Almannatryggingar. Endurkrafa ofgreiddra bóta. Endurupptaka.

(Mál nr. 12303/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um endurútreikning og uppgjör tekjutengdra bóta sem og úrskurði nefndarinnar að synja beiðni um endurupptöku.  

Af gögnum málsins varð ráðið að við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótum vegna ársins 2021 hafi komið í ljós að tekjur viðkomandi voru, samkvæmt álagningu opinberra gjalda af hálfu skatt­yfirvalda, ekki í samræmi við það sem greiðsluáætlun miðast við.  Vegna staðgreiðslu til frádráttar hefði viðkomandi því fengið ofgreitt vegna ársins. Umboðsmaður taldi ekki forsendur út frá gögnum málsins og forsendum nefndarinnar til að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Greitt hefði verið á grundvelli tekjuáætlunar og síðan endurreiknað og innheimt með hliðsjón af upplýsingum frá skattyfirvöldum. Þá yrði ekki annað ráðið en nefndin hefði fjallað um málið og lagt á það forsvaranlegt mat á grundvelli þeirra lagaákvæða og reglna sem við áttu.

Hvað skattalega meðhöndlun Tryggingastofnunar á greiðslunum snerti varð ekki fyllilega ráðið hvort tilteknar athugasemdir hefðu verið bornar undir skattyfirvöld og/eða væru til meðferðar þar. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um það að svo stöddu. Þá taldi umboðsmaður ekkert athugavert við afgreiðslu nefndarinnar á endurupptökubeiðninni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. desember 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 15. júlí sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 10. maí sl. í máli nr. [...] þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar 25. ágúst 2022 um endurreikning og uppgjör tekju­tengdra bóta vegna ársins 2021 var staðfest. Er jafnframt vísað til tölvubréfaskipta skrifstofu umboðsmanns við yður í tengslum við beiðni yðar um endurupptöku málsins. Fyrir liggur að með úrskurði nefndar­innar 24. ágúst sl. var þeirri beiðni yðar synjað.

Í kvörtuninni kemur m.a. fram að þér teljið að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi ekki tekið málið fyrir með eðlilegum hætti heldur hafi Tryggingastofnun fengið að „ákveða hvað það var sem kært var útaf“ og úrskurða sjálf um það sem hún gerði í tengslum við það. Þá sé alrangt að þér hafið kært vegna endurreiknings bóta árið 2022 vegna bótaársins 2021, eins og fram komi í greinargerð með úrskurðinum, heldur hafi umkvörtunarefnið verið fölsun skatta­gagna.

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd velferðarmála ritað bréf 25. júlí sl. þar sem þess var óskað að nefndin afhenti umboðsmanni afrit af gögnum málsins. Bárust þau 27. sama mánaðar.

  

II

1

Um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega og upplýsingar um tekjur er fjallað í V. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Um fyrrgreinda ákvörðun Trygginga­stofnunar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum yðar á árinu 2021 giltu ákvæði 1. mgr. 39. gr. laganna á þá leið að umsækjanda eða greiðslu­þega væri skylt að taka þátt í meðferð máls, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun nauðsynlegar upplýsingar svo unnt væri að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá var jafn­framt skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur. Sömu reglur er nú að finna í 1. mgr. 47. gr. laganna.

Í III. kafla sömu laga var mælt fyrir um lífeyristryggingar, þ. á m. greiðslur örorkulífeyris svo og fyrirkomulag þeirra. Í 16. gr. laganna var fjallað um tekjutryggingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi þeirra greiðslna sem þar um ræddi. Í 2. mgr. greinarinnar sagði að til tekna samkvæmt III. kafla teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekju­skatt, með tilteknum undan­tekningum. Um fjárhæð örorkulífeyris er nú fjallað í 26. gr. laganna og um tekjugrunn í 30. gr. þeirra. Megin­reglan er því enn sem fyrr sú að hvers kyns skattskyldar tekjur hafi áhrif á fjárhæð þeirra bóta sem Tryggingastofnun greiðir. Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laganna byggðist útreikningur bóta í upphafi á upplýsingum um tekjur bótaþega sem m.a. stafa frá honum sjálfum, sbr. einnig fyrrgreinda og þágildandi 1. mgr. 39. gr. laganna, nú 1. mgr. 33. gr. þeirra.

Í þágildandi 6. mgr. 16. gr. laganna kom fram að Tryggingastofnun skyldi hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur væru í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflaði úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið væri um í þágildandi 40. gr. laganna. Í þágildandi 1. málslið 1. mgr. 45. gr. laganna kom fram að Tryggingastofnun skyldi reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggðist á. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar var Tryggingastofnun heimilt að endurskoða grundvöll bóta­réttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem hefðu orðið á aðstæðum greiðsluþega. Sambærilegar reglur er nú að finna í 1. og 2. mgr. 53. gr. laganna.

Í þágildandi 5. mgr. 16. gr. var einnig kveðið á um það að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðslu­ársins. Þá var tekið fram að bótagreiðsluár væri almanaksár. Í þágildandi 12. mgr. 16. gr. kom fram að þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. sömu greinar væri við útreikning á greiðslum samkvæmt 17. til 19. gr. og 21. til 23. gr. laganna, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Tryggingastofnun skyldi við endur­reikning bótafjárhæðar, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra var aflað. Beita skyldi þeirri reglu sem leiddi til hærri greiðslna. Sama ákvæði er nú að finna í 5. mgr. 33. gr. laganna.

  

2

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar var kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta í 16. gr. laganna. Í 7. mgr. greinarinnar sagði að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins lægju fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skyldi Trygginga­­­stofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Kæmi í ljós við þann endurreikning að bætur hefðu verið ofgreiddar skyldi Tryggingastofnun draga hinar ofgreiddu bætur frá bótum sem bótaþegi kynni síðar að öðlast rétt til en stofnunin öðlaðist þó einnig endur­kröfurétt á hendur viðkomandi bótaþega, sbr. 8. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 55. gr. laganna. Er sú meginregla einnig áréttuð í 9. gr. reglu­gerðar nr. 598/2009, um útreikning, endur­reikning og uppgjör tekju­tengdra bóta og vistunarframlags. Sömu ákvæði er nú að finna í 3. og 4. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 34. gr. laganna. 

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að taka fram að í úrskurði nefndarinnar á bls. 12, þar sem vísað er í texta úr greinar­gerð Tryggingastofnunar til nefndarinnar, kemur fram að niðurstaða endur­reiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að þér hefðuð átt að fá greitt 3.391.457 kr. Þá segir á bls. 13, þar sem enn er vísað til sömu greinargerðar, að við endurreikning hafi komið í ljós að réttindi yðar á árinu 2021 hafi átt að vera samtals 3.373.488 kr. Þá eru þessar upphæðir jafnframt teknar upp í niðurstöðukafla úrskurðarins á bls. 17. Vegna þessa misræmis var óskað eftir nánari útskýringum frá Tryggingastofnun á þeim. Í tölvu­bréfi Tryggingastofnunar til umboðsmanns 23. október sl. kemur fram að rétt hafi verið að þér hefðuð átt að fá 3.391.457 kr. á árinu 2021. Hin talan hafi ekki verið rétt og ranglega vísað til hennar í greinar­gerðinni. Mismunurinn milli þessara tveggja talna sé 17.969 kr., sem hafi verið vegna orlofs- og desemberuppbótar sem á fyrri stigum uppgjörs hefði verið sögð greidd kæranda árið 2021. Það hafi því ranglega verið vísað í að þér hefðuð átt rétt á 3.373.488 kr. árið 2021.

Af gögnum málsins verður ráðið að við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótum vegna ársins 2021 hafi komið í ljós að þér hefðuð samkvæmt álagningu opinberra gjalda af hálfu skatt­yfirvalda verið með hærri tekjur á árinu en áætlað var í upphafi og greiðsluáætlun miðaðist við. Endanleg niðurstaða stofnunarinnar var því sú að þér hefðuð fengið greitt 2.770.143 kr. en hefðuð átt að fá greitt 3.391.457 kr. áður en kom til frádráttar staðgreiðslu. Staðgreiðsla til frádráttar hafi hins vegar numið 1.107.016 kr. og hafi því samtals 485.702 kr. verið ofgreiddar vegna ársins. Í úrskurði nefndarinnar eru forsendur endurreiknings og uppgjörs Trygginga­stofnunar ítarlega raktar.

Ágreiningur málsins lýtur að endur­reikningi og uppgjöri á tekju­tengdum bótum yðar vegna ársins 2021. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og forsendur nefndarinnar tel ég ekki líkur á því að frekari athugun mín á málinu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Í þeim efnum hef ég einkum í huga að af gögnum málsins er ljóst að Tryggingastofnun greiddi yður tekju­tengdar greiðslur á grund­velli upplýsinga úr tekjuáætlun. Þá endurreiknaði stofnunin greiðslurnar með hliðsjón af upplýsingum frá skattyfirvöldum og innheimti í samræmi við þágildandi 7. mgr. 16. gr. og 55. gr. laga nr. 100/2007 sem vikið var að hér að framan. Einnig verður ekki annað ráðið en að úrskurðarnefndin hafi fjallað um málið og lagt á það forsvaranlegt mat á grundvelli þeirra lagaákvæða og reglna sem áttu við.

  

3

Af kvörtun yðar til mín, meðfylgjandi gögnum og úrskurði nefndarinnar fæ ég ekki annað ráðið en að þér séuð m.a. ósáttir við skattalega meðhöndlun Tryggingastofnunar á greiðslum yðar.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kæru­málum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, kveður úrskurðarnefnd vel­ferðar­mála upp úrskurði um ágreinings­efni vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Um meðferð mála fyrir nefndinni gilda almennt sömu reglur og við meðferð mála hjá lægra settum stjórnvöldum, sbr. 30. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu gættu tel ég ekki tilefni til að taka athugasemdir yðar um afmörkun nefndarinnar á kæru yðar eða umfjöllun hennar um ákvörðun Tryggingastofnunar til frekari athugunar.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðs­manns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórn­vald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtuninni verður ekki fyllilega ráðið hvort þær athugasemdir í kvörtun­inni er lúta að fyrrgreindu álitaefni hafi verið bornar undir skattyfirvöld af yðar hálfu en í henni kemur fram að þér séuð með mál í kæruferli hjá Skattinum sem bíði þar vinnslu. Sé framangreint ágreiningsefni til með­ferðar hjá Skattinum bendi ég yður á að í ljósi þess að lög nr. 85/1997, gera ekki ráð fyrir að umboðsmaður fjalli um mál sem eru til meðferðar hjá stjórn­völdum eru ekki skilyrði til að ég fjalli frekar um þetta atriði í kvörtun yðar að svo stöddu. Séu fyrrgreindar athuga­semdir hins vegar ekki til umfjöllunar hjá skattyfirvöldum tel ég engu að síður rétt að þér freistið þess að leita með þær þangað áður en þér beinið kvörtun til mín vegna þeirra. Einnig bendi ég yður á að eftir athugun skattyfirvalda kann að vera tilefni til þess að leita á ný með málið til Tryggingastofnunar og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála.

Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu skattyfirvalda getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé fyrir yður að beina athugasemdum yðar til skattyfirvalda.

  

III

Líkt og áður greinir synjaði úrskurðarnefndin beiðni yðar um endurupptöku málsins með úrskurði 24. ágúst sl.

Um endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. töluliður ákvæðisins, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Ákvæðið veitir því aðila máls rétt til endur­upptöku að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum innan vissra tíma­marka þó í samræmi við 2. mgr. 24. gr. sömu laga. Endurupptaka stjórn­sýslumáls felur því í sér að stjórnvald tekur fyrri ákvörðun sína til nýrrar skoðunar, s.s. á grundvelli nýrra upplýsinga eða gagna sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu málsins.

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að þér hafið talið að niður­staða hennar hafi verið byggð á röngum upplýsingum, þ.e. að nefndin hafi tekið það trúanlegt að þér hefðuð fengið tiltekna upphæð greidda frá Tryggingastofnun og engri staðgreiðslu hefði verið skilað. Nefnd­inni hafi „orðið þetta á“ þótt í gögnum Trygginga­stofnunar væru upplýsingar um annað, þar hafi önnur greiðslufjárhæð verið nefnd og kvittanir fyrir staðgreiðslu. Með hliðsjón af því að Trygginga­stofnun hafi látið nefndinni í té rangar upplýsingar fóruð þér fram á að mál 495/2022 yrði tekið upp aftur og að Trygginga­stofnun yrði gert að nota „réttar og ófalsaðar“ upplýsingar í málinu. Engin ný gögn hafi hins vegar fylgt beiðninni til stuðnings þeirri málsástæðu að úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á röngum upplýsingum.

Af fyrirliggjandi gögnum fæ ég ekki ráðið að nefndin hafi reist úrskurð sinn 10. maí. sl. á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða að aðstæður í málinu hafi breyst þannig að 1. eða 2. töluliður 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993 hafi átt við. Þá fæ ég ekki séð að lögð hafi verið fram gögn sem bendi til þess að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins á grundvelli óskráðra heimilda stjórnvalda. Með hliðsjón af framan­greindu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að synja beiðni yðar um að taka málið til nýrrar meðferðar.

  

IV

Í kvörtun yðar eru gerðar athugasemdir við að einn nefndarmaður hafi undirritað úrskurð nefndarinnar. Þá eru í tölvubréfi yðar til umboðsmanns 10. september sl. gerðar sams konar athuga­semdir við að nafngreindur nefndarmaður hafi einn tekið ákvörðun um að synja beiðni yðar um endurupptöku. Bendið þér á að slík beiðni eigi að fara fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála og tekin fyrir á formlegum fundi hennar. Þá eru einnig gerðar athuga­semdir við aðkomu téðs nefndarmanns að úrskurði nefndarinnar um endurupptökubeiðni yðar.

Í tengslum við þetta bendi ég yður á að í téðum úrskurði kemur skýrt fram að þrír nafngreindir nefndarmenn hafi úrskurðað í málinu. Ég tel því ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til frekari skoðunar. Þá bendi ég yður á að í íslenskum stjórn­sýslurétti hefur ekki verið litið svo á að starfsmaður sé vanhæfur til að fara með mál á ný við endurupptöku þess enda þótt hann hafi áður tekið ákvörðun í því (Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur: málsmeðferð, bls. 273). Hið sama gildir einnig þótt grundvöllur endurupptökumálsins séu mistök hlutaðeigandi starfsmanns við fyrri meðferð málsins eða úrlausn þess, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 16. júní 2004 í máli nr. 3906/2003. Ég tel því ekki tilefni til að gera athugasemdir aðkomu umrædds nefndarmanns við endurupptöku málsins. 

   

V

Að öðru leyti tel ég þær athugasemdir sem koma fram í kvörtun yðar ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til frekari athugunar. Lýk ég því hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­­mann Alþingis.