Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Framkoma opinberra starfsmanna. Svör við erindum. Yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur ráðherra.

(Mál nr. 12437/2023)

Kvartað var yfir framgöngu Ríkiskaupa á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við erindum vegna fyrirkomulags innkaupa ríkisins.  

Umboðsmaður hafði þegar afgreitt tvær kvartanir frá sama aðila varðandi fyrirkomulag innkaupa ríkisins. Með hliðsjón af svörum og skýringum ráðuneytisins, sem hafði svarað erindum viðkomandi um opinber innkaup og Ríkiskaup, taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins vegna þeirra eða taka til nánari skoðunar skyldur ráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans. Ekki yrði annað ráðið en brugðist hefði verið við athugasemdum viðkomandi í samræmi við svarreglu stjórnsýsluréttar svo og að ráðuneytið hefði brugðist við athugasemdum um framgöngu starfsmanns Ríkiskaupa á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrr á árinu. Hvað snerti svör ráðuneytisins frá janúar 2021 minnti umboðsmaður á að bera skuli kvörtun fram innan árs frá því stjórnsýslugerningar hefði verið til lykta leiddur.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. nóvember 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 1. nóvember sl. Verður ráðið að hún beinist að Ríkiskaupum og fjármála- og efnahagsráðuneytinu og tengist m.a. framgöngu Ríkiskaupa á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2023 gagnvart  X ehf. sem þér eruð í forsvari fyrir. Þá verður ráðið að kvörtunin beinist að viðbrögðum ráðuneytisins við erindum yðar um fyrirkomulag innkaupa ríkisins, sbr. bréf þess til yðar 26. janúar 2021 og 7. nóvember sl.

Í bréfi umboðsmanns til yðar 2. desember 2019, í tilefni af kvörtun yðar sem hlaut málsnúmerið 10308/2019 í málaskrá embættisins, sem beindist gegn framangreindum stjórnvöldum og laut að ákvæðum reglugerðar nr. 755/2019, um fyrirkomulag innkaupa ríkisins, kom fram að umboðsmaður teldi ekki rétt að fjalla um kvörtunina að svo stöddu þar sem kvörtunarefnið hafði ekki verið borið undir ráðuneytið og þá m.a. með hliðsjón af því að ákvæði reglugerðarinnar gerðu ráð fyrir aðkomu ráðuneytisins að tilteknum ágreiningi vegna mála sem reglugerðin fjallar um. Þá kom fram í bréfi umboðsmanns til yðar 20. febrúar 2020 vegna síðari kvörtunar yðar (mál nr. 10407/2020 í málaskrá umboðsmanns), sem laut m.a. að því að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði ekki brugðist við erindi sem þér beinduð til  10. desember 2019 í kjölfar þess að umboðsmaður lauk athugun sinni á fyrri kvörtuninni, að þar sem ráðið yrði að málinu væri enn ólokið væri ekki ástæða til að gera athugasemdir við afgreiðslu málsins. Af kvörtun yðar nú verður ráðið að þér óskið þess að þau kvörtunarefni sem urðu tilefni fyrri kvartana yðar til umboðsmanns verði tekin til athugunar að nýju.

  

II

Fyrir liggur að með bréfi 26. janúar 2021 svaraði ráðuneytið framangreindu erindi yðar frá 10. desember 2019 en afrit þess fylgdi kvörtun yðar nú. Kemur m.a. fram í bréfinu að ríkisaðilum í A-hluta sé skylt að nýta sérþekkingu Ríkiskaupa í samræmi við reglugerð nr. 755/2019 og ekki standi til að gera veigamiklar breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Þá komi fram í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/24/ESB, sem lög um opinber innkaup byggi á, að einstökum ríkjum sé heimilt að koma á fót miðlægri innkaupastofnun með miðstýrðri innkaupastarfsemi. Þar komi enn fremur fram að aðildarríkin geti kveðið á um að tiltekin innkaup skuli fara fram í gegnum miðlægar innkaupastofnanir.

Þá létuð þér með kvörtuninni umboðsmanni í té afrit af kvörtun yðar 17. október sl. til fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir hönd X ehf. yfir háttsemi sérfræðings á vegum Ríkiskaupa á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2023 og tókuð fram að ráðuneytið ætti eftir að svara erindinu. Hinn 8. nóvember sl. upplýstuð þér umboðsmann um að ráðuneytið hefði svarað yður með bréfi deginum áður. Jafnframt lýstuð þér skoðun yðar á tilteknum ummælum í erindi Ríkiskaupa á ráðstefnunni sem þér teljið ekki standast skoðun. Í téðu svari ráðuneytisins kemur m.a. fram að orðfæri starfsmanns Ríkiskaupa við framangreindar aðstæður hafi verið óheppilegt og það muni beina þeim tilmælum til Ríkiskaupa að stofnunin leitist við að efni og framsetning kynninga og annars efnis sem sett er fram á opinberum vettvangi verði í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti svo og að upplýsingar verði settar fram á málefnalegan hátt og eigi sér tilhlýðilega stoð í fyrirliggjandi staðreyndum. Þá segir að ráðuneytið geri enn fremur ráð fyrir því að Ríkiskaup muni bregðast með viðeigandi hætti við beiðni fyrirtækisins um að hlutur þess verði réttur.

  

III

Samkvæmt b-lið 9. töluliðar 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer fjármála- og efnahagsráðuneyti með mál er varða opinber innkaup og málefni Ríkiskaupa. Átti það sama við samkvæmt forsetaúrskurði nr. 1/2017, sbr. b-liður 9. töluliðar 3. gr. hans. Ráðherra er æðsti handhafi framkvæmdarvalds á sínu málefnasviði. Af þeirri stöðu og skiptingu stjórnsýslunnar leiðir að ráðherra hefur yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir gagnvart stjórnvöldum sem heyra undir hann. Á ráðherra getur hvílt bein jákvæð skylda til að grípa til virkra úrræða á grundvelli þeirra heimilda þegar fyrir liggur að mati ráðuneytisins að þess hafi ekki verið gætt um nokkurn tíma í starfsemi undirstofnunar að haga innra skipulagi hennar og málsmeðferð, hvort sem er inn á við gagnvart starfsmönnum stofnunar, eða út á við gagnvart borgurunum, með þeim hætti sem áskilið er í lögum. Sjá hér til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 18. nóvember 2011 í máli nr. 5986/2010.

Líkt og áður greinir verður ráðið að kvörtun yðar lúti að viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðherra og ráðuneytis hans í tilefni  erindi yðar í janúar 2021. Í íslenskum stjórnsýslurétti gildir sú óskráða meginregla sem nefnd hefur verið „svarreglan“ að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í það. Í reglunni felst hins vegar ekki að sá sem ber upp erindi eigi rétt á sérhverjum þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir heldur ræðst réttur hans að því leyti af öðrum reglum stjórnsýsluréttarins.

Eftir að hafa kynnt mér svör ráðuneytisins við erindum yðar um opinber innkaup og Ríkiskaup tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins vegna þeirra eða taka til nánari skoðunar skyldur ráðherra á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hans, enda fæ ég ekki annað ráðið en að brugðist hafi verið við þeim í samræmi við framangreinda svarreglu stjórnsýsluréttar svo og að ráðuneytið hefur brugðist við athugasemdum yðar um framgöngu starfsmann Ríkiskaupa á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrr á þessu ári, sbr. bréf þess til yðar 7. nóvember sl. Hvað snertir svör ráðuneytisins 26. janúar 2021 er þá jafnframt haft í huga að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal bera kvörtun fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.