Skattar og gjöld. Bifreiðagjald. Innheimta.

(Mál nr. 12254/0223)

Kvartað var yfir málsmeðferð Skattsins í tengslum við innheimtu bifreiðagjalda. Skatturinn hafi, með atbeina norskra skattyfirvalda, innheimt gjöldin vegna bifreiðar sem væri ekki lengur í eigu viðkomandi. 

Umboðsmaður benti viðkomandi á að ríkisskattstjóri hefði lýst sig reiðubúinn til að taka til skoðunar gögn og upplýsingar sem gætu orðið grundvöllur endurupptöku málsins auk þess sem hugsanlega væri mögulegt að óska aftur eftir niðurfellingu bifreiðagjalds. Ákvarðanir Skattsins í kjölfar slíkra umleitana kynnu svo að vera kæranlegar til yfirskattanefndar. Þá yrði ekki séð að Samgöngustofa hefði verið beðin um að afskrá bifreiðina. Viðbrögð hennar við beiðni þess efnis gæti e.t.v. orðið grundvöllur nýrra beiðna um niðurfellingu gjaldsins. En að svo stöddu væru ekki skilyrði til að umboðsmaður aðhefðist frekar vegna kvörtunarinnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 21. júní sl. yfir málsmeðferð Skattsins í tengslum við innheimtu bifreiðagjalda vegna tilgreindrar bifreiðar. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að Skatturinn hafi með atbeina norskra skattyfirvalda innheimt hjá yður bifreiðagjöld vegna bifreiðar sem ekki sé lengur í eigu yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Skattinum ritað bréf 26. júlí sl. þar sem þess var óskað að embættið veitti umboðsmanni upplýsingar og gögn er varpað gætu ljósi á efni kvörtunar yðar. Svarbréf Skattsins barst 7. september sl. og athugasemdir yðar í tilefni af því 1. nóvember sl. Í svarbréfi Skattsins 7. september sl. kemur meðal annars fram að þér hafið með bréfi 25. júlí 2019 sent erindi til ríkisskattstjóra um niðurfellingu bifreiðagjaldsins enda væri bifreiðin, sem væri tilefni álagningarinnar, ónýt. Ríkisskattstjóri synjaði um niðurfellingu bifreiðagjaldsins með úrskurði 14. október sama ár en sá úrskurður fylgdi svarbréfi Skattsins til umboðsmanns í afriti. Í sama bréfi kemur fram að tollstjóri hafi með bréfi 17. október 2017 leiðbeint yður um nauðsyn afskráningar umræddrar bifreiðar hjá Samgöngustofu. Að endingu kemur fram í bréfi Skattsins til umboðsmanns að ríkisskattstjóri lýsi sig eðli máls samkvæmt reiðubúinn til að taka til skoðunar þau gögn og upplýsingar, sem kynnu að verða lögð fram og leggja mætti til grundvallar endurupptöku málsins.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. greinarinnar segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ástæða þess að ofangreind ákvæði laga nr. 85/1997 eru rakin er sú að í málinu liggur aðeins fyrir einn úrskurður ríkisskattstjóra frá árinu 2019. Ljóst er að kvörtun yðar var borin fram utan þess ársfrests, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, auk þess sem ekki liggur fyrir að þér hafið skotið úrskurðinum til yfirskattanefndar svo sem yður var leiðbeint um að væri mögulegt í niðurlagi hans. Af þessum sökum eru ekki uppfyllt skilyrði að lögum þannig að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að þessu leyti.

Ofangreint ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 byggir á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri sjálf til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í ljósi þessa tel ég rétt að vekja sérstaka athygli yðar á því að ríkisskattstjóri lýsti sig reiðubúinn til að taka til skoðunar þau gögn og upplýsingar, sem gætu orðið grundvöllur endurupptöku málsins, auk þess sem yður kann að vera fært að óska á nýjan leik eftir niðurfellingu bifreiðagjalds. Ákvarðanir Skattsins í kjölfar slíkra umleitana yðar kunna að vera kæranlegar til yfirskattanefndar.

Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að þér hafið snúið yður til Samgöngustofu með beiðni um afskráningu bifreiðarinnar en samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, hefur stofnunin með höndum skráningu ökutækja í ökutækjaskrá. Eftir atvikum kunna viðbrögð þeirrar stofnunar við beiðnum yðar að geta orðið grundvöllur nýrra beiðna til skattyfirvalda um niðurfellingu bifreiðagjalds. Leitið þér til Samgöngustofu og verðið ósáttir við afgreiðslu hennar, skal þess og getið að sú leið kann að vera yður fær við slíkar aðstæður að bera ákvörðun stofnunarinnar undir innviðaráðherra. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir yður að leita með mál yðar til umræddra stjórnvalda.

Með vísan til alls ofangreinds lýk ég meðferð máls yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, en þér getið að sjálfsögðu leitað til mín á nýjan leik að fenginni afstöðu ofangreindra stjórnvalda og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.