Almannatryggingar. Úrskurðarvald úrskurðarnefndar almannatrygginga. Kæruheimild til ráðuneytis. Framsending máls. Skilyrði þess að bera mál undir umboðsmann.

(Mál nr. 3592/2002)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem kæru hans í tilefni af synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að veita honum lán til bifreiðakaupa var vísað frá.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til A, dags. 25. febrúar 2003. Tók hann þar fram að leggja yrði til grundvallar að almennt sé unnt að bera þær ákvarðanir tryggingastofnunar sem ekki eru kæranlegar til úrskurðarnefndar almannatrygginga undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í samræmi við almennar reglur, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema lög eða venja kveði á um annað. Hefði úrskurðarnefndinni því verið rétt að framsenda stjórnsýslukæru A til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar ljóst var að nefndin hafði ekki úrskurðarvald í málinu.

Í bréfi umboðsmanns til A sagði meðal annars svo:

„Í tilefni af svari úrskurðarnefndarinnar ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf, dags. 30. desember 2002, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um afstöðu ráðuneytisins til þess hvort sú ákvörðun sem þér báruð undir úrskurðarnefndina hafi verið kæranleg til ráðuneytisins. Svarbréf ráðuneytisins, dags. 18. febrúar 2003, hefur nú borist mér.

Í framangreindu bréfi ráðuneytisins kemur fram að það sé afstaða þess að umrædd lán séu ekki „bætur í skilningi 1. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum“ og er því sammála niðurstöðu úrskurðarnefndar sem og Tryggingastofnunar ríkisins um að túlka verði 7. gr. sömu laga þannig að synjanir um slík lán verði ekki bornar undir úrskurðarnefnd almannatrygginga. Síðan segir eftirfarandi:

„Varðandi kæruleið til ráðuneytisins telur ráðuneytið að ákvarðanir starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins um lán til bifreiðakaupa séu kæranlegar til ráðuneytisins samkvæmt stjórnsýslulögum þar sem ekki er unnt að kæra til úrskurðarnefndar.“

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. 2. gr. laga nr. 60/1999, skal sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, leggja úrskurð á ágreining um „grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta“ samkvæmt þeim lögum. Úrskurðarvald hennar er því bundið við þær ákvarðanir sem Tryggingastofnun ríkisins tekur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta sem mælt er fyrir um í lögum nr. 117/1993. Af þessu verður sú ályktun dregin að úrskurðarvald nefndarinnar nái ekki til ákvarðana sem Tryggingastofnun ríkisins tekur á ólögfestum grundvelli eða á grundvelli annarra laga, nema að það sé sérstaklega lögákveðið. Ekki eru ákvæði í lögum um lánveitingar Tryggingastofnunar ríkisins til bifreiðakaupa. Með hliðsjón af framangreindu tel ég að ekki sé tilefni til þess að ég geri athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. úrskurð hennar frá 21. ágúst 2002. Vísa ég þá enn fremur til þess að samkvæmt þessari túlkun verður að leggja til grundvallar að almennt sé unnt að bera aðrar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins en þær sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í samræmi við almennar reglur, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema að lög eða venja kveði á um annað. Eins og fram kemur í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem ég gerði grein fyrir hér að framan er það afstaða ráðuneytisins að heimilt sé að bera synjanir tryggingastofnunar um lánveitingar til bifreiðakaupa undir ráðuneytið.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má málinu til æðra stjórnvalds fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ekki liggur fyrir úrskurður heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að veita yður bifreiðalán. Rétt hefði verið samkvæmt framansögðu að framsenda stjórnsýslukæru yðar frá úrskurðarnefnd almannatrygginga til ráðuneytisins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar ljóst var að nefndin hafði ekki úrskurðarvald í málinu. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Með hliðsjón af atvikum í máli þessu tel ég rétt að þér freistið þess að bera málið undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Að fenginni úrlausn ráðuneytisins getið þér leitað til mín á ný ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni.“

Umboðsmaður ritaði úrskurðarnefnd almannatrygginga enn fremur bréf, dags. 25. febrúar 2003, þar sem hann benti nefndinni á framangreinda afstöðu sína. Þá gerði hann heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu grein fyrir niðurstöðu sinni í málinu með bréfi, dags. sama dag.