Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Samgöngumál.

(Mál nr. 12376/2023)

Kvartað var yfir að erindum til Samgöngustofu hefði ekki verið svarað.  

Í svörum Samgöngustofu til umboðsmanns kom fram að mistök hefðu verið gerð þar sem erindunum hefði hvorki verið svarað né gerð grein fyrir framgangi málsins. Úr því hefði verið bætt. Þar með var ekki ástæða til að umboðsmaður aðhefðist frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. september sl. yfir því að erindum yðar til Samgöngustofu, í kjölfar þess að starfsmaður hennar sendi yður bréf um mögulega leyfisskylda farþegaflutninga án leyfis, hefði ekki verið svarað.

Í tilefni af kvörtun yðar var Samgöngustofu ritað bréf 25. október sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi þau, sem kvörtun yðar til umboðsmanns laut að, hefðu borist stofnuninni og, ef svo væri, hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Þá var og óskað upplýsinga um hvað liði meðferð þess máls er umrædd erindi vörðuðu.

Svar Samgöngustofu barst 7. nóvember sl. en þar kemur fram að þau mistök hafi verið gerð að erindum yðar hafi ekki verið svarað né heldur hafi yður verið gerð grein fyrir framgangi málsins. Í svarinu kemur þó einnig fram að 3. nóvember sl. hafi yður verið sent tölvubréf þar sem erindum yðar var svarað og yður gerð grein fyrir því að stofnunin myndi ekki aðhafast frekar í málinu. Þar var þó áréttað að ábendingin um hina ætluðu leyfisskyldu farþegaflutninga án leyfis hefði verið áframsend lögreglu.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi þess að Samgöngustofa hefur brugðist við erindum yðar með ofangreindu tölvubréfi 3. nóvember sl., tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til a- liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.