Skattar og gjöld. Jafnræðisreglur. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12472/2023)

Kvartað var yfir lögum um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga sem fælu í sér ólögmæta mismunun.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og stofnana þessu voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. nóvember sl. sem þér beinið að Alþingi og lýtur að forvarnargjaldi 4. gr. laga nr. 84/2023, um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, sem samþykkt voru á Alþingi 13. nóvember sl. og þér teljið fela í sér ólögmæta mismunun. Í greininni er kveðið á um að leggja skuli árlegt gjald á allar húseignir sem nemi 0,08‰ af brunabótamati samkvæmt lögum um brunatryggingar og skulu tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.

Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún beinst með almennum hætti að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til með lögum nr. 84/2023. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og læt ég því máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.