöðumaður hafi gert á sinn hlut til að bera fram kvörtun og fá úrlausn mála sinna, en óljóst hefur verið fram til þessa hver sé bær til að leysa úr slíkum kvörtunum. Þykir rétt með hliðsjón af sjálfstæði dómstólanna að mál sem þessi séu eins og framast er unnt leyst innan dómskerfisins sjálfs og er ekki gert ráð fyrir að úrlausnir stjórnar dómstólasýslunnar sæti endurskoðun utanaðkomandi aðila (þskj. 1017 á 145. löggj.þ. 2015-16, bls. 56).

Þá er fjallað um dómstólasýsluna II. kafla laga nr. 50/2016. Samkvæmt 5. gr. laganna er hún sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna. Í framangreindu frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/2016 kemur fram að lögð sé áhersla á að um sé að ræða sjálfstæða stofnun innan dómskerfisins en í því felist að hún lúti ekki boðvaldi annarra aðila innan dómskerfisins og sé eðli málsins samkvæmt óháð löggjafar- og framkvæmdarvaldi (sjá þskj. 1017 á 145. löggj.þ. 2015-2016, bls. 33).

Með vísan til þess sem áður greinir tel ég rétt að þér freistið þess að beina kvörtun til dómstólasýslunnar. Ef þér teljið tilefni til getið þér leitað til mín að nýju að fenginni úrlausn hennar og yrði þá tekin afstaða til þess hvort málið falli undir starfssvið umboðsmanns. Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.