Stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði. Börn. Umgengni.

(Mál nr. 12249/2023)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti úrskurð sýslumanns um greiðslu dagsekta þar til látið yrði af tálmun á umgengni við barn.

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en að ráðuneytið hefði fjallað um málið og lagt á það forsvaranlegt mat á grundvelli þeirra lagaákvæða og reglna sem áttu við. Ráðuneytið hefði bætt úr annmarka á málsmeðferð sýslumanns og atvik málsins gæfu ekki tilefni til að gera athugasemdir við rannsókn þess að málsmeðferð að öðru leyti.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. nóvember 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 16. júní sl. fyrir hönd A yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins 28. apríl sl. þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á X um að A yrði gert að greiða dagsektir í ríkissjóð frá dagsetningu úrskurðarins þar til látið yrði af tálmun á umgengni föður við barn þeirra.

Í kvörtuninni eru gerðar ýmsar athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins, einkum að ekki hafi verið rannsakað til hlítar af hverju umgengni féll niður. Auk þess gerið þér athugasemdir við að umbjóðenda yðar hafi ekki verið veittur andmælaréttur við meðferð málsins. Í tilefni af kvörtuninni var ráðuneytinu ritað bréf 29. júní sl. og óskað eftir afriti af öllum gögnum málsins. Gögnin bárust þann 4. júlí sl.   

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. barnalaga nr. 76/2003 verður umgengni við barn samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra, stað­festum af sýslumanni þvinguð fram með dagsektum tálmi sá sem hefur forsjá barns hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt við barnið að neyta þess réttar. Í samræmi við þetta, og líkt og fram kemur í 2. mgr. 48. gr., getur sýslumaður, að fenginni kröfu þess sem á rétt til um­gengni við barn en sætir tálmun, skyldað þann sem fer með forsjá barnsins að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum.

Ljóst er að 2. mgr. 48. gr. barnalaga leggur ekki fortakslausa skyldu á sýslu­mann til að þvinga fram umgengni með álagningu dagsekta þegar fyrir liggur að umgengni hefur verið tálmuð. Engu að síður hefur löggjafinn tekið þá afstöðu að álagning dag­sekta sé tækt úrræði til að framfylgja lögmætu fyrir­komu­lagi umgengni. Til þess að dagsektum verði ekki beitt þurfa því að liggja fyrir fullnægjandi gögn og rök sem benda til þess að það sé and­stætt hagsmunum barnsins að umgengni verði þvinguð fram í samræmi við það sem áður hefur verið ákveðið (sjá til hliðsjónar álit umboðs­manns Alþingis frá 28. desember 1990 í máli nr. 217/1989).

Það leiðir af hlutverki umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum mat á tilteknum atriðum beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvald hafi lagt fullnægjandi grundvöll að máli, hvort það hafi byggt mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og dregið fors­varanlegar ályktanir af gögnum málsins. Við þessar aðstæður beinist eftirlit umboðsmanns einnig að því hvort gætt hafi verið réttra málsmeðferðarreglna. Í slíkri athugun umboðs­manns felst hins vegar ekki að lagt sé nýtt eða sjálfstætt mat á málið. Er umboðsmaður því í annarri og ólíkri stöðu en þau stjórnvöld sem tóku ákvörðun á matskenndum grundvelli.

  

2

Af úrskurði ráðuneytisins verður ráðið að niðurstaða þess byggist á því að ágreiningslaust sé að umgengni hafi ekki farið fram í samræmi við samkomulag sem foreldrar gerðu sín á milli. Téð samkomulag feli í sér lágmarksumgengni samkvæmt barnalögum. Þá hafi ráðuneytið úrskurðað 18. janúar 2021 um umgengni barnsins við föður til bráðabirgða þar sem m.a. var kveðið á um aðlögun að umgengni í samræmi við ósk móður en gögn málsins beri það með sér að umgengni í samræmi við framangreint hafi ekki verið komið á. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að barnið hafi ekki hagsmuni af því að umgangast föður og hafi móðir ekki haldið öðru fram við meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Þá hafi ekki verið lögð fram gögn sem staðfesti að barnið vilji ekki fara í umgengni til föður.

Í úrskurðinum er sértaklega fjallað um að skilmálar í samkomulagi foreldra þess efnis að óskylt sé að bæta upp síðar umgengni, falli hún niður vegna óviðráðanlegra ástæðna, svo sem veikinda, geti ekki komið í stað skýlauss réttar barnsins til lágmarksumgengni við föður. Almenn veikindi sem móðir hafi haldið fram í málinu geti ekki réttlætt umfangsmikla skerðingu á umgengni barns við föður þess. Það hafi verið mat ráðuneytisins að háttsemi móður og aðgerðaleysi væri ekki í samræmi við skyldur hennar sem forsjáraðila barnsins samkvæmt barnalögum. Gögn málsins beri það með sér að móðir hafi tálmað umgengni við föður og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.   

Af gögnum málsins fæ ég ekki annað ráðið en að ráðuneytið hafi fjallað um málið og lagt á það forsvaranlegt mat á grundvelli þeirra lagaákvæða og reglna sem áttu við. Árétta ég í því sambandi að umboðsmaður er við endurskoðun sína á matskenndum ákvörðunum stjórnvalda í annarri og ólíkri stöðu en þau.

Vegna athugasemda í kvörtun yðar um andmælarétt umbjóðanda yðar fyrir sýslumanni er rétt að taka fram að þegar ákvörðun lægra setts stjórnvalds hefur verið kærð til æðra sett stjórnvalds, sem veitir aðila fullnægjandi færi til andmæla, telst brot á andmælarétti á lægra stjórnsýslustigi ekki lengur hafa þýðingu. Af þeim sökum verður úrskurður æðra stjórnvalds almennt ekki ógiltur vegna brots lægra setts stjórnvalds á andmælareglunni (sjá t.d. Páll Hreinsson, Stjórnsýsluréttur - málsmeðferð, bls. 621).

Líkt og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins voru yður send með tölvubréfi 19. apríl sl. bréf föður til sýslumanns og athugasemdir hans vegna kæru móður til ráðuneytisins. Afrit tölvubréfsins er á meðal þeirra gagna sem ráðuneytið afhenti umboðsmanni. Telur ráðuneytið að með því hafi A verið gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir föður en ráðuneytinu hafi ekki borist frekari athugasemdir. Að þessu virtu tel ég nægilega fram komið að ráðuneytið hafi bætt úr annmarka á málsmeðferð sýslumanns hvað þetta atriði varðar. Þá tel atvik málsins ekki gefa tilefni til þess að gera athugasemdir við rannsókn þess af hálfu ráðuneytisins eða málsmeðferð að öðru leyti.

Samkvæmt framangreindu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athuga­semdir við fyrrgreindan úrskurð ráðuneytisins í máli A.

  

III

Með vísan til ofangreinds lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.