Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit. Starfsleyfi.

(Mál nr. 12442/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að gefa út tímabundið starfsleyfi fyrir veitingastað í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þágildandi starfsleyfi staðarins var fellt úr gildi.  

Ekki varð ráðið af kvörtuninni að leitað hefði verið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með athugasemdirnar vegna núgildandi starfsleyfis frá heilbrigðiseftirlitinu og því ekki skilyrði til að fjalla um hana að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. nóvember sl. er lýtur að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að gefa út tímabundið starfsleyfi fyrir veitingastaðinn X í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þágildandi starfsleyfi veitingastaðarins var fellt úr gildi. Lúta athugasemdir yðar einkum að ákvörðunum heilbrigðiseftirlitsins um að gefa endurtekið út tímabundið starfsleyfi fyrir veitingastaðinn á meðan unnið er að framkvæmd hávaðamælinga og greiningu niðurstaðna þeirra.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að um starfsleyfi til atvinnurekstrar er fjallað í 6. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, en samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Af kvörtun yðar, en henni fylgdu engin gögn, verður ekki ráðið að þér hafið leitað til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með athugasemdir yðar vegna núgildandi starfleyfis téðs veitingastaðar. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar. Teljið þér yður enn beitta rangsleitni, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, er yður fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þar til afstaða nefndarinnar liggur fyrir eru hins vegar ekki skilyrði að lögum til þess að kvörtunin verði tekin til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns.

Ég vek þó athygli yðar á því að þótt kvörtun uppfylli ekki skilyrði laga nr. 85/1997 til þess að vera tekin til meðferðar geta allt að einu falist í henni ábendingar sem kunna að leiða til þess að mál verði tekið upp að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. sömu laga. Í því sambandi tek ég fram að við mat á slíkum ábendingum er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefnið tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.