Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 12431/2023)

Kvartað var yfir því að starfsmenn Neyðarlínunnar ohf. deili starfsstöð með starfsfólki ríkislögreglustjóra.  

Ekki varð séð að kvartað væri yfir einhverju sem beindist sérstaklega að viðkomandi umfram aðra og því ekki skilyrði til að umboðsmaður aðhefðist. Benti hann á að e.t.v. mætti freista þess að leita til Persónuverndar með erindið. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. október sl. sem beinist að ríkislögreglustjóra. Verður kvörtunin skilin á þann hátt að þar sé einkum þeirri afstöðu lýst að það samræmist ekki lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, að starfsmenn Neyðarlínunnar ohf. deili starfsstöð með starfsmönnum ríkislögreglustjóra.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum, sem heyra undir eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til hans. Skal þá lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalds eða annars aðila sem er tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Af framangreindu leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar, þótt öllum sé frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum með vísan til heimilda umboðsmanns til að taka upp slík mál að eigin frumkvæði. Kvörtun verður að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur hana fram eða snerta beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Af erindi yðar verður ekki ráðið að kvartað sé yfir tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist að yður umfram aðra í framangreindum skilningi. Brestur því laga­skilyrði til þess að umboðsmaður taki kvörtun yðar til frekari athugunar, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi efnis kvörtunar yðar er rétt að benda yður á að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. fyrrgreindra laga nr. 90/2018 er markmið þeirra meðal annars að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Sérstök stofnun, Persónuvernd, annast eftirlit með framkvæmd laganna og getur fjallað um einstök mál og tekið í þeim ákvörðun. Ef þér teljið tilefni til getið þér freistað þess að leita með erindi til stofnunarinnar. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir yður að beina athugasemdum yðar til Persónuverndar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.