Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 12446/2023)

Kvartað var yfir því að hljóðmön hefði ekki verið reist á tilteknu svæði í Norðlingaholti þrátt fyrir kvöð um það í deiliskipulagi og viðbrögðum starfsmanns Reykjavíkurborgar við erindum vegna málsins.  

Þar sem hvorki hafði verið leitað til byggingarfulltrúa og eftir atvikum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, að fenginni niðurstöðu hans, voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. nóvember 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 7. nóvember sl. sem beint er að umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og lýtur að því að hljóðmön hefur ekki verið reist á tilgreindu svæði í Norðlingaholti, sem mun að hluta vera borgarland, þrátt fyrir kvöð þar um í deiliskipulagi. Þá verður ráðið að þér séuð ósáttar við viðbrögð tilgreinds starfsmanns sveitarfélagsins við erindum yðar vegna málsins.

Kvörtuninni fylgdu samskipti yðar við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar vegna málsins. Þar kemur m.a. fram, sbr. tölvubréf starfsmanns sviðsins til yðar 13. september sl., að umrædd mön „[hefði] ekki eiginlega merkingu sem hljóðmön í þessum skilningi“. Höfundar skipulags hefðu verið að útfæra aðskilnað milli iðnaðarhúsnæðis og íbúahúsnæðis og það sé á hendi lóðarhafa að framkvæma umrædda uppbyggingu. Þá verður ráðið af svarinu að það sé afstaða sviðsins að umrætt svæði sé ekki á landi borgarinnar.

Þér komuð frekari sjónarmiðum yðar á framfæri við Reykjavíkurborg með tölvubréfi 17. september sl. og létuð um leið innri endurskoðun og ráðgjöf hennar í té afrit af tölvubréfinu og fyrri samskiptum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi brugðist sérstaklega við því erindi yðar en hafi hins vegar komið sjónarmiðum sínum á framfæri við fagstjóra ráðgjafar hjá innri endurskoðun og ráðgjöf sem upplýsti yður um þau með tölvubréfi 12. október sl. Kom þar m.a. fram sú afstaða umhverfis- og skipulagssviðs að í deiliskipulagi felist heimildir til framkvæmda en ekki skylda eða vilyrði um slíkt. Einungis um 10% hinnar fyrirhuguðu manar væri samkvæmt deiliskipulagi á borgarlandi. Það væri mat borgarinnar að lítill ávinningur væri af því að reisa svo lítinn bút og ekki væri gert ráð fyrir að ráðast í þær framkvæmdir að svo stöddu.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, er m.a. kveðið á um að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Þá segir í 59. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég ekki efni til að fjalla um kvörtun yðar að svo stöddu. Hef ég þá í huga að þér getið freistað þess að beina erindi til byggingarfulltrúa og eftir atvikum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fenginni afstöðu hans. Teljið þér yður enn rangsleitni beitta, að fenginni úrlausn þessara stjórnvalda, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir yður að beina athugasemdum yðar til umræddra stjórnvalda.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.