Utanríkismál.

(Mál nr. 12491/2023)

Kvartað var yfir því að íslensk stjórnvöld hefðu ekki fordæmt ítrekuð brot Ísraels á Genfarsáttmálanum og endurtekna stríðsglæpi gagnvart óbreyttum borgurum.  

Þar sem það er hvorki hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með opinberri framgöngu þingmanna né að taka afstöðu til athafna, eða eftir atvikum athafnaleysis, ráðherra sem einungis verða talin liður í stjórnmálastarfi eða störfum Alþingis voru ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. desember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 5. desember sl. sem beint er að forsætis- og utanríkisráðherra. Lýtur kvörtunin að því að stjórnvöld á Íslandi hafi ekki fordæmt ítrekuð brot Ísraels á Genfarsáttmálanum og endurtekna stríðsglæpi gagnvart óbreyttum borgurunum. Í kvörtuninni er m.a. óskað eftir því að Ísland gagnrýni aðgerðirnar.

Í tilefni af framangreindu er rétt að taka fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 kemur jafnframt fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Ákvæðið hefur m.a. verið skilið á þann veg að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með opinberri framgöngu þingmanna og meðferð þeirra á skyldum sínum sem þjóðkjörinna fulltrúa. Jafnframt fellur það almennt utan við hlutverk umboðsmanns að lögum að taka afstöðu til athafna, eða eftir atvikum athafnaleysis, ráðherra sem einungis verða talin þáttur eða liður í stjórnmálastarfi eða störfum Alþingis.

Þá er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Þar sem kvörtun yðar beinist fyrst og fremst að atriðum sem lúta að pólitískri stefnumótun ríkisstjórnarinnar, en það fellur samkvæmt framangreindu utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis að fjalla um slík mál, læt ég athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.