Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Menntamál. Háskólar. Hæfi. Skráning og varðveisla gagna.

(Mál nr. 12410/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema vegna endurupptökumála sem hún hafði til meðferðar. Einnig voru gerðar athugasemdir við hæfi eins nefndarmanns. 

Í svari nefndarinnar til umboðsmanns voru tafirnar útskýrðar og greint frá því að ætlunin væri að úrskurður lægi fyrir á allra næstu vikum og vonandi fyrir lok árs. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar vegna þessa. Hvað hæfi nefndarmannsins snerti benti umboðsmaður viðkomandi á að hægt væri að óska eftir því við nefndina að hún skæri úr um hæfi hans.

Þá gaf kvörtunin umboðsmanni tilefni til að senda háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þar sem bent var á að samskipti formanns nefndarinnar við málsaðilann hefði farið fram í gegnum netfang lögmannsstofu sem formaðurinn ynni á. Minnti umboðsmaður á áliti sitt í máli nr. 11793/2022 vegna sambærilegra aðstæðna. Meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við tiltekin ákvæði upplýsingalaga um skráningu mála og skráningu upplýsinga um málsatvik og meðferð mála. Enn fremur hefði umboðsmaður áður orðið þess áskynja að varsla og almennt utanumhald gagna hjá áfrýjunarnefndinni hefði ekki verið fullnægjandi. Óskað var eftir að ráðuneytið tæki afstöðu til þess hvort tilefni væri til viðbragða vegna þessa og að umboðsmaður yrði upplýstur fyrir 1. febrúar 2024 um hvort svo væri og þá hver viðbrögðin yrðu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 13. október sl. yfir töfum á afgreiðslu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema vegna tveggja endurupptöku­mála sem til meðferðar eru hjá nefndinni. Var annars vegar um að ræða kæru á niðurstöðu háskólaráðs Háskóla Íslands 9. júní 2022 í máli nr. 2022/1 og hins vegar úrskurð áfrýjunarnefndarinnar 14. mars 2022 í máli nr. 4/2021. Í kvörtun yðar eru einnig gerðar athugasemdir við hæfi eins nefndarmanns.

Í tilefni af kvörtun yðar var áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema ritað bréf 9. nóvember sl. þar sem þess var óskað að nefndin upplýsti hvað liði meðferð og afgreiðslu málanna. Í svari nefndarinnar 29. nóvember sl., sem fylgir hjálagt í ljósriti, eru skýringar á þeim töfum sem orðið hafa á meðferð málsins raktar. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að úrskurðurinn liggi fyrir á „allra næstu vikum“ og að vonir standi til að það verði fyrir árslok.

Þar sem kvörtunin lýtur að töfum og í ljósi áforma nefndarinnar um lúkningu málsins tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtun yðar að þessu leyti.

Hvað snertir athugasemdir yðar er lúta að hæfi eins nefndarmanna bendi ég yður á að í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um þær ástæður sem geta leitt til vanhæfis starfsmanns eða nefndarmanns. Í II. kafla stjórnsýslulaganna er greint á milli starfsmanna og nefndar­manna. Þannig fjallar 2. mgr. 4. gr., 3. og 4. mgr. 5. gr. laganna einungis um nefndarmenn stjórnsýslunefnda. Önnur ákvæði kaflans gilda hins vegar bæði um starfsmenn og nefndarmenn.

Í fyrrgreindri 4. mgr. 5. gr. laganna segir að stjórnsýslunefnd ákveði hvort nefndarmönnum, einum eða fleiri, beri að víkja sæti. Þeir nefndarmenn, sem ákvörðun um vanhæfi snýr að, skulu ekki taka þátt í ákvörðun um það. Þetta gildir þó ekki ef það leiðir til þess að stjórn­sýslunefndin verður ekki ályktunarhæf. Skulu þá allir nefndar­menn taka ákvörðun um hæfi nefndarmanna.

Í 5. gr. stjórnsýslulaga er ekki sérstaklega fjallað um hvort og þá með hvaða hætti málsaðili geti krafist þess að starfs­maður eða nefndarmaður víki sæti við meðferð máls. Engu að síður orkar ekki tvímælis að málsaðili á rétt á því að skorið sé úr um hæfi þeirra sem fengið er það hlutverk að undirbúa, fara með eða leysa úr máli hans. Ef þér teljið að einn nefndarmannanna sé vanhæfur til þess að koma að afgreiðslu málsins getið þér þ.a.l. óskað eftir því við nefndina að hún skeri úr um hæfi hans.

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Standist áform nefndarinnar ekki eða ef frekari tafir verða á meðferð málsins, getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess. Loks er vakin athygli á því að kvörtun yðar hefur orðið mér tilefni til að rita háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra hjálagt bréf þar sem ég hef komið á framfæri ábendingu um skráningu mála og skráningu upplýsinga af hálfu nefndarinnar.

  

  


  

  

Bréf umboðsmanns til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 8. desember 2024.

   

Í október sl. leitaði maður til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir töfum á afgreiðslu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskóla­nema vegna tveggja endurupptökumála sem til meðferðar eru hjá nefnd­inni. Við meðferð málsins vakti það athygli mína að samskipti formanns nefndarinnar, , við málsaðilann fóru fram í gegnum netfang lögmannstofu sem hann starfar á. Í ljósi þess að ráðherra skipar nefndina, sbr. 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, og fer með mála­flokkinn tel ég rétt að upplýsa ráðuneytið um þetta atriði við meðferð málsins og koma á framfæri ábendingu af því tilefni.

Í þessu sambandi skal rifjað upp að í áliti umboðsmanns 22. maí sl. í máli nr. 11793/2022, sem ráðuneytið fékk sent í bréfpósti til upp­lýsingar, kemur fram að fyrrverandi nefndarformaður hafi notað net­fang lög­manns­­stofu sem hann starfaði á í samskiptum vegna meðferðar máls. Taldi umboðsmaður að vegna þessa, auk annarra atriða sem nánar voru tilgreind í téðu áliti, hefði meðferð málsins ekki verið í samræmi við kröfur 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, um skráningu mála og skráningu upplýsinga um málsatvik og meðferð mála. Þá tel ég rétt að taka fram að umboðsmaður hefur áður orðið þess áskynja að varsla og almennt utanumhald gagna hafi ekki verið með fullnægjandi hætti hjá áfrýjunarnefndinni. Í því sambandi nefndi ég tvær kvartanir sem umboðsmanni bárust í ágúst 2013 og desember 2016.

Í ljósi framangreinds tel ég rétt að vekja athygli ráðuneytis yðar á fyrr­greindri kvörtun þannig að það geti tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til viðbragða af því tilefni. Ég óska þess að ráðuneytið upplýsi mig fyrir 1. febrúar nk. um hvort þessi ábending verði því tilefni til viðbragða og þá hverra.