Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12422/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum stjórnenda Fangelsisins Litla-Hrauni við erindum.  

Í svari frá fangelsinu kom fram að brugðist hefði verið við og hvernig. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 20. október sl., sem þér beinið að stjórnendum Fangelsisins Litla-Hrauni og lýtur að viðbrögðum við erindum sem þér hafið beint til þeirra, þ. á m. um einelti, hótanir og ofbeldi.

Í tilefni af kvörtuninni var forstöðumanni fangelsisins ritað bréf 6. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi yðar hefðu borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Svör bárust með bréfi 29. nóvember sl., sem fylgir í ljósriti, en þar kemur m.a. fram að mál yðar hafi verið rætt á morgunfundi með varðstjóra fangelsisins og honum falið að leysa úr því. Í ljósi kvörtunar yðar til umboðsmanns hafi varðstjóri verið inntur eftir upplýsingum um afgreiðslu málsins og hann upplýst um að rætt hefði verið við yður og mögulega gerendur auk þess sem einn einstaklingur hefði verið færður milli húsa. Hafi varðstjóri talið að með þessu hefði málið verið leyst.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og skorti á viðbrögðum við erindum yðar og í ljósi þess sem fram hefur komið um viðbrögð fangelsisins við þeim tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.