Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Útlendingar. Dvalarleyfi.

(Mál nr. 12487/2023)

Kvartað var yfir því að Útlendingastofnun væri lengi að afgreiða umsókn um dvalarleyfi.  

Umsóknin hafði verið lögð fram tveimur mánuðum áður en kvartað var til umboðsmanns. Að meðaltali tekur 7 til 10 mánuði að afgreiða þær og taldi umboðsmaður því ekki slíkan drátt hafa orðið að ástæða væri til að taka málshraða stofnunarinnar við afgreiðslu á umsókninni sérstaklega til athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 4. desember sl. yfir löngum afgreiðslutíma hjá Útlendingastofnun. Af gögnum málsins má ráða að dvalarleyfisumsókn eiginkonu yðar hafi verið lögð fram 5. október sl. en samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun og dómsmálaráðuneytinu er afgreiðslutími umsókna á bilinu 7 til 10 mánuðir að meðaltali.  

Í tilefni af framangreindu er rétt að taka fram að samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þetta hefur gjarnan verið orðað svo að leysa beri úr málum borgaranna og erindum þeirra án þess að óeðlilegar eða óréttlættar tafir verði þar á. Það fer eftir umfangi viðkomandi máls og álagi í starfi stjórnvaldsins hvaða tími telst hæfilegur og eðlilegur við afgreiðslu þess. Verður því að ætla stjórnvöldum nokkuð svigrúm þegar kemur að því að meta hversu langur tími geti talist eðlilegur við afgreiðslu hvers og eins máls. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og því sem fram kemur í gögnum málsins um mikinn fjölda mála hjá Útlendingastofnun tel ég ekki tilefni til þess að taka sérstaklega til athugunar málshraða stofnunarinnar við afgreiðslu á umsókn eiginkonu.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þér getið leitað til mín á nýjan leik verði óhæfilegur dráttur á meðferð umsóknarinnar af hálfu Útlendingastofnunar með kvörtun þar að lútandi ef þér teljið ástæðu til.