Samgöngumál. Sveitarfélög.

(Mál nr. 12434/2023)

Kvartað var yfir synjun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á umsókn um íbúakort.  

Þar sem ekki hafði verið leitað til innviðaráðuneytisins vegna ákvörðunar sjóðsins og afstaða þess á grundvelli stjórnsýslueftirlits ráðherra með sveitarfélögum fengin voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 30. október sl. sem beint er að Bílastæðasjóði Reykjavíkur vegna synjunar á umsókn yðar um íbúakort. Takið þér fram að óásættanlegt sé að íbúum í húsi yðar sé ekki gefinn kostur á einu íbúakorti þar sem íbúðir séu þrjár en bílastæði einungis tvö. Þá sé það mat yðar að ekki þurfi sérstaka undirritaða sönnun að svo hátti til.

Í 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 segir meðal annars að sveitarstjórn sé heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum hennar. Með stoð í þessari lagagrein hefur Reykjavíkurborg sett reglur nr. 370/2021 sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2021.

Fyrir liggur, sbr. tölvubréf starfsmanns Reykjavíkurborgar til yðar 6. september sl. sem er á meðal gagna sem bárust með kvörtun yðar, að umsókn yðar um íbúakort var hafnað með vísan til c-liðar 1. mgr. 2. gr. reglnanna. Þar segir að aðeins sé heimilt að gefa út íbúakort til íbúa í íbúð sem ekki fylgir réttur til notkunar á bílastæði innan lóðar, hvort heldur til einkanota eða í sameign, samkvæmt deiliskipulagi, lóðarleigusamningi, mæliblaði eða lóðaruppdrætti. Þá segir jafnframt að íbúð telst ekki fylgja réttur til notkunar á bílastæði ef í staðfestri eignaskiptayfirlýsingu er kveðið á um að íbúðinni fylgi ekki réttur til notkunar á bílastæði. Þar sem ekki liggur fyrir eignaskiptayfirlýsing og íbúðir eru fleiri en bílastæði innan lóðar, nægir yfirlýsing um afnotaskipti, þar sem taldar eru upp þær íbúðir sem hafa afnotarétt af stæðum í sameign innan lóðar.

Þar sem af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið Reykjavíkurborg ekki hafa leyst úr máli yðar með fullnægjandi hætti tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Að þessu leyti er vakin athygli á því að umferðarlög heyra undir málefnasvið innviðaráðherra sem fer jafnframt með stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Hefur ráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum, sbr. 1. mgr. 109 gr. laganna en að því leyti er m.a. unnt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir sveitarfélags um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess samkvæmt greininni, sbr. einnig 111. gr. laganna. Í 2. mgr. 111. gr. kemur fram að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.

Ekki verður ráðið af kvörtuninni eða gögnum sem henni fylgdu að þér hafið borið athugasemdir yðar upp við innviðaráðuneytið og fengið afstöðu ráðuneytisins til þeirra. Eins og atvikum er hér háttað, og að virtum framangreindum lagasjónarmiðum, tel ég því ekki rétt að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég bendi aftur á móti á að þér getið freistað þess að leita til mín á ný að fenginni afstöðu ráðuneytisins og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið eru ekki uppfyllt skilyrði til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar. Er umfjöllun minni um mál yðar því hér með lokið sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.