Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12480/2023)

Kvartað var yfir álagningu stöðubrotsgjalds.  

Þar sem ekki hafði verið leitað til Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar með beiðni um endurupptöku voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. nóvember sl. yfir álagningu stöðubrotsgjalds sem lagt var á bifreiðina [...] 11. nóvember sl. vegna brots gegn 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem kunna að hafa verið á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur verið talið að í samræmi við þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 sé rétt að leitað sé til Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar með beiðni um endurupptöku ákvörðunar um álagningu stöðubrotsgjalds áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun þess efnis. Þar sem þér hafið upplýst um að þér hafið ekki óskað eftir endurupptöku téðrar ákvörðunar, sbr. samtal starfsmanns umboðmanns við yður 6. desember sl., brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni, að fenginni úrlausn Bílastæðasjóðs, er yður fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.