Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12464/2023)

Kvartað var yfir töfum á rannsókn lögreglustjórans á Suðurlandi á kæru vegna ætlaðs húsbrots.  

Viðkomandi hafði áður kvartað til umboðsmanns vegna málsins og þá verið bent á að ríkissaksóknari færi með eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum. Þar sem málið var nú á borði ríkissaksóknara og viðkomandi nýlega búinn að ítreka beiðni sína um upplýsingar þaðan voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. nóvember 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 15. nóvember sl. yfir töfum á rannsókn lögreglustjórans á Suðurlandi á kæru sem þér lögðuð fram vegna ætlaðs húsbrots.

Í bréfi umboðsmanns til yðar 11. ágúst sl. kom fram að umboðsmaður teldi ekki tilefni til að taka kvörtun yðar 14. júní sl., sem laut að sömu atriðum, til frekari athugunar þar sem fyrir lægi að lögreglustjórinn á Suðurlandi hefði þá nýlega svarað erindum yðar vegna málsins og gert grein fyrir ástæðum þess að rannsókn málsins hefði tafist svo og fyrirætlunum embættisins um framgang hennar. Þá kom einnig fram að ríkissaksóknari færi með eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum. Hann gæti kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni. Teldi málsaðili á sig hallað við rannsókn lögreglu eða málsmeðferð eftir að mál er komið til meðferðar hjá ákæranda gæti hann beint erindi til ríkissaksóknara um það atriði. Með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið, var yður bent á þann möguleika að leita til ríkissaksóknara á grundvelli lögbundins eftirlits hans með handhöfum ákæruvalds.

Kvörtun yðar nú fylgdi afrit af bréfi lögmanns fyrir hönd yðar 18. ágúst sl. til lögreglustjórans á Suðurlandi þar sem þess var óskað að rannsókn málsins yrði hraðað og ákæra gefin út. Var afrit bréfsins sent ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra. Kvörtuninni fylgdi jafnframt afrit af beiðni embættis ríkissaksóknara 26. september sl. til lögreglustjórans um upplýsingar um stöðu málsins. Tilefni þeirrar beiðni mun hafa verið erindi til ríkissaksóknara vegna málsins þar sem kvartað var yfir málsmeðferðartíma. Þá verður jafnframt ráðið af þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni að lögmaður yðar hafi með tölvubréfi 12. október sl. óskað eftir upplýsingum hjá ríkissaksóknara um hvort svör hefðu borist frá lögreglustjóranum. Þá beiðni hafi lögmaðurinn ítrekað 15. nóvember sl.

Líkt og fram kom í bréfi umboðsmanns til yðar 11. ágúst sl. byggist framangreind 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til með­ferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Að þessu gættu, og þar sem fyrir liggur að ríkissaksóknari hefur móttekið kvörtun vegna þeirra tafa sem orðið hafa á rannsókn málsins og óskað skýringa lögreglustjórans þar um er ljóst að lagaskilyrði brestur til að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari athugunar að þessu leyti. Þar sem beiðni um upplýsingar um þá athugun ríkissaksóknara var nýlega ítrekuð tel ég jafnframt ekki ástæðu að svo stöddu til að aðhafast sérstaklega að því leyti, enda tel ég að ekki hafi orðið óhæfilegur dráttur á svörum ríkissaksóknara við erindum lögmannsins.

Með vísan til þess sem rakið er að framan læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.