Útlendingar. Dvalarleyfi.

(Mál nr. 12477/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Útlendingastofnunar vegna synjunar á endurnýjun bráðabirgðadvalarleyfis.  

Samkvæmt gögnum málsins hafði Útlendingastofnun leiðbeint viðkomandi um að bera mætti túlkun stofnunarinnar á ákvæði í lögum um útlendinga undir dómsmálaráðuneytið. Ekki varð séð að það hefði verið gert og afstaða æðra stjórnvalds þannig fengin og voru því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. nóvember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. nóvember sl., fyrir hönd A, sem lýtur að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um endurnýjun bráðabirgðadvalarleyfis á grundvelli 77. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórnvöldum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 6. gr. laganna er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Þar segir m.a. í 3. mgr. að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrir en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra eða á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að samkvæmt gögnum þeim sem fylgdu kvörtun yðar hefur Útlendingastofnun leiðbeint yður um að mögulegt sé að bera túlkun stofnunarinnar undir dómsmálaráðuneytið. Þar sem ég fæ ekki séð að leitað hafi verið til ráðuneytisins vegna málsins tel ég rétt og í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að þér freistið þess að koma athugasemdum yðar á framfæri við dómsmálaráðuneytið, sem fer með yfirstjórn útlendingamála, þ. á m. Útlendingastofnunar, sbr. 27. tölulið 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, áður en til umboðsmanns er leitað með kvörtun. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi að þessu leyti ætti að hljóta hjá ráðuneytinu. Telji A sig enn rangsleitni beittan, að fenginni afstöðu ráðuneytisins, er unnt að leita til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði samkvæmt lögum nr. 85/1997 til að fjalla nánar um erindi yðar. Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.