Gjafsókn.

(Mál nr. 12401/2023)

Kvartað var yfir ákvörðunum dómsmálaráðuneytisins um að synja umsóknum um gjafsókn a.v. fyrir héraðsdómi og h.v. Landsrétti vegna forsjármáls og mati gjafsóknarnefndar á fjárhagsstöðu viðkomandi sem lagt var til grundvallar þeim ákvörðunum.

Umboðsmaður taldi ekki efni til að gera athugasemdir við þá túlkun ráðuneytisins á lagareglum um gjafsókn að ekki kæmi til greina að veita takmarkaða gjafsókn, þ.e. sem eingöngu næði til tiltekinna þátta málskostnaðar eða gæti hæst numið tiltekinni fjárhæð, nema umsækjandi fullnægði almennum skilyrðum fyrir veitingu gjafsóknar. Af því leiddi að ekki væri heldur ástæða til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu gjafsóknarnefndar að mæla ekki með takmarkaðri gjafsókn. Nefndin hafi lagt mat á umsóknina á grundvelli þeirra lagaákvæða og reglna sem við áttu og ekki forsendur til að slá því föstu að mat hennar hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða í andstöðu við lög.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. nóvember 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. október sl. yfir ákvörðunum dómsmálaráðuneytisins 3. sama mánaðar um að synja umsóknum yðar um gjafsókn fyrir annars vegar héraðsdómi og hins vegar Landsrétti vegna forsjármáls sem þér höfðuðuð gegn barnsföður yðar. Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti fyrst og fremst að mati gjafsóknarnefndar á fjárhagsstöðu yðar og synjun ráðuneytisins við beiðni yðar um gjafsókn á þeim grundvelli.

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns Alþingis vegna synjana dómsmálaráðuneytisins við beiðnum yðar um gjafsókn og hlutu þær kvartanir málsnúmerin 11757/2022 og 12209/2023 í málaskrá embættisins. Eftir að umboðsmaður hafði óskað eftir nánar greindum upplýsingum og skýringum af hálfu dómsmálaráðuneytisins vegna málanna upplýsti ráðuneytið að þau yrðu endurupptekin og lauk umboðsmaður því athugun sinni á þeim með bréfum 13. janúar og 28. júlí sl. Við athugun umboðsmanns á kvörtun yðar sem er hér til umfjöllunar hefur verið höfð hliðsjón af gögnum þeirra mála sem og þeim skýringum sem bárust frá ráðuneytinu við meðferð þeirra.

  

II

1

Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í upphafi málsgreinarinnar er kveðið á um það almenna skilyrði að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Að auki þarf annaðhvort að vera fullnægt skilyrðum a- eða b-liðar sömu málsgreinar. Samkvæmt a-lið hennar þarf fjárhag umsækjanda að vera þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Í b-lið málsgreinarinnar er mælt fyrir um það skilyrði að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Samkvæmt 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 getur ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 127. gr. skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli að því leyti sem ekki er mælt á annan veg. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. 

Með stoð í 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar. Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um fjárhagsstöðu umsækjanda. Í 1. mgr. greinarinnar segir m.a. að við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skuli miðað við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars nemi ekki hærri fjárhæð en samtals kr. 4.417.918. Hækka skal viðmiðunarmörk tekna um kr. 491.144 fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þ.m.t. stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann elur að mestum hluta önn fyrir. Í 8. gr. reglugerðarinnar er þó veitt heimild til þess að veita gjafsókn þótt tekjur umsækjanda séu yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt 7. gr., m.a. ef málskostnaður verður fyrirsjáanlega hár miðað við efnahag umsækjanda. Um takmörkun gjafsóknar er fjallað í 9. gr. reglugerðarinnar. Þar segir í 1. mgr. að takmarka megi gjafsókn við ákveðinn hluta gjafsóknar eða tiltekna fjárhæð í nánar greindum tilvikum, til að mynda ef efnahag umsækjanda er þannig varið að ætla megi að hann geti sjálfur staðið straum af hluta málskostnaðar og í málum sem æskilegt sé að lokið verði með sátt, s.s. forsjármálum, sbr. a- og c-lið hennar.

   

2

Í umsögnum gjafsóknarnefndar 21. september sl., sem lagðar voru til grundvallar ákvörðunum ráðuneytisins 3. október sl., er komist að þeirri niðurstöðu að hvorki skilyrði a- né b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið uppfyllt í máli yðar.

Í umsögnum nefndarinnar er vísað til þess að meðaltekjur yðar síðustu tvö almanaksár og það sem af er þessu ári séu nokkuð meira en tvöfalt hærri en fyrrgreind viðmiðunarfjárhæð reglugerðar nr. 45/2008. Þar er jafnframt lagt mat á tímaskýrslur lögmanns yðar vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti og sú ályktun dregin að hluti tímaskráningar hans hafi verið vegna annarrar vinnu en þeirrar sem staðið hafi í tengslum við mál yðar fyrir dómstólum. Þá fjallaði nefndin um það hvort beita ætti heimild 8. gr. reglugerðarinnar til að víkja frá umræddum viðmiðunarfjárhæðum og var það mat hennar að ekki væru efni til þess miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um raunverulegan málskostnað yðar, greiðslubyrði yðar af þeim lánum sem þér munuð hafa tekið til að standa straum af þeim kostnaði, eignir yðar og tekjur sem og upplýsinga um þann málskostnað sem þér hefðuð þegar greitt. Það var enn fremur mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til þess að mæla með gjafsókn sem takmörkuð væri við ákveðinn hluta málskostnaðar eða tiltekna fjárhæð.

Við mat á skilyrðum b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 vísaði gjafsóknarnefnd til þess að almennt mætti gera ráð fyrir að mál er vörðuðu forsjá og umgengni barna hefðu áhrif á einkahagi foreldra. Nefndin hefði aðeins í undantekningartilvikum mælt með gjafsókn á þeim grundvelli í málum þar sem deilt væri um forsjá og umgengni. Hefði hún talið að slík mál féllu almennt ekki undir ákvæðið nema sérstakar ástæður styddu þá niðurstöðu, en að hennar mati háttaði svo ekki til í máli yðar. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að úrlausn málsins hefði verulega almenna þýðingu.

  

Með 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur löggjafinn falið gjafsóknarnefnd að líta til ákveðinna sjónarmiða við mat á því hvort skilyrði gjafsóknar séu uppfyllt, þar á meðal hvort fjárhag umsækjanda um gjafsókn sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli verði honum fyrirsjáanlega ofviða. Það leiðir af hlutverki umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum mat á tilteknum atriðum beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvald hafi lagt fullnægjandi grundvöll að máli, hvort það hafi byggt mál sitt á málefnalegum sjónarmiðum og dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins, auk þess að það hafi gætt að réttum málsmeðferðarreglum að öðru leyti. Í slíkum tilvikum felur athugun umboðsmanns ekki í sér að lagt sé nýtt eða sjálfstætt mat á málið.

Í bréfi umboðsmanns til dómsmálaráðuneytisins 22. júní sl. vegna máls nr. 12209/2023 var þess m.a. óskað að veittar yrðu upplýsingar um hvort tekin hefði verið afstaða til 9. gr. reglugerðar nr. 45/2008 um takmörkun gjafsóknar í máli yðar. Í svari dómsmálaráðuneytisins 25. júlí sl., þar sem jafnframt var upplýst um að mál yðar hefði verið endurupptekið, sagði eftirfarandi:  

[Takmörkun] gjafsóknar kemur ekki til álita nema að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála fyrir veitingu gjafsóknar. Heimild 2. málsl. 1. mgr. 127. gr. laganna, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 45/2008, felur þannig í sér undantekningu frá þeirri reglu sem fram kemur í 1. málsl. 1. mgr. 127. gr. um að gjafsókn skuldbindi ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli. Takmörkun í þessu tilliti er þannig almennt íþyngjandi fyrir gjafsóknarhafa. Gjafsókn verður aftur á móti ekki veitt sjálfstætt á grundvelli 1. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála og 2. málsl. 1. mgr. 127. gr. laganna felur ekki í sér heimild til að breyta eða víkja til hliðar þeim skilyrðum sem lýst er í 1. mgr. 126. gr. Í því máli sem hér um ræðir var komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, þar á meðal því sem varðar fjárhag [A], væri ekki fullnægt. Í því ljósi gat ekki komið til álita að veita henni gjafsókn sem takmarkaðist við tiltekna þætti málskostnaðar eða við tiltekna fjárhæð.

Af svörum ráðuneytisins verður ekki annað ráðið að en það sé afstaða þess að ekki komi til greina að beita 9. gr. reglugerðar nr. 45/2008 þegar fyrir liggur að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst er að það er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar á þeim grundvelli að skilyrði a- eða b-liðar þeirrar málsgreinar séu uppfyllt, en um mat á þeim skilyrðum er nánar kveðið í fyrrgreindri reglugerð nr. 45/2008.

Að þessu virtu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við framangreinda túlkun ráðuneytisins á inntaki 9. gr. reglugerðar nr. 45/2008, sbr. til hliðsjónar bréf setts umboðsmanns Alþingis 31. desember 2009 í máli nr. 5474/2008. Í ljósi þess að það var mat gjafsóknarnefndar að hvorki skilyrði a- né b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 væru uppfyllt í máli yðar, og að virtum framangreindum skýringum ráðuneytisins í bréfi þess til umboðsmanns 22. júní sl., tel ég heldur ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu gjafsóknarnefndar um að mæla ekki með gjafsókn sem takmörkuð væri með þeim hætti sem fram kemur í 9. gr. reglugerðar nr. 45/2008.

Af gögnum málsins verður að öðru leyti ekki annað ráðið en að gjafsóknarnefnd hafi fjallað um umsókn yðar um gjafsókn og lagt mat á hana á grundvelli þeirra lagaákvæða og reglna sem hér áttu við. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og umsagnir gjafsóknarnefndar tel ég mig ekki hafa forsendur til að slá því föstu að mat hennar hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða í andstöðu við lög þannig að efni séu til að gera athugasemdir að því leyti. Minni ég í því sambandi á það svigrúm sem játa verður nefndinni við mat á umsóknum um gjafsókn. Að þessu gættu sé ég ekki heldur að frekari athugun mín á málinu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við synjanir ráðuneytisins við beiðni yðar um gjafsókn.

   

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.