Alþingi og stofnanir þess.

(Mál nr. 12481/2023)

Kvartað var yfir ummælum alþingismanns í ræðustól Alþingis.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og stofnana þess voru ekki skilyrði til að tæki kvörtunina til meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. nóvember sl. er lúta að ummælum sem tilgreindur alþingismaður mun hafa látið falla í ræðustól Alþingis 9. nóvember sl.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Þá leiðir það af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að alþingismönnum er tryggður ákveðinn réttur til að tjá sig innan Alþingis en samkvæmt 2. mgr. 49. gr. hennar verður enginn alþingismaður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.

Kvörtun yður, eins og hún er sett fram, lýtur sem fyrr greinir að ummælum sem alþingismaður á að hafa látið falla við umræður á Alþingi. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og læt ég því máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.