Fasteignaskráning og fasteignamat.

(Mál nr. 12492/2023)

Kvartað var yfir því að ekki væri farið að lögum um skráningu og mat fasteigna við ákvörðun fasteignamats í Borgarbyggð.  

Þar sem hvorki varð ráðið með hvaða hætti athugasemdirnar hefðu verið bornar upp Húsnæðis- og mannvirkjastofnun né að þær hefðu verið bornar undir innviðaráðuneytið voru ekki skilyrði til að fjalla frekar um málið að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. desember sl. yfir því að ekki sé farið að lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, við ákvörðun fasteignamats í Borgarbyggð. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni teljið þér að þær eignir sem lagðar voru til grundvallar endurmati fasteignamats á svæðinu teljist ekki sambærilegar í skilningi laganna. Þá segir í kvörtuninni að yður sé kunnugt um að yður sé unnt að óska eftir endurmati á eignum yðar.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórnvöldum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 6. gr. laganna er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Þar segir m.a. í 3. mgr. að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrir en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður einnig almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða æðra stjórnvaldsins til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Ástæða þess að þetta er rakið er m.a. sú að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2001 fer Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt lögunum og annast hún m.a. mat fasteigna samkvæmt þeim, sbr. 1. mgr. 29. gr. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 7. gr. laganna starfar stofnunin á ábyrgð innviðaráðuneytisins og undir umsjón þess en samkvæmt n-lið 4. töluliðar 7. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer ráðuneytið með mál er varða fasteignaskrá og fasteignamat.

Athugasemdir yðar beinast að ákvörðun fasteignamats í sveitarfélaginu með almennum hætti. Kvörtuninni fylgdi m.a. afrit af tölvupóstsamskiptum yðar við sveitarstjóra Borgarbyggðar nýverið. Í erindi yðar til sveitarstjórans 1. desember sl. vöktuð þér athygli hans á athugasemdum yðar svo og 32. gr. laga nr. 6/2001 þar sem segir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé heimilt, sé þess krafist af hálfu innviðaráðuneytisins eða sveitarfélags að taka til endurmats m.a. eignir í sveitarfélögum telji hún matsverð ekki samræmi við gangverð eins og ætlast er til samkvæmt lögunum. Í svari sveitarstjórans 4. desember kom m.a. fram sú afstaða hans að ekki yrði séð að fasteignamat væri óeðlilega hátt í Borgarbyggð væri tekið mið af fasteignamati á nálægum matsvæðum, mismuni á mati í dreifbýli og þéttbýli í sveitarfélaginu svo og svæðum sem væru nokkuð sambærileg Borgarbyggð. Þá fylgdi kvörtuninni afrit af tölvubréfi starfsmanns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til yðar 28. nóvember sl. þar sem m.a. komu fram upplýsingar um matsvæði á Vesturlandi.

Þar sem hvorki verður ráðið með hvaða hætti þér hafið borið upp athugasemdir yðar við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem annast fasteignamat, né að þér hafið borið athugasemdir yðar undir innviðaráðuneytið tel ég ekki rétt að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu. Ég bendi aftur á móti á að fari svo að þér leitið til téðra stjórnvalda með athugasemdir yðar getið þér freistað þess að leita til mín á ný að fenginni afstöðu þeirra til athugasemdanna og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Þá tek ég fram að ef þér kjósið að óska eftir endurmati á fasteign yðar að unnt er að kæra niðurstöðu þar um til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 33. og 34 gr. laga nr. 6/2001. Þér getið því freistað þess að leita til nefndarinnar með fasteignarmat yðar en ég tek þó fram að með þeirri ábendingu minni hef ég enga efnislega afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta á nefndinni. Fari svo að þér leitið til yfirfasteignamatsnefndar getið þér jafnframt leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.