Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð. Styrkur til kaupa á bifreið.

(Mál nr. 11704/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Tryggingastofnun hafði samþykkt umsókn hennar um uppbót en ekki talið viðkomandi uppfylla skilyrði fyrir styrk. 

Nefndin taldi að samkvæmt ákvæði í þágildandi reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða þyrfti að meta hvort umsækjandi teldist hreyfihamlaður til jafns við þá sem notuðu hjólastól og/eða tvær hækjur að staðaldri svo skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt. Taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessa afstöðu. Niðurstaða nefndarinnar hafi fyrst og fremst verið reist á mati hennar á læknisfræðilegum gögnum og sérþekkingu eins nefndarmanns sem var læknir. Í ljósi þessa og annarra gagna málsins voru ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar.

Í ljósi yfirlýsinga frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í bréfi til umboðsmanns óskaði hann eftir að verða upplýstur eigi síðar en 1. júní 2024 um framvindu vinnu við endurskoðun á stuðningi vegna bifreiðakostnaðar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. nóvember 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 26. maí 2022, fyrir hönd A, vegna úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála 26. maí 2021 í máli nr. 55/2021. Með úrskurðinum staðfesti nefndin afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn A um uppbót/styrk til kaupa á bifreið en Tryggingastofnun hafði samþykkt umsókn hennar um uppbót til bifreiðakaupa en ekki talið hana uppfylla skilyrði fyrir styrk.

Í tilefni af kvörtun yðar voru úrskurðarnefnd velferðarmála rituð bréf 16. júní og 13. október 2022 þar sem var óskað eftir öllum gögnum málsins og veittar yrðu tilteknar upp­lýsingar og skýringar. Þá var félags- og vinnumarkaðsráðherra ritað bréf 27. janúar sl. þar sem óskað var eftir því að ráðuneyti hans veitti upplýsingar í tengslum við málið. Svör bárust 21. júní 2022, 2. nóvember sama ár og 26. apríl sl. Athugasemdir yðar bárust 18. nóvember 2022 og 15. ágúst sl.

  

II

1

Um uppbót og styrk til kaupa á bifreið er fjallað í 10. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. greinarinnar er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og um­önnunar­greiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bóta­þegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Þar segir jafnframt að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði. Í samræmi við þetta setti ráðherra þágildandi reglugerð nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, sem í gildi var, með áorðnum breytingum, þegar úrskurður í máli A var kveðinn upp. Um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða gildir nú reglugerð nr. 905/2021.

Í 3. gr. reglugerðarinnar var fjallað um skilyrði fyrir greiðslu uppbóta vegna kaupa á bifreiðum og fjárhæðir þeirra. Í 1. málslið 1. mgr. greinarinnar kom fram að heimilt væri að greiða elli- og örorku­lífeyris­þega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega væri nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar og sýnt væri að hann gæti ekki komist af án uppbótarinnar. Þá voru í 2. mgr. sett fram skilyrði þess að uppbót yrði veitt. Kom þar annars vegar fram krafa um að hinn hreyfihamlaði hefði sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður og hins vegar að nauðsyn á bifreið vegna hreyfi­hömlunar væri ótvíræð og mat á hreyfihömlun lægi fyrir, sbr. 1. og 2. töluliður málsgreinarinnar.

Í 4. gr. reglugerðarinnar var fjallað um styrki til kaupa á bifreiðum. Í 1. málslið 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kom fram að heimilt væri að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg væri vegna þess að líkamsstarfssemi væri hömluð eða vantaði líkams­hluta. Þá voru í 2. mgr. sett fram skilyrði þess að styrkur yrði veittur. Meðal þeirra skilyrða sem þar komu fram voru að einstaklingur væri verulega hreyfihamlaður og notaði hjólastól og/eða tvær hækjur að staðaldri.

  

2

Með lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, hefur löggjafinn falið ráðherra nokkurt svig­rúm til að útfæra nánar þau sjónarmið sem stjórn­völdum ber að leggja til grundvallar mati á umsókn um uppbót eða styrk til bifreiðakaupa samkvæmt lögum og jafnframt falið Trygginga­stofnun, og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála, að taka afstöðu til þess hvernig þessi sjónarmið horfa við atvikum og aðstæðum í málum þeirra einstaklinga sem sækja um uppbót eða styrk. Mat framan­greindra stjórnvalda á því hvort einstaklingur eigi rétt á uppbót eða styrk til bifreiðakaupa felur í sér matskennda stjórnvalds­ákvörðun sem m.a. byggist á læknis­fræðilegu mati.

Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, beinist eftirlit umboðsmanns með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög. Við aðstæður sem þessar hefur í framkvæmd umboðsmanns verið gengið út frá því að ætla verði stjórnvaldi nokkurt svigrúm til mats. Hefur umboðsmaður jafnframt ekki forsendur til að endurskoða mat stjórnvaldsins að þessu leyti nema sýnt þyki af gögnum máls og öðrum upplýsingum að við matið hafi verið byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum, fullnægjandi upplýsingar hafi ekki verið fyrir hendi eða ályktanir þess hafi verið óforsvaranlegar. Athugun umboðsmanns felur í slíkum tilvikum hins vegar ekki í sér að nýtt eða sjálfstætt mat sé lagt á málið. Þegar stjórnvaldi hefur með lögum verið fengið ákveðið sérfræðilegt mat, t.d. um læknisfræðileg atriði eins og í þessu máli, er umboðsmaður við athugun sína því ekki í sömu stöðu og þau stjórnvöld sem hafa tekið ákvörðunina.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála eru læknisfræðileg gögn málsins rakin og af þeim dregin sú ályktun að rétt hafi verið að synja umsókn A um styrk til bifreiðakaupa þar sem hún hafi ekki uppfyllt skil­yrði 3. töluliðar 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Taldi nefndin að ekki yrði ráðið af sjúkdómsástandi A að hún væri hreyfihömluð til jafns við þá sem notuðu hjólastól eða væru háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Nefndin taldi hins vegar að hún uppfyllti skilyrði 3. gr. sömu reglugerðar um uppbót. Í skýringum nefndarinnar til umboðsmanns kom fram sú afstaða hennar að í 3. tölulið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar fælist ekki fortakslaust skilyrði þess efnis að styrkur til kaupa á bifreið væri háður því að sá sem eftir því leitaði notaði hjólastól og/eða tvær hækjur að staðaldri. Meta þyrfti hvort viðkomandi teldist hreyfihamlaður til jafns við þá sem notuðu hjólastól og/eða tvær hækjur að staðaldri. Hreyfihömlun þyrfti því að hafa veruleg áhrif á færni viðkomandi í daglegu lífi líkt og eigi við þá sem nota hjólastól og/eða tvær hækjur að staðaldri svo skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt. Ég tel ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessa afstöðu nefndarinnar um beitingu ákvæðisins.

Í tilefni af kvörtun yðar og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið um eftirlit umboðsmanns í málum sem þessum hef ég farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins. Af forsendum nefndar­innar verður ekki annað ráðið en að niðurstaða hennar hafi fyrst og fremst verið reist á mati hennar á læknis­fræðilegum gögnum og sérþekkingu eins nefndarmanns sem er læknir. Þau læknisfræðilegu gögn sem einkum lágu til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar voru læknis­vottorð C 19. maí 2020 og 15. október 2020. Í læknisvottorði C 19. maí 2020 var merkt við að göngugeta A væri að jafnaði minni en 400 metrar á jaf­nsléttu. Þá var ekki merkt við að hún notaði hjálpartæki að stað­aldri. Í læknisvottorði sama læknis 15. október 2020 kom fram að A notaði ekki hjólastól að staðaldri heldur „inn á milli, í krefjandi aðstæðum og þegar hún [væri] verri af sínum einkennum.“ Eins og fram kemur í úrskurðinum taldi nefndin að ekki yrði ráðið af sjúkdómsástandi A að hún væri hreyfihömluð til jafns við þá sem nota hjólastól eða eru háðir því að nota tvær hækjur að stað­aldri.

Í ljósi þessa, sem og annarra gagna málsins, tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir þá niðurstöðu úrskurðar­nefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Trygginga­stofnunar í máli A. Í því sambandi minni ég á þær takmarkanir sem eru á því að umboðsmaður geti endurmetið sérfræðilegt mat stjórn­valda af þessu tagi.

  

III

Með vísan til þess sem rakið hefur verið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tel hins vegar rétt að vekja athygli yðar á því að ég hef ritað félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu bréf þar sem þess er óskað að umboðsmaður verði upplýstur um framvindu þeirrar vinnu sem boðuð er í fyrrgreindu bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns 26. apríl sl. en þar segir að félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi fullan hug á að vinna við endurskoðun á stuðningi vegna bifreiðakostnaðar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð verði tekin upp að nýju eftir að heildarendurskoðun örorkulífeyris­kerfisins, sem nú stendur yfir, er lokið.

   

   


  

  

Bréf umboðsmanns til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins 27. nóv. 2023.

   

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið máli í tilefni af kvörtun B, réttindagæslumanns fatlaðs fólks, sem beindist að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurðinum staðfesti nefndin afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn einstaklings um uppbót/styrk til kaupa á bifreið en Tryggingastofnun hafði samþykkt umsókn hennar um uppbót til bifreiðakaupa en ekki talið hana uppfylla skilyrði styrks.

Í svari félags- og vinnumarkaðsráðherra 26. apríl sl. í tilefni af ofangreindri kvörtun kemur fram að ráðherra hafi fullan hug á að vinna við endurskoðun á stuðningi vegna bifreiðakostnaðar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð verði tekin upp að nýju eftir að heildar­endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, sem nú stendur yfir, er lokið.

Í ljósi þess sem fram hefur komið í svörum ráðherra tel ég ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu enda er ljóst að ráðherra er kunnugt um þann greinarmun sem gerður er á umsækjendum um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa í 10. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Áfram verður þó fylgst með málinu af hálfu umboðsmanns og þeirri vinnu sem ráðherra áformar á næstu misserum. Er þess því óskað að ráðherra upplýsi umboðsmann um framvindu mála eigi síðar en 1. júní nk. og sendi þá jafnframt afrit af gögnum sem kunna að varpa ljósi á téða vinnu, verði henni lokið.