Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi. Jafnræðisreglur. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12447/2023)

Kvartað var yfir synjun menningar- og viðskiptaráðuneytisins við kröfu um undanþágu til starfa við sölu fasteigna þrátt fyrir að hafa ekki löggildingu sýslumanns til starfans.

Kvörtunin laut að meginstefnu að sömu atriðum og fyrri kvörtun sem umboðsmaður afgreiddi árið 2021, þ.e. athugasemdir við bráðabirgðaákvæði í lögum um sölu fasteigna og skipa. Með vísan til sömu atriða um starfssvið umboðsmanns og áður voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar að því er laut að lagasetningu Alþingis auk annars.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. nóvember sl. sem beint er að menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna synjunar þess sama dag við kröfu yðar um undanþágu til að starfa við sölu fasteigna þrátt fyrir að hafa ekki löggildingu sýslumanns til starfans.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér séuð ósáttir við ákvæði til bráðabirgða IV. í lögum nr. 70/2015, um sölu fasteigna og skipa. Samkvæmt því gátu starfsmenn á fasteignasölum sem 1. júlí 2015 höfðu starfað sem sölumenn fasteigna í meira en 20 ár og höfðu náð 50 ára aldri hlotið skráningu á undanþágulista sölumanna með því að hafa sótt um það fyrir 1. júlí 2016 og sinnt afmörkuðum verkefnum í tengslum við sölu fasteigna, sbr. stafliði 1. mgr. ákvæðisins. Takið þér fram að engu skipti í ákvæðinu hvort um sölumann eða sölustjóra sé að ræða, en hið síðarnefnda sé talsvert ábyrgðarmeira starf. Þá feli ákvæðið í sér augljósa mismunun og misrétti vegna aldurs. Hafi ráðuneytið því átt að veita yður undanþágu.

Í bréfi umboðsmanns 16. desember 2021 til yðar í tilefni af kvörtun yðar 18. nóvember s.á. vegna framangreinds bráðabirgðaákvæðis, sem hlaut málsnúmerið 11400/2021 í málaskrá embættis míns, kom fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Væru því ekki skilyrði að lögum til að taka kvörtunina til meðferðar að því marki sem hún lyti að lagasetningu Alþingis. Að því marki sem kvörtun yðar beindist að afgreiðslu ráðuneytisins á beiðni yðar um undanþágu kom fram að umboðsmaður teldi ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar og þá einkum í ljósi hinna lögmæltu tímamarka til að sækja um undanþágu.

Af kvörtun yðar nú og þeim gögnum sem henni fylgdu verður ráðið að hún lúti að meginstefnu að sömu atriðum og fyrri kvörtun yðar, þ.e. því aldursskilyrði sem kemur fram í bráðabirgðaákvæði IV. í lögum nr. 70/2015. Með vísan til sömu atriða um starfssvið umboðsmanns og fram komu í framangreindu bréfi umboðsmanns til yðar eru því ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að taka kvörtun yðar til meðferðar að því leyti sem hún lýtur að lagasetningu Alþingis. Er þá jafnframt horft til þess að það verður almennt að vera hlutverk dómstóla að skera úr um hvort með lögum Alþingis hafi stjórnskipulega vernduð réttindi, s.s. atvinnuréttindi, verið skert með ólögmætum hætti.

Að því leyti sem kvörtun yðar beinist að synjun menningar- og viðskiptaráðuneytisins 7. nóvember sl. á að veita yður undanþágu frá ákvæðum laga nr. 70/2015 til þess að geta starfað við sölu fasteigna skal tekið fram að eftir að hafa kynnt mér bréf ráðuneytisins til yðar tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu þess. Eru þá framangreind tímamörk umsóknar um undanþágu höfð í huga svo og að lög nr. 70/2015 gera skýra kröfu um löggildingu sýslumanns til þeirra sem hafa milligöngu fyrir aðra um kaup, sölu eða skipti á fasteignum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

 Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar lokið.