Menntamál. Starfsnám lögreglu. Rannsóknarreglan. Rökstuðningur. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11975/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun ríkislögreglustjóra um synjun umsóknar hans um starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Ákvörðunin byggðist á því að A uppfyllti ekki skilyrði lögreglulaga fyrir inngöngu í námið vegna þess að hann hefði sýnt af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu almennt að njóta. Í kvörtuninni var byggt á því að ákvörðunin hefði verið efnislega röng og rannsókn málsins ófullnægjandi þar sem dregnar hefðu verið ályktanir af sögusögnum frá ónafngreindum aðilum sem ekki hefðu verið rannsakaðar eða bornar undir A. Þá laut kvörtunin að því að A hefði ekki fengið aðgang að öllum samskiptum ríkislögreglustjóra eða annarra lögregluembætta við erlend lögregluyfirvöld sem hann vörðuðu.

Synjun ríkislögreglustjóra var byggð á því að lögregla hefði haft afskipti af A vegna tilkynningar frá starfsfólki framhaldsskóla um tiltekið atvik. Jafnframt hefði starfsfólk, að sögn aðstoðarskólameistara, lýst áhyggjum af framkomu hans og viðhorfum. Þá hefði honum verið vísað úr öðrum skóla vegna „svipaðra atvika“.  Af skýringum ríkislögreglustjóra varð ráðið að embættið teldi sjálft að rannsókn málsins hefði að vissu marki verið ábótavant og að ekki hefði mátt leggja óstaðfestar upplýsingar ónafngreindra aðila um viðhorf A einar og sér til grundvallar synjun. Hins vegar hefðu tiltekin atvik, sem óumdeilt var að hefðu átt sér stað, í heild verið nægileg til að hann teldist ekki fullnægja skilyrðum fyrir inngöngu í námið. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat ríkislögreglustjóra hefði að því leyti verið ómálefnalegt eða bersýnilega óforsvaranlegt með tilliti til þeirra upplýsinga sem fyrir lágu um atvikin. Þá hefði lýsing A sjálfs á öðru atvikinu verið lögð til grundvallar við matið samkvæmt skýringum embættisins.

Umboðsmaður taldi aftur á móti að rökstuðningur ríkislögreglustjóra fyrir ákvörðuninni hefði ekki verið í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga. Leit hann þar til þess að hvorki var vikið að þýðingu þess að A var á barnsaldri þegar tiltekið atvik, sem vísað var til í ákvörðuninni, átti sér stað né því aukna vægi sem ríkislögreglustjóri sagði að öðru atviki hefði verið veitt. Þó hefði verið sérstakt tilefni til að víkja að því atriði. Jafnframt taldi umboðsmaður að einhverju marki óljóst til hvaða „svipuðu atvika“ vísað var í ákvörðun embættisins. A hafði verið veitt afrit dagbókarfærslu sem innihélt lýsingu á atviki sem leiddi til brottvikningar hans úr skóla en jafnframt öðrum atvikum sem virtust einungis nefnd til marks um háttsemi sem þætti einkennileg eða óæskileg. Af skýringum ríkislögreglustjóra til umboðsmanns varð ráðið að í reynd hefði verið litið til þeirra atvika að einhverju marki en af texta ákvörðunarinnar var hins vegar ekkert ráðið um það. Umboðsmaður taldi því að rökstuðningurinn hefði verið til þess fallinn að valda misskilningi um það hvaða atvik réðu í raun niðurstöðunni.

Að lokum taldi umboðsmaður ekki forsendur til að rengja að tilteknar upplýsingar um samskipti ríkislögreglustjóra við erlend lögregluyfirvöld lægju ekki fyrir í skjallegu formi. Þar með væru ekki heldur forsendur til að fullyrða að ekki hefði verið farið að fyrirmælum laga um aðgang að gögnum að því er þessi samskipti varðaði. Vegna viðbragða embættisins við gagnabeiðni A að öðru leyti áréttaði umboðsmaður hins vegar að ákvörðun um að veita aðgang að gögnum í stjórnsýslunni heyrði almennt undir það stjórnvald sem væri bært til að leysa úr stjórnsýslumáli og hefði umráð skjals. Embættið hefði þar af leiðandi verið bært til að taka ákvörðun um rétt A til aðgangs að tilteknum öðrum gögnum í málinu þótt þau hefðu verið hluti af lögreglumáli á forræði lögreglustjóraembættis. Þá gæti enga þýðingu haft þótt faðir A hefði fengið afrit af skýrslu sem tilheyrði málinu fjórum árum áður en atvik þessa máls áttu sér stað. Í þessu sambandi lagði umboðsmaður áherslu á mikilvægi þess að upplýsingaréttur umsækjenda væri virtur í málum þar sem ríkislögreglustjóri fyrirliggjandi upplýsingar gefa tilefni til synjunar á matskenndum grundvelli.

Þar sem umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá efnislegu niðurstöðu ríkislögreglustjóra að synja A um inngöngu í starfsnámið taldi hann ekki ástæðu til að beina tilmælum til embættisins um endurupptöku málsins. Þá taldi hann heldur ekki ástæðu til að beina tilmælum til embættisins varðandi aðgang A að gögnum þar sem hann hefði ekki gert sérstakar athugasemdir við að hafa ekki fengið gögn í eldra lögreglumáli. Umboðsmaður beindi því engu að síður til embættis ríkislögreglustjóra að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 22. desember 2023. 

   

   

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 21. desember 2022 leitaði B lögmaður til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd A og kvartaði yfir ákvörðun ríkislögreglustjóra 13. júní 2022 í máli nr. [...] þar sem umsókn hans um starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, sem starfar innan embættisins, var synjað.

Ákvörðun ríkislögreglustjóra byggðist á því að A uppfyllti ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, eins og henni hefur síðar verið breytt, fyrir inngöngu í námið vegna þess að hann teldist hafa sýnt af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu almennt að njóta.

Í kvörtuninni er byggt á því að ákvörðun ríkislögreglustjóra hafi verið efnislega röng og því m.a. haldið fram að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi þar sem dregnar hafi verið ályktanir af sögusögnum frá ónafngreindum aðilum sem ekki hafi verið rannsakaðar eða bornar undir A. Þá lýtur kvörtunin að því að A hafi ekki  fengið aðgang að öllum samskiptum embættisins eða annarra lögregluembætta við [...] lögregluyfirvöld sem hann varða.

  

II Málavextir

Í apríl 2022 sótti A um inngöngu í starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Við mat á umsókn hans voru m.a. skoðaðar upplýsingar í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra (LÖKE) og komu þá fram upplýsingar um tilvik sem hann varðaði og upplýsingar um hann sem bárust alþjóðadeild embættisins frá [...] lögregluyfirvöldum. Honum var tilkynnt um fyrirhugaða synjun umsóknarinnar 5. maí þess árs á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir inntöku í námið. Í bréfinu segir eftirfarandi: 

Ríkir almannahagsmunir eru fólgnir í því að lögreglumenn uppfylli almenn inntökuskilyrði lögreglulaga nr. 90/1996 og reglugerðar nr. 221/2017 um [mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu]. Þess má sjá stað í 38. gr. lögreglulaga og einnig í 7. gr. reglugerðar um [mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu].

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga skulu nemar í starfsnámi í fyrsta lagi ekki hafa gerst brotlegir við refsilög. Þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því það var framið. Í öðru lagi er það gert [að] skilyrði samkvæmt ákvæðinu að nemar mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Í 2. mgr. 38. gr. kemur fram að til að sannreyna hvort viðkomandi umsækjandi uppfylli skilyrði b-liðar 1. mgr. 38. gr. er mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 221/2017 kemur einnig fram að við val á nemendum í starfsnám skuli gæta að því að velja ekki til starfsnáms einstaklinga sem ætla má að eigi erfitt með að sinna lögreglustarfi svo vel fari, svo sem vegna óreglusemi, fjárhagsvanda eða vegna þess að viðkomandi hefur hlotið dóm fyrir brot á sérrefsilöggjöf.

Í bakgrunnsskoðun vegna umsóknar þinnar kemur í ljós við skoðun í málaskrá lögreglu, mál lögreglu nr. [...]. Þar kemur fram að lögregla hafði afskipti af þér vegna tilkynningar frá starfsfólki [...] um að þú hefðir mætt með hníf í skólann. Að sögn skólastjórans hafði starfsfólk skólans einnig lýst yfir áhyggjum af framkomu þinni og þá sérstaklega í tengslum við ummæli þín um múslima og jafnframt að þú hafir [...] sem starfsfólkið túlkaði sem hliðhollri [svo] gagnvart nasisma. Þá hefur embætti ríkislögreglustjóra jafnframt upplýsingar frá [...] lögregluyfirvöldum þess efnis að þér hafi verið vísað úr skóla þar í landi vegna svipaðra atriða.

Í ljósi ofangreinds, þar á meðal markmiðs 38. gr. lögreglulaga og 7. gr. reglugerðar um mennta og starfsþróunarsetur lögreglu ert þú hér með upplýstur um að [mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu] hyggst hafna umsókn þinni, á þeim grundvelli að þú uppfyllir ekki inntökuskilyrði þar sem þú með vísan til framangreindrar atvikalýsingar, telst hafa sýnt af þér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta.

Með bréfinu var A gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í máli hans.

Hinn 9. sama mánaðar óskaði lögmaður A eftir nánari skýringum á grundvelli fyrirhugaðrar ákvörðunar ríkislögreglustjóra og aðgangi að gögnum sem byggt væri á við undirbúning hennar. Starfsmaður ríkislögreglustjóra svaraði erindinu degi síðar með því að senda lögmanninum dagbókarfærslu um verkefni greiningardeildar ríkislögreglustjóra nr. [...]. Þar er skráð dagbókarfærsla um að 27. janúar 2022 hafi [...] lögreglan sent fyrirspurn um mann sem væri til skoðunar vegna róttækra skoðana. Fyrirspurnin barst með tölvubréfi degi áður og laut að sakarferli A og hvort fyrir lægju upplýsingar um róttæk viðhorf hans eða möguleika á ofbeldi af hans hálfu. Hinn 9. mars þess árs var eftirfarandi færsla skráð í dagbókina:

Thanks for the information. Do you have information about A staying? Is he back in Iceland? We have not found departure, but we believe he has returned to Iceland. A has no criminal record in [...], and the [...] police have not been in contact with him. After he was expelled, the school is said to have driven him to the airport.

The school in [...] has explained the basis for the expulsion:

[...]

We have been told that there were several strange situations with A.

[...]

Frekari skýringar voru ekki veittar og gögn um lögreglumál nr. [...] voru ekki afhent án þess að það væri skýrt nánar.

Athugasemdir A við fyrirhugaða synjun bárust ríkislögreglustjóra 13. maí 2022, auk þess sem lögmaður hans lagði fram andmælabréf 19. þess mánaðar, þar sem byggt var á því að A hefði aldrei gerst sekur um lögbrot eða háttsemi sem gæti rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu að njóta. Í athugasemdum A kom m.a. efnislega fram að dagbókarfærslurnar endurspegluðu ekki með réttum hætti þau atvik sem lágu þeim til grundvallar, jafnframt því sem hann lýsti þeim af sínum sjónarhóli og veitti á þeim nánari skýringar. Í athugasemdunum var vísað til ungs aldurs A þegar atvik máls nr. [...] áttu sér stað, að langt væri liðið frá því og hann hefði [...]. Þá væru ásakanir um andfélagsleg viðhorf og andúð á útlendingum sem hefðu komið fram í tengslum við málið óstaðfestar sögusagnir hafðar eftir ónafngreindu fólki. Hvað varðaði upplýsingar frá [...] lögreglunni í dagbókarfærslu nr. [...] hefði A ekki andmælt þeim fullyrðingum, sem þar komu fram þegar honum var vísað úr skóla, vegna tungumálaörðugleika en að hans mati hefði ekki verið um alvarlegt atvik að ræða. Ekki hefði verið um að ræða [...] og ekki hefði komið til kasta lögreglu. Þá væri túlkun á annarri hegðun sem lýst væri í dagbókarfærslunni undarleg og atvikin tekin úr samhengi.

Umsókninni var synjað með bréfi ríkislögreglustjóra 13. júní 2022. Í bréfinu er gerð grein fyrir skilyrðum b-liðar 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga og 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 221/2017 og tekið fram að þau þurfi að túlka með hliðsjón af 28. gr. a í sömu lögum, þar sem mælt er fyrir um sambærileg skilyrði fyrir veitingu starfa í lögreglu. Í bréfinu segir því næst eftirfarandi: 

Markmið inntökuskilyrða sem fjallað er um í 38. gr., sbr. 28. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996 og 7. gr. reglugerðar nr. 221/2017 er að tryggja trúverðugleika lögreglumanna gagnvart almennum borgurum. Sérstaða lögreglumanna í samfélaginu felst í því að lögreglan, ein starfsstétta á Íslandi, hefur eftirlit með því að lögum sé fylgt og rannsakar m.a. mál sem refsing liggur við skv. ákvæðum laga og hefur lagalegar heimildir til að beita almenna borgara þvingunarúrræðum s.s. frelsissviptingu og í undantekningartilfellum valdbeitingu svo eitthvað sé nefnt. Þá vinna lögreglumenn eðli máls samkvæmt með viðkvæmar upplýsingar um þá sem til hennar leita og fá jafnframt aðgang að upplýsingum um einstaka rannsóknaraðgerðir. Í því felast miklir almannahagsmunir að til lögreglustarfsins veljist eingöngu einstaklingar sem enginn vafi leikur á að séu traustsins verðir.

Til að sannreyna hvort viðkomandi uppfylli framangreind skilyrði er mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu, sbr. 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga.

Í bakgrunnsskoðun vegna umsóknar þinnar kemur í ljós við skoðun í málaskrá lögreglu, LÖKE, mál nr. [...] að lögregla hafði afskipti af þér vegna tilkynningar frá starfsfólki [...] um að þú [...]. Að sögn skólastjórans hafði starfsfólk skólans einnig lýst áhyggjum af framkomu þinni og þá sérstaklega í tengslum við ummæli þín um múslima og jafnframt að þú hafir [...] sem starfsfólkið túlkaði sem hliðholla gagnvart nasisma. Þá hefur embættið jafnframt upplýsingar um frá [...] lögregluyfirvöldum þess efnis að þér hafi verið vísað úr skóla þar í landi vegna svipaðra atvika.

Í framhaldinu var tiltekið að A hefði nýtt rétt sinn til andmæla og þá sagði:

Í ljósi ofangreinds, þar á meðal markmiðs 38 gr. sbr. 28. gr. lögreglulaga og 7. gr. reglugerðar um mennta og starfsþróunarsetur lögreglu uppfyllir þú ekki inntökuskilyrði þar sem þú, með vísan til framangreindrar atvikalýsingar, telst hafa sýnt af þér háttsemi sem rýrt getur það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Við inntöku er lagt sjálfstætt mat á atvik máls hverju sinni og hefur lögregla þar nokkurt svigrúm til mats. Litið er til þess við ráðningar og jafnframt inntöku í starfsnám að hafið sé yfir vafa að viðkomandi geti sinnt starfi sína svo vel sé. Þar með talið að veita öllum samfélagshópum sömu þjónustu og að það sé hafið yfir allan vafa að viðhorf og skoðanir viðkomandi mótist ekki af andfélagslegum skoðunum.

  

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og ríkislögreglustjóra

Með bréfi 18. janúar 2023 var óskað eftir því að ríkislögreglustjóri léti umboðsmanni í té afrit af öllum gögnum í máli A, lýsti viðhorfi sínu til kvörtunar hans og veitti jafnframt tilteknar upplýsingar og skýringar. Í bréfi umboðsmanns var í fyrsta lagi óskað eftir nánari skýringum á því að háttsemi A teldist þess eðlis að hún gæti rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu almennt að njóta, einkum m.t.t. þess að hann hafi verið á barnsaldri þegar téð háttsemi í framhaldsskóla átti sér stað auk þess sem nokkur tími væri liðinn frá þeim atvikum. Í öðru lagi var þess óskað að gerð yrði grein fyrir því hvort og þá hvaða þýðingu andmæli og skýringar sem A færði fram á háttsemi sinni, sem varð grundvöllur synjunar ríkislögreglustjóra, höfðu við mat á umsókninni. Í þriðja lagi var óskað eftir að gerð yrði grein fyrir því hvort og þá með hvaða hætti hefði verið lagt sjálfstætt mat á eða leitað staðfestingar á þeim tilgreindu atriðum sem litið var til við mat á umsókninni og höfð voru eftir starfsfólki framhaldsskóla og [...] í [...]. Hefði það ekki verið gert var óskað skýringa á því hvort og þá hvernig málsmeðferðin að þessu leyti samrýmdist 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

Svör og gögn frá ríkislögreglustjóra bárust með bréfi 31. mars 2023. Í svörunum kemur m.a. fram að synjun við umsókn A um starfsnám hafi byggst á því að hann hefði sýnt af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem lögreglumenn verði almennt að njóta. Um nánara mat á háttsemi A segir m.a. eftirfarandi í svarbréfi ríkislögreglustjóra:  

Í máli kvartanda nr. [...], sem skráð er í lögreglukerfið (hér eftir LÖKE), sbr. i-liður 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, kemur fram að kvartandi hafi verið uppvís að því að [...], ásamt upplýsingum frá aðstoðarskólastjóra um að kvartandi hafi verið talin hafa tilburði til andfélagslegra viðhorfa til útlendinga af hálfu starfsfólks. Sú háttsemi að [...] er hlutlægt séð talin þess eðlis að hún geti rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta og allt starfsfólk lögreglu, sbr., 28. gr. a. lögreglulaga, sbr. einnig í þessu sambandi b-liður 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og sbr. 1. ml. 1. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hins vegar líkt og kemur fram var kvartandi á barnsaldri, eða 16 ára að aldri, þegar ofangreind háttsemi átti sér stað og hafði því náð sakhæfisaldri en talinn það ungur að árum að þetta atvik eitt og sér gæti ekki talist háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Fullyrðingar um andfélagsleg viðhorf voru ekki borin beint undir þá starfsmenn skólans sem áttu að hafa viðhaft þau og rétt að málið var ekki rannsakað frekar af hálfu lögreglu, skráð sem „rannsókn hætt hjá lögreglu“ hvað varðar málsliðinn [...] og málsliðurinn „tilkynning“ skráður með stöðuna „verkefni lokið“. Samkvæmt upplýsingum í málinu í LÖKE var málið tilkynnt til barnaverndarnefndar í samræmi við 18. gr. laga nr. 80/2002. Við meðferð umsóknar kvartanda og skoðun á bakgrunni var atvikið metið heildstætt og meðferð þess hjá lögreglu, að virtri þeirri skoðun var niðurstaðan sú að líta bæri til atviksins en þó með þeim fyrirvara að kvartandi var ungur að árum.

Þau atvik sem leiddu til þess að kvartanda var vísað úr skóla í [...] vegna ákveðinnar háttsemi sem hafði átt sér stað og samræmdist ekki hátternisreglum skólans, m.a. hvað varðar [...], hafði einnig áhrif í heildarmatinu. Rétt er að taka fram að þau atvik höfðu átt sér stað innan árs frá því að kvartandi leggur inn umsókn um starfsnám og kvartandi var auk þess þá orðinn [...] að aldri.

Lagt var heildstætt mat á fyrirliggjandi upplýsingar og í þessu tilviki, og í ljósi ungs aldurs við fyrra atvikið sem varðaði [...], þá voru það samlegðaráhrif af þessum tveimur atvikum eða atburðum, og fyrirliggjandi upplýsingum um þau m.a. frá kvartanda, sem leiddu til þess að þetta væri háttsemi sem rýrt getur það traust sem lögreglunemar og allt starfsfólk lögreglu þarf almennt að njóta. Í heildarmatinu geta tvö slík atvik haft þau áhrif, þetta hefði mátt koma skýrar fram í andmælabréfinu, þ.e. að þessi tvö atvik hefðu samanlagt þau áhrif að það leiddi til synjunar og í því sambandi ekki bara ofangreint atvik. Rétt er í þessu sambandi að nefna að atvik þau sem leiddu til brottvikningar úr skóla í [...] stuttu fyrir það að kvartandi lagði inn umsókn um starfsnám hefðu mögulega, ein og sér, getað talist háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglunemar og starfsfólk lögreglu verða njóta, þannig að tekinn sé af allur vafi um það að hið seinna atvik vó þyngra í heildarmatinu og að teknu tilliti til ungs aldurs kvartanda við hið fyrra [...].

Að ofangreindu virtu er talið að þetta hefði mátt koma skýrar fram í fyrirhugaðri synjun og synjunarbréfinu, enda kannski villandi að einungis hafi verið sérstaklega tiltekin málsatvik úr fyrra málinu en ekkert um innihald þeirra atvika sem leiddu til brottvikningar úr skóla í [...]. Telur embætti ríkis- lögreglustjóra því að framangreindur greinarmunur sem gerður var á atvikunum tveimur og því vægi sem þeim var veitt hefði mátt vera skýrari í fyrirhugaðri synjun og synjunarbréfinu.

Um ætluð andfélagsleg viðhorf A segir:

Hvað varðar tilvísun til andfélagslegra viðhorfa sem komu frá starfsmönnum skólans í gegnum aðstoðarskólastjóra [...] er talið að ekki hefði átt að vísa sérstaklega í þær fullyrðingar í synjunarbréfi þar sem þær voru ekki bornar sérstaklega undir ónafngreindu starfsmenn skólans á sínum tíma við rannsókn málsins, eftir stendur þó sú háttsemi [...] sem getur varðað við [...] en vegna ungs aldurs var það metið heildstætt í tengslum við atvikin sem vörðuðu brottvísun úr skóla. Fullyrðingar um slíkt í synjunarbréfinu voru of afdráttarlausar miðað við að um var að ræða ummæli frá ótilgreindum einstaklingum.

Síðar í skýringunum segir þó um þetta atriði:

Fagfólk innan tveggja óskyldra menntastofnana í tveimur mismunandi löndum, Íslandi og [...], lýstu yfir áhyggjum af mögulegri andfélagslegri hegðun umsækjandans, m.ö.o. voru fyrirliggjandi upplýsingar frá tveimur óskyldum aðilum sem bentu í sömu átt og studdu upplýsingarnar sem komu frá [...] við upplýsingar frá starfsfólki [...]. Embætti ríkislögreglustjóra telur eðlilegt að horft sé sérstaklega til þess þegar um er að ræða samhljóða eða mjög svipaðar upplýsingar um tiltekna hegðun umsækjenda verði að meta það sem svo að upplýsingarnar eigi mjög líklega við rök að styðjast og á sama tíma sé það mjög erfitt að horfa fram hjá mati fagfólks sem starfar við menntastofnanir.

Um þýðingu skýringa og andmæla A á atvikum sem lágu til grundvallar synjuninni segir að lagt hafi verið mat á þau og niðurstaðan verið sú að þau breyttu ekki heildarmati á háttsemi hans, þ.e. [...] og brottvikningu úr skóla í [...] stuttu áður en umsókn um starfsnám var lögð fram. Í skýringunum segir m.a. um þetta atriði:

Tilvísun í andmælum til þess að [...], sbr. lýsingar kvartanda er talin háttsemi sem ekki samræmist hátterni því og þeim aga sem tilvonandi og starfandi lögreglumenn verða að búa yfir, hlutverk lögreglunnar er ávallt að róa aðstæður og leysa þær án nokkurs konar valdbeitingar eða handalögmála, nema ýtrasta nauðsyn krefji.

Hvað varðar tilvísun í andmælum kvartanda til atvika sem vörðuðu [...] getur slík háttsemi rýrt það traust sem lögreglunemar verða almennt að njóta. Hér er sérstök athygli vakin á 5. gr. siðareglna lögreglu, sem síðast voru endurskoðaðar árið 2016, um að:

„Starfsmenn lögreglu verða ávallt að virða það að allir eru jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.“

Rétt er að ítreka að um atvik er að ræða sem áttu sér stað stuttu áður en kvartandi sækir um starfsnám og var hann auk þess orðinn fullorðinn eða [...] ára að aldri.

Hér er einnig vakin athygli á 2. mgr. 3. gr. siðareglna lögreglu þar sem m.a. er fjallað um það að starfsmenn lögreglu geta því aðeins vænst trausts og virðingar vegna starfa sinna að þeir framkvæmi hlutverk lögreglu með það að leiðarljósi að þjóna samfélaginu af heiðarleika, hlutlægni, réttsýni, nærgætni, trúmennsku, þagmælsku og þekkingu. Siðareglur lögreglu gera m.a. þær kröfur til starfsmanna og tilvonandi starfsmanna, enda reglurnar kynntar á fyrstu stigum námsins sérstaklega, að þeir gæti hlutlægni og sýni nærgætni, enda sú starfsstétt sem þarf oft að aðstoða allan almenning á þeirra verstu tímum og því mikið lagt upp úr því að til lögreglu veljist starfsmenn sem hafi þessi gildi að leiðarljósi. Lögreglan er þjónustustofnun og eitt af hennar mikilvægustu hlutverkum er að aðstoða borgarana, sbr. einkum í þessu sambandi a- og d-liður 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Í heildarmatinu vógu þungt nýleg atvik sem áttu sér stað árið [...] og leiddu til þess að kvartanda var vísað úr skóla í [...]. Þetta hefði mátt koma skýrar fram í synjunarbréfinu og beðist velvirðingar á því.

Gera verður auknar kröfur til lögreglumanna í ljósi þeirra valdheimilda sem þeir hafa að öllum öðrum skilyrðum uppfylltum. Traust lögreglu gagnvart samfélaginu og að samfélagið geti treyst því að fá þjónustu sem litast ekki af fyrirframgefnum hugmyndum um viðkomandi er mjög mikilvæg. Að mati embættis ríkislögreglustjóra liggja almannahagsmunir að baki því að þeir einstaklingar sem komast inn í starfsnám hjá MSL og eiga þannig kost á að vera skipaðir lögreglumenn séu traustsins verðir og hafi ekki gerst sektir um háttsemi sem getur rýrt það traust.

Um mat eða staðfestingu á þeim atriðum, sem litið var til við mat á umsókn A og höfð voru eftir starfsfólki [...] segir m.a. eftirfarandi:

[Ekki er talið] rétt að hafa vísað í synjunarbréfinu og tekið af skarið með að vísa í ummæli ótilgreinds starfsfólks sem staðfestingu á m.a. andfélagslegum skoðunum, beðist er velvirðingar á því og framvegis verður betur gætt að þessu og framsetningu svara til umsækjenda og með vísan til ofangreindrar umfjöllunar Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að taka aftur fram að atvik það sem varðaði [...] vó ekki eins þungt í heildarmatinu hvað varðar grundvöll synjunar.

Hvað varðar atvik sem áttu sér stað sem undanfari nýlegrar brottvikningar úr skóla í [...] var lagt mat á skýringar kvartanda sem komu fram í andmælunum og talið að þær skýringar leiddu ekki til breytts mat hvað þetta varðar. Í ljósi þess var talið nægjanlegt að leggja til grundvallar skýringar kvartanda í andmælum á atvikum máls og niðurstaðan að þrátt fyrir það, þ.e. skýringar kvartanda á atvikum máls, væri um að ræða háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglunemar yrðu almennt að njóta.

Í skýringum um meðferð á gagnabeiðni lögmanns A kemur fram að mál nr. [...] hafi verið til meðferðar hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra og því á forræði þess embættis að taka afstöðu til og miðla gögnum sem vörðuðu það mál. Þá hefði faðir A fengið afrit af skýrslu í máli [...] hinn [...], en málið hefði verið á forræði lögreglustjórans á X.

Athugasemdir A vegna framangreindra svara ríkislögreglustjóra bárust 17. apríl 2023. Jafnframt upplýsti hann umboðsmann um meðferð ríkislögreglustjóra á umsókn hans um starfsnám fyrir skólaárið 2023 til 2024.

Hinn 19. september 2023 hafði starfsmaður umboðsmanns samband við embætti ríkislögreglustjóra og óskaði eftir nánari upplýsingum um þau svör sem embættið veitti við upplýsingabeiðni [...] lögreglunnar, sbr. áðurnefnda dagbókarfærslu. Svar barst með tölvubréfi 28. þess mánaðar. Þar segir eftirfarandi:

Það finnast ekki tölvupóstar með þessu svari við spurningunum frá [...], og því að öllum líkindum engin frekari skrifleg gögn til grundvallar í þessu máli.

Líklega hefur það sem ekki er skráð verið afgreitt í formi símtals. Í því símtali/símtölum hefði væntanlega verið rætt um þær upplýsingar sem íslenska lögreglan bjó yfir sem voru í ákveðnum samhljómi við þær sem [...] lögreglan var að miðla til hinnar íslensku.

   

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur

Um menntun lögreglu er fjallað í VIII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996, eins og þeim var m.a. breytt með lögum nr. 61/2016. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna starfar mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra sem hefur m.a. það hlutverk að annast starfsnám nema í lögreglufræðum við háskóla, sbr. a-lið 2. mgr. greinarinnar. Um inntökuskilyrði nema í starfsnámið er fjallað í 38. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 61/2016, en þar segir m.a: 

1. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast starfsnám lögreglunema og velur nema í starfsnám í samstarfi við háskóla. Ákvörðun setursins um val á nemum í starfsnám er endanleg. Nemar í starfsnámi skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:

[...]

b. hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því það var var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,

[...]

2. Til að sannreyna hvort viðkomandi uppfylli skilyrði b-liðar 1. mgr. er mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.

Sambærileg ákvæði um hlutverk mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu og inntökuskilyrði nema í starfsnámið og nánari útfærsla á þeim skilyrðum sem umsækjendur þurfa að uppfylla koma fram í reglugerð nr. 221/2017, um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu. Þannig er ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar samhljóða b-lið 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga. Þá er í 7. gr. reglugerðarinnar fjallað nánar um val á nemendum í starfsnám. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar metur mennta- og starfsþróunarsetur, í samstarfi við háskóla, hvort umsækjendur fullnægi inntökuskilyrðum og ákveður hverjir skuli hefja starfsnám. Ákvörðun setursins um val á nemum í starfsnám er endanleg. Í 1. og 2. málslið 2. mgr. greinarinnar segir eftirfarandi:

Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu skal leitast við að velja til starfsnáms þá hæfustu úr hópi umsækjenda á hverjum tíma. Einkum skal þess gætt að velja ekki til starfsnáms einstakling sem ætla má að eigi erfitt með að sinna lögreglustarfi svo að vel fari, svo sem vegna óreglusemi, fjárhagsvanda eða vegna þess að hann hefur hlotið dóm fyrir brot á sérrefsilöggjöf.

Leggja verður til grundvallar að með fyrrnefndum b-lið 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga hafi löggjafinn falið ríkislögreglustjóra að leggja mat á fyrri háttsemi og athafnir umsækjenda um starfsnám. Er embættinu veitt sérstök heimild í 2. mgr. greinarinnar til að afla upplýsinga um umsækjanda úr sakaskrá og málaskrá lögreglu í því skyni að leggja grunn að mati sínu.

Ákvæðið, eins og það verður skýrt með hliðsjón af tiltækum lögskýringargögnum og almennum reglum stjórnsýsluréttar, ber með sér að við mat sitt njóti ríkislögreglustjóri ákveðins svigrúms. Að því er lýtur að síðari hluta þess verður þannig að horfa til þess að það hefur ekki að geyma nánari afmörkun á því hvaða háttsemi „getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta“. Nánari viðmið um þetta atriði koma ekki fram í reglugerð og af tiltækum lögskýringargögnum verða einungis dregnar almennar ályktanir um þau markmið sem að er stefnt með ákvæðinu. Við mat sitt er ríkislögreglustjóri þó sem endranær bundinn af reglum stjórnsýsluréttarins um málsmeðferð og efnislega niðurstöðu en af því leiðir m.a. að synjun umsóknar um starfsnám á þessum grundvelli verður að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.

  

2 Var ákvörðun ríkislögreglustjóra efnislega í samræmi við lög?

Svo sem áður greinir var synjun ríkislögreglustjóra við umsókn A byggð á því að lögregla hefði haft afskipti af honum vegna tilkynningar frá starfsfólki framhaldsskóla um að hann hefði [...]. Einnig hefði starfsfólk skólans, að sögn aðstoðarskólastjóra, lýst áhyggjum af framkomu hans og þá sérstaklega í tengslum við múslima og hann hefði [...] sem starfsfólkið taldi hliðholla nasisma. Þá hefði honum verið vísað úr skóla í [...] vegna „svipaðra atvika“. Með þessu hefði A verið talinn hafa sýnt af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu almennt að njóta, sbr. síðari hluta b-liðar 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Var sérstaklega tekið fram að við inntöku í starfsnám yrði að vera hafið yfir vafa að viðkomandi gæti veitt öllum samfélagshópum sömu þjónustu og viðhorf viðkomandi mótuðust ekki af andfélagslegum skoðunum.

Í nánari skýringum ríkislögreglustjóra hefur komið fram að sú háttsemi að [...] sé hlutlægt séð talin þess eðlis að hún geti rýrt það traust sem lögreglumenn verði almennt að njóta. Þar sem A hafi verið á barnsaldri þegar atvikið átti sér stað hefði það þó, í hans tilviki, ekki eitt og sér verið talið falla undir slíka háttsemi en litið hefði verið til þess við heildstætt mat á umsókn hans. Við það mat hefði einnig verið litið til atvika sem leiddu til brottvísunar hans úr [...] en þau hefðu mögulega ein og sér getað talist fela í sér háttsemi af þessum toga og vegið þyngra í heildarmatinu. Samkvæmt tölvubréfi [...] lögreglunnar er þar um að ræða tilvik þar sem hann mun hafa [...] og kemur fram í skýringum ríkislögreglustjóra að lýsing A sjálfs á því atviki hafi verið lögð til grundvallar við matið.

Hvað varðar það mat ríkislögreglustjóra, að ekki væri yfir vafa hafið að A gæti veitt öllum samfélagshópum sömu þjónustu og viðhorf hans mótuðust ekki af andfélagslegum skoðunum, skal tekið fram að upplýsingar sem stjórnvald aflar við rannsókn máls þarf eftir atvikum að staðreyna til þess að tryggja að ákvörðun verði tekin á réttum grundvelli, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ræðst þá af mikilvægi máls, þýðingu upplýsinga, frá hverjum þær stafa og fleiri atriðum hversu ríka skyldu stjórnvöld hafa að þessu leyti. Að meginstefnu er ekki heimilt að byggja ákvarðanir á upplýsingum frá ónafngreindum einstaklingum þótt slíkar ábendingar geti orðið stjórnvaldi tilefni til rannsóknar og upplýsingar sem þannig fáist kunni þá að verða lagðar til grundvallar við úrlausn máls (sjá nánar Páll Hreinsson: Málsmeðferð stjórnvalda. Reykjavík 2019, bls. 178).

Í nánari skýringum ríkislögreglustjóra kemur fram að að ekki hefði átt að vísa sérstaklega í óstaðfestar fullyrðingar ónafngreindra starfsmanna framhaldsskóla um andfélagsleg viðhorf A. Af þessu verður ráðið að ríkislögreglustjóri sé að þessu leyti þeirrar afstöðu að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og ekki hefði mátt leggja þessar upplýsingar einar og sér til grundvallar synjunar. Hins vegar er að mínu mati óljóst að hvaða marki embættið taldi sig að öðru leyti hafa forsendur til að byggja á sjónarmiðum um ætlaðar skoðanir A og á hvaða gögnum og upplýsingum sú afstaða væri þá byggð.

Hvað sem þessu líður verður að skilja skýringar ríkislögreglustjóra til mín á þá leið að synjun við umsókn A hafi byggst á heildstæðu mati þar sem a.m.k. var lagt til grundvallar að hann hefði [...]og hann hefði [...]. Hafi þessi tilgreindu tilvik í heild verið nægileg til að hann teldist ekki fullnægja skilyrðum fyrir inngöngu í námið.

Ég tel mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat embættisins að þessu leyti hafi verið ómálefnalegt eða bersýnilega óforsvaranlegt m.t.t. fyrirliggjandi upplýsinga. Minni ég í því sambandi á það svigrúm sem ríkislögreglustjóri nýtur að þessu leyti. Þar athugast einnig að óumdeilt er að þessi atvik áttu sér stað. Þá var lýsing A sjálfs á síðara atvikinu lögð til grundvallar við matið samkvæmt skýringum ríkislögreglustjóra. Ég tel þess vegna ekki nauðsynlegt að fjalla frekar um hvort embættið hafi haft fullnægjandi forsendur til að byggja synjun sína jafnframt á ályktunum um viðhorf hans.

Í þessu tilliti tek ég fram að ég geri ekki athugasemdir við að gerðar séu ríkar kröfur til umsækjenda um lögreglunám þegar lagt er mat á hvort fyrri háttsemi þeirra sé þess eðlis að hún geti rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta, þ.m.t. að viðkomandi verði að geta veitt öllum samfélagshópum sömu þjónustu. Hef ég þá í huga sérstakt eðli lögreglustarfa, einkum það grunnhlutverk sem lögreglumönnum er falið við að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu svo og þær heimildir til íhlutunar og valdbeitingar sem þeim er trúað fyrir í þessu skyni. Ég minni þó á að við meðferð stjórnsýslumáls er óheimilt að grípa til sönnunarreglna áður en gerðar hafa verið viðhlítandi ráðstafanir til að upplýsa það að fullu.

Samkvæmt framangreindu tel ég ekki fram komið að ákvörðun ríkislögreglustjóra um að synja A um inngöngu í starfsnám lögreglu í júní 2022 hafi að efni sínu verið í ósamræmi við lög. Ég tel engu að síður tilefni til að fjalla nánar um rökstuðning ríkislögreglustjóra fyrir niðurstöðum sínum og upplýsingarétt aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum.

  

3 Rökstuðningur ríkislögreglustjóra fyrir synjun

Samkvæmt íslenskum stjórnsýslurétti er rökstuðningur að meginreglu veittur eftir að ákvörðun hefur verið birt, komi fram ósk um það frá aðila máls, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skal jafnan veita leiðbeiningar um heimild aðila til að fá ákvörðun rökstudda, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 20. gr. laganna.

Í bréfi ríkislögreglustjóra 13. júní 2022, þar sem A var tilkynnt um synjun við umsókn hans, var honum ekki leiðbeint um heimild til að fá ákvörðunina rökstudda, svo sem skylt er þegar rökstuðningur fylgir ekki ákvörðun. Í ljósi þessa, svo og efnis bréfsins að öðru leyti, verður að leggja til grundvallar að við birtingu ákvörðunarinnar fyrir A hafi verið veittur samhliða rökstuðningur, sbr. 3. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kemur því til athugunar hvort rökstuðningur ríkislögreglustjóra, eins og hann var fram settur í bréfinu, hafi verið í samræmi við lög.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um efni rökstuðnings fyrir stjórnvaldsákvörðun. Þar segir í 1. mgr. að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Einkum ber þá að greina frá þeim sjónarmiðum sem höfðu aukið vægi við mat viðkomandi stjórnvalds og mestu réðu um niðurstöðu máls (sjá t.d. Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur. Málsmeðferð, áður tilv., bls. 827-829).

Jafnframt verða stjórnvöld að taka rökstudda afstöðu til þeirra málsástæðna sem aðilar færa fram að því marki sem þýðingu hefur fyrir úrlausn þess, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis frá 22. ágúst 2000 í máli nr. 2416/1998 og 26. apríl 2010 í máli nr. 5746/2009. Þótt samkvæmt þessu hvíli ekki á stjórnvöldum skylda til að taka rökstudda afstöðu til sérhverrar málsástæðu, sem aðili hefur fært fram, leiðir af þessu að stjórnvöldum ber að fjalla um þau meginsjónarmið aðila sem verulega þýðingu hafa fyrir málið. Verður þá einnig að hafa í huga þann tilgang rökstuðnings að stuðla að því aðili geti betur skilið ákvörðun og sætt sig við hana, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 24. október 2000 í máli nr. 2815/1999 og 29. desember 2006 í máli nr. 4580/2005.

Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal einnig, þar sem ástæða er til, rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Þetta á t.d. við ef staðreyndir máls eru umdeildar og ber þá að gera grein fyrir því hvaða afstöðu stjórnvald hefur tekið til þeirra atriða er varða sönnun í málinu (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303).

Við mat á því hvort gætt hafi verið að kröfum um efni rökstuðnings þarf fyrst og fremst að hafa í huga að rökstuðningur stjórnvalds­ákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raunin varð (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303). Það fer því eftir atvikum máls hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera til þess að því markmiði sé náð að málsaðili geti skilið hvers vegna niðurstaða hefur orðið sú sem raunin varð. Leiðir af þessu að stjórnvöld verða að haga orðalagi og framsetningu rökstuðnings þannig að þau atriði sem þar koma fram séu í eðlilegu samhengi við niðurstöðu málsins, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 30. desember 2008 í málum nr. 5220/2008 og 5230/2008 sem og 5. maí 2022 í máli nr. 10675/2020. Á þetta ekki síst við þegar um er að ræða ákvarðanir sem eru endanlegar innan stjórnsýslunnar, svo sem átti við í máli A.

Í bréfi ríkislögreglustjóra 13. júní 2022, þar sem A var tilkynnt um synjun umsóknar hans, var gerð grein fyrir inntökuskilyrðum nema í starfsnám hjá lögreglu, m.a. ákvæðum b-liðar 38. gr. lögreglulaga og 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 221/2017, um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu. Tekið var fram að um tvenns konar skilyrði væri að ræða og skýrt stuttlega hvers konar háttsemi gæti rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu yrðu almennt að njóta. Einnig var gerð almenn grein fyrir röksemdum að baki inntökuskilyrðunum að þessu leyti og sambandi þeirra við lagaskilyrði fyrir veitingu starfa hjá lögreglu. Í framhaldi af þessu var gerð grein fyrir því að við bakgrunnsskoðun vegna umsóknarinnar hefði komið í ljós að lögregla hefði haft afskipti af honum vegna tilkynningar frá starfsfólki nafngreinds framahaldsskóla um að hann hefði [...] og gerð var grein fyrir ummælum aðstoðarskólastjóra skólans um áhyggjur starfsfólks af framkomu hans í skólanum. Þá var tekið fram að ríkislögreglustjóri hefði upplýsingar frá [...] lögregluyfirvöldum þess efnis að honum hefði verið vísað úr skóla þar í landi „vegna svipaðra atvika“ án þess að það væri skýrt nánar. Aftur á móti var hvorki vikið að þýðingu þess að A hefði verið á barnsaldri þegar fyrstnefnda atvikið kom upp né því aukna vægi sem ríkislögreglustjóri segir í skýringum til umboðsmanns að brottvikningu hans úr [...] hafi verið veitt. Í ljósi andmæla A var þó að mínu mati sérstakt tilefni fyrir ríkislögreglustjóra að víkja að síðastgreinda atriðinu.

Ég tel jafnframt óljóst til hvaða afmörkuðu atvika sem áttu sér stað í [...] var vísað í ákvörðun embættisins og til hvaða atvika eða háttsemi A í framhaldsskólanum embættið taldi þeim svipa. Þannig fékk A, við meðferð málsins, afhent afrit dagbókarfærslu þar sem fram kemur lýsing [...] löggæsluyfirvalda á atvikinu sem leiddi til brottvikningar hans en jafnframt lýsing á öðrum atvikum sem ekki verður ráðið að hafi leitt til brottvikningarinnar heldur einungis nefnd til marks um háttsemi sem þótti einkennileg eða óæskileg. Þegar hann nýtti andmælarétt sinn lýsti hann m.a. þessum atvikum frá sinni hlið og í nánari skýringum ríkislögreglustjóra til umboðsmanns er tekin afstaða til þess að hvaða leyti sum þeirra, en ekki öll, samrýmast þeim kröfum sem gerðar eru til háttsemi nema í starfsnámi lögreglu. Af skýringunum verður þannig ráðið að í reynd hafi verið litið til þessara atvika að einhverju marki en af texta ákvörðunarinnar varð hins vegar ekkert ráðið um þetta.

Samkvæmt framangreindu tel ég að tilvísun ríkislögreglustjóra til þess að A hefði verið vísað úr [...] skóla vegna „svipaðra atvika“ og átt höfðu sér stað í nafngreindum framhaldsskóla, hafi ekki verið til þess fallin að varpa fullnægjandi ljósi á raunverulega ástæðu synjunar embættisins. Af þessu leiðir að það er álit mitt að rökstuðningur ríkislögreglustjóra í máli A hafi ekki verið í samræmi við kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga. Rökstuðningurinn var þannig til þess fallinn að valda misskilningi um hvaða atvik réðu í raun niðurstöðunni og náði hann þ.a.l. ekki því markmiði að viðtakandi hans gæti skilið ákvörðun embættisins og betur fellt sig við hana.

  

4 Viðbrögð ríkislögreglustjóra við beiðni um aðgang að gögnum

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Almennt er óheftur aðgangur aðila að gögnum máls nauðsynlegur til að tryggja rétt hans til að koma að viðhorfum sínum og leiðrétta framlögð gögn og upplýsingar sem stjórnvald hyggst leggja til grundvallar ákvörðun sinni. Aðgangur að gögnum undir meðferð máls er þannig jafnan forsenda þess að aðili geti gætt hagsmuna sinna með viðhlítandi hætti (sjá Páll Hreinsson: Málsmeðferð stjórnvalda, áður tilv., bls. 215). Áður er gerð grein fyrir því svigrúmi sem ríkislögreglustjóri hefur við mat á því hvort fyrri háttsemi umsækjanda um lögreglunám sé þess eðlis að hún geti rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Ég bendi á að við þær aðstæður að ríkislögreglustjóri telur fyrir liggja upplýsingar, sem gefi tilefni til að ætla að umsækjandi uppfylli ekki þetta matskennda skilyrði, er brýnt að hlutaðeigandi fái viðhlítandi færi á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, s.s. með leiðréttingum eða nánari útskýringum á því sem fram kemur um hann í fyrirliggjandi gögnum.  

Í kvörtun A eru m.a. gerðar athugasemdir við að hann hafi ekki fengið aðgang að öllum samskiptum embættisins eða annarra lögregluembætta við [...] lögregluyfirvöld sem hann varða. Er þar einkum átt við upplýsingar sem samkvæmt dagbókarfærslu í máli nr. [...] voru veittar [...] lögregluyfirvöldum um hann í tilefni af fyrirspurn. Ég hef ekki forsendur til að rengja þau svör ríkislögreglustjóra að þessar upplýsingar hafa verið veittar með símtali og því ekki fyrirliggjandi á skjallegu formi. Hef ég þ.a.l. ekki heldur forsendur til að fullyrða að ekki hafi verið farið að fyrirmælum 15. gr. stjórnsýslulaga að þessu leyti. Hins vegar hefur það vakið athygli mína, m.a. í ljósi fyrri skýringa ríkislögreglustjóra til mín vegna sambærilegra álitaefna, að í svörum embættisins kemur fram að annars vegar hafi mál nr. [...] verið á forræði lögreglustjórans á X og hins vegar hafi faðir A fengið afrit af skýrslu sem tilheyrði málinu.

Af þessu tilefni árétta ég þau sjónarmið, sem ég hef áður komið á framfæri við embætti ríkislögreglustjóra, að ákvörðun um að veita aðgang að gögnum í stjórnsýslunni heyrir almennt undir það stjórnvald sem er bært til að leysa úr stjórnsýslumáli og hefur umráð skjals, enda ber það stjórnvald ábyrgð á öflun skýringa og gagna í málinu, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 3. febrúar 1989 í máli nr. 3/1988 og 8. september 2022 í máli nr. 11504/2022. Embættið var þ.a.l. bært til að taka ákvörðun um rétt A til aðgangs að gögnum í máli nr. [...].

Þá liggur fyrir að mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu nýtti sér heimild 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 til að afla upplýsinga úr LÖKE um A og var byggt á þeim við ákvörðun í máli hans. Upplýsingarnar voru þannig ótvírætt gögn er vörðuðu mál hans samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Vísast um nánari röksemdir um þetta til álits umboðsmanns 10. nóvember 2023 í málum nr. 11696/2022 og 11761/2022. Það athugast að það gat hér enga þýðingu haft að faðir  A mun, rúmum [...] árum áður en atvik þessa máls áttu sér stað, hafa fengið afrit af skýrslu í lögreglumálinu. Í þessu sambandi árétta ég mikilvægi þess að upplýsingaréttur umsækjanda sé virtur í málum þar sem ríkislögreglustjóri telur fyrirliggjandi upplýsingar gefa tilefni til synjunar á matskenndum grundvelli, s.s. hér átti við.

Með vísan til framangreinds tel ég að viðbrögð ríkislögreglustjóra við gagnabeiðni A hafi ekki verið í samræmi við lög. Þar sem A hefur ekki gert sérstakar athugasemdir við að hafa ekki fengið gögnin í lögreglumáli nr. [...] og ekki er fram komið að þessi annmarki á meðferð málsins hafi verið til þess fallinn að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu ríkislögreglustjóra tel ég þó ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til embættisins af þessu tilefni.

  

V Niðurstaða

Það er álit mitt að rökstuðningur ríkislögreglustjóra í máli A, sem veittur var með bréfi embættisins til hans 13. júní 2022, hafi ekki verið í samræmi við kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 viðvíkjandi rökstuðningi stjórnvaldsákvörðunar. Er þá einkum horft til þess að framsetning rökstuðnings í synjunarbréfi ríkislögreglustjóra var til þess fallin að valda misskilningi um þau atvik sem í reynd skiptu meginmáli fyrir niðurstöðuna.  

Þar sem ég tel ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá efnislegu niðurstöðu ríkislögreglustjóra að synja A um inngöngu í starfsnámið tel ég ekki ástæðu til að beina tilmælum til embættisins um endurupptöku málsins. Þar sem A hefur ekki gert sérstakar athugasemdir við að hafa ekki fengið gögn í lögreglumáli nr. [...] afhent tel ég heldur ástæðu til að beina tilmælum til embættisins að því er það atriði varðar. Ég beini því engu að síður til ríkislögreglustjóra að hann hafi þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar, m.a. þau sem lúta að þýðingu upplýsingaréttar umsækjanda við þær aðstæður að embættið telur fyrirliggjandi upplýsingar gefa tilefni til að synja umsókn hans á matskenndum grundvelli.