Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Akstursþjónusta.

(Mál nr. 12383/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Einkum voru gerðar athugasemdir við þá afstöðu sveitarfélagsins að viðkomandi uppfyllti ekki skilyrði laga um fötlun í ljósi þess að hann hefði áður fengið samþykkta akstursþjónustu og skv. því sem kom fram í kvörtuninni höfðu aðstæðurnar ekki breyst.  

Umboðsmaður taldi gögn málsins og forsendur nefndarinnar ekki gefa tilefni til athugasemda við niðurstöðu hennar eða það mat að viðkomandi væri ekki fatlaður í skilningi laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem væri skilyrði til að eiga rétt á akstursþjónustunni. Í því sambandi vísaði umboðsmaður jafnframt til þess að fram hefði komið að viðkomandi hefði möguleika á öðrum ferðamáta, t.d. strætó, en markmið þjónustunnar væri að gera þeim sem ekki gætu nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. nóvember 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 26. september sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 13. september sl. í máli nr. 371/2023 þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn yðar um akstursþjónustu fatlaðs fólks var staðfest. Í kvörtuninni eru einkum gerðar athugasemdir við þá afstöðu sveitarfélagsins að þér uppfyllið ekki skilyrði laga um fötlun í ljósi þess að þér hafið áður fengið samþykkta akstursþjónustu en samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni hafa aðstæður yðar ekki breyst.

  

II

1

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar er fjallað um akstursþjónustu fatlaðs fólks í VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 1. mgr. 29. gr. þeirra segir að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið þjónustunnar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfaratæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda.

Hugtakið fötlun er skilgreint í 1. tölulið 2. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar segir að fötlun sé afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Þá segir að skerðing hlutaðeigandi einstaklings séu langvarandi og hindranir til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað. Í 2. tölulið ákvæðisins segir að fatlað fólk sé fólk, með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.

Reykjavíkurborg hefur á grundvelli framangreindra laga sett reglur nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglnanna er akstursþjónusta fatlaðs fólks ætluð til afnota fyrir þá íbúa sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að fyrrgreindri skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018. Umsækjandi skal uppfylla annað eða bæði skilyrði a- og b-liðar 3. mgr. 1. gr. reglnanna. Þar er kveðið á um að umsækjandi skuli vera hreyfihamlaður og nota hjólastól eða hann sé ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglnanna ber að hafna umsókn geti umsækjandi nýtt sér almenningssamgöngur allt árið en heimilt sé að samþykkja umsókn hluta úr ári sé þörf á tímabundinni akstursþjónustu. Með umsókninni skuli fylgja öll nauðsynleg gögn, s.s. læknisvottorð eða greining á fötlun, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglnanna.

  

2

Af gögnum málsins má ráða að þér fenguð samþykkta tímabundna akstursþjónustu vegna heilablæðingar frá 6. nóvember 2020 til 16. nóvember 2022. Þá fenguð þér samþykkta undanþágu í sex mánuði frá 6. janúar til 5. maí sl. Samkvæmt umsókn yðar 25. maí sl. óskuðu þér eftir endurnýjun á framangreindri umsókn fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 31. maí 2024 í ljósi þess að aðstæður yðar hefðu ekki breyst síðan þá. Í umsókninni kemur m.a. fram að þér hafið möguleika á öðrum ferðamáta, t.d. strætó. Samkvæmt læknisvottorði sem fylgdi með umsókn yðar fenguð þér, að loknu ökuhæfnismati, leyfi til að aka bifreið á ný en vafi sé um hvort þér getið ekið við erfiðar aðstæður þegar skyggni eða færð er erfið. Segir í vottorðinu að æskilegt sé að yður bjóðist akstursþjónusta þegar slík skilyrði skapist yfir hávetur fyrst og fremst.    

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar kemur fram að umsóknir yðar um akstursþjónustu, sem samþykktar voru af hálfu Reykjavíkurborgar, hafi verið til að styðja við endurhæfingu yðar. Þá hafi umsókn yðar frá 6. janúar til 5. maí sl. verið samþykkt með vísan til þess að þér ættuð erfitt með að keyra bifreið í slæmu skyggni. Ný umsókn yðar um endurnýjun hafi hins vegar ekki miðast við hávetur, sbr. tilmæli læknisvottorðs, heldur hafi verið sótt um akstursþjónustu fyrir heilt ár. Þá hafið þér enn fremur merkt við í umsókn yðar að þér getið nýtt yður aðra ferðamáta, t.d. strætó. Með vísan til framangreinds var ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar staðfest. 

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og forsendur nefndarinnar tel ég ekki efni til þess að gera athugasemdir við niðurstöður hennar eða það mat hennar að þér séuð ekki fötluð í skilningi laga nr. 38/2018 en slíkt er, líkt og áður segir, skilyrði fyrir því að eiga rétt til akstursþjónustu. Athugast í því sambandi að samþykkt umsóknar yðar fyrr á þessu ári var bundin við afmarkaðan tíma. Þá tóku fyrri samþykktir umsóknar yðar jafnframt mið af því sem fram kom í læknisvottorði hverju sinni um endurhæfingu yðar en ekki kemur fram í læknisfræðilegum gögnum að um langvarandi skerðingu sé að ræða, sbr. skilyrði 2. gr. laganna. Í umsóknargögnum kemur jafnframt fram að þér hafið möguleika á öðrum ferðamátum, t.d. strætó, en samkvæmt skilyrðum laga nr. 40/1991 og reglum Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu er markmið þjónustunnar að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfaratæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir. Ég tel þó rétt að vekja athygli á því að í svörum sveitarfélagsins til nefndarinnar kemur fram að yður sé heimilt að sækja á nýjan leik um þjónustuna. Þér getið því t.a.m. freistað þess að sækja um akstursþjónustu yfir hávetrartímann, sbr. athugasemdir læknis í vottorði frá 21. desember 2022. Með framangreindri ábendingu er rétt að taka fram að ég hef þó enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá Reykjavíkurborg.

  

III

Með vísan til alls framangreinds lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Fari svo að þér kjósið að sækja um að nýju getið þér leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni endanlegri niðurstöðu í máli yðar.