Neytendamál.

(Mál nr. 12419/2023)

Kvartað var yfir því að ekki væri lengur unnt að leita álits sérstakrar kærunefndar vegna ágreinings um viðskipti með lausafé milli tveggja manna, s.s. með bifreiðar.

Þar sem kvörtunin laut að lagasetningu Alþingis og starfssvið umboðsmanns tekur ekki til þess voru ekki skilyrði til að fjalla frekar um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. nóvember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 18. október sl. sem beint er að Neytendastofu og lýtur að því að ekki sé lengur unnt að leita álits sérstakrar kærunefndar vegna ágreinings um viðskipti með lausafé milli tveggja einstaklinga, s.s. með bifreiðar. Í samtali starfsmanns umboðsmanns við yður 2. nóvember sl. áréttuðuð þér kvörtunarefni yðar og gerðuð grein fyrir þeirri afstöðu að núverandi fyrirkomulag feli í sér lakari rétt fyrir neytendur án lagabreytingar.

Í 99. gr. nr. laga 50/2000, um lausafjárkaup, var heimild fyrir aðila til að snúa sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa vegna viðskipta sem féllu undir lög um lausafjárkaup. Með lögum nr. 81/2019, um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, var 99. gr. lausafjárkaupalaga felld brott, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 24. gr. og ný kærunefnd vöru- og þjónustukaupa sett á fót, sbr. V. kafla laganna. Í athugasemdum frumvarps er varð að lögum nr. 81/2019, er tekið fram að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa taki við af kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa og að ágreiningur milli tveggja neytenda um viðskipti þeirra á milli falli utan lögsögu nýrrar nefndar.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að starfssvið umboðsmanns, sbr. a-liður 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún beinist almennt að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til með lögum nr. 81/2019. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu læt ég því máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.