Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar. Umönnunargreiðslur vegna barna.

(Mál nr. F142/2023)

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um það hvernig staðið er að því að afla umönnunarmats frá þjónustumiðstöðvum sveitarfélaga vegna umsókna foreldra um umönnunargreiðslur. Nánar tiltekið óskaði hann skýringa á því hvers vegna tiltekið væri í bréfi frá stofnuninni að bærust gögnin ekki innan tveggja mánaða yrði máli viðkomandi vísað frá. Vildi umboðsmaður vita hvort það væri þá háð viðbrögðum annars stjórnvalds en Tryggingastofnunar hvort hún leysti efnislega úr máli sem hæfist hjá henni með umsókn foreldra um slíkar greiðslur.

Tryggingastofnun greindi frá því að þessi klausa hefði fyrir mistök ratað inn í bréf og skortur á gögnum frá þjónustumiðstöð leiddi ekki til frávísunar. Bréfin hefðu verið leiðrétt og athugað yrði hvort mistökin hefðu orðið til þess að farist hefði fyrir að afgreiða einhver mál. Í ljósi þessa skýringa og viðbragða lét umboðsmaður athugun sinni lokið.

  

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. desember 2023.

  

  

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið athugun sinni á framkvæmd Tryggingastofnunar við öflun tillagna að ummönnunarmati samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 504/1997, um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

Tilefni athugunarinnar var meðferð umboðsmanns Alþingis á tiltekinni kvörtun en á meðal þeirra gagna sem henni fylgdu var afrit af bréfi Tryggingastofnunar til nafngreindrar þjónustumiðstöðvar þar sem óskað var eftir tillögu að ummönnunarmati vegna umsóknar foreldra um ummönnunargreiðslur. Í bréfinu sagði einnig eftirfarandi: 

Umbeðin gögn eiga að berast Tryggingastofnun innan tveggja mánaða frá dagsetningu þessa bréfs. Ef gögnin berast ekki innan umbeðins tíma verður málinu vísað frá. Rétt er að vekja athygli á því að ekki verður tilkynnt sérstaklega um frávísun heldur er afgreiðslu þá lokið með þessu bréfi.

Af þessu tilefni var Tryggingastofnun ritað bréf 3. nóvember sl. þar sem þess var óskað að stofnunin staðfesti þann skilning á tilvitnuðum ummælum úr bréfinu að yrði þjónustumiðstöð ekki við beiðni Tryggingastofnunar um gögn eða upplýsingar væri viðkomandi máli lokið og þá einnig gagnvart umsækjendunum. Það væri þannig háð viðbrögðum annars stjórnvalds en Tryggingastofnunar hvort leyst væri efnislega úr máli sem hæfist hjá stofnuninni með umsókn aðila um umönnunargreiðslur. Væri það raunin var þess óskað að Tryggingastofnun upplýsti umboðsmann um á hvaða grundvelli hún byggði þá framkvæmd og þá eftir atvikum með vísan til viðeigandi lagaákvæða og/eða -sjónarmiða. Þá var óskað upplýsinga um hvort að í málum sem þessum væri umsækjendum um greiðslur tilkynnt sérstaklega um lok málsins og þá með hvaða hætti.

Í svarbréfi Tryggingastofnunar 24. nóvember sl. kom fram að hin tilvitnuðu ummæli væru staðlaður texti, eða svokallaður fasti, í bréfum sem sneru að einstaklingum en þau hefðu óvart ratað í bréf til þriðja aðila. Skortur á tillögu frá þjónustumiðstöð sveitarfélags væri ekki frávísunarástæða og væri textinn ekki notaður í framkvæmd í málum sem þessum. Bærist tillaga að liðnum fresti væru mál tekin til umfjöllunar og afgreidd. Þá hefði Tryggingastofnun einnig haft samband við sveitarfélög og ítrekað erindi við þær aðstæður að stofnuninni hefði ekki borist tillaga að ummönnunarmati. Auk þess hefði hún í einstaka tilvikum tekið mál til afgreiðslu þótt tillaga hefði ekki borist enda lægju fullnægjandi gögn fyrir í málinu.

Í svari Tryggingastofnunar kom loks fram að stofnunin hefði fjarlægt áðurnefndan „fasta“ úr bréfum sem send væru þjónustumiðstöðvum og ákveðið að kanna hvort hugsanlega hefðu einhver mál ekki verið afgreidd hjá stofnuninni á þeim grundvelli að tillaga að ummönnunarmati hefði ekki borist.

Í ljósi framangreindra upplýsinga og skýringa tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram.