Bótaábyrgð ríkisins. Sanngirnisbætur.

(Mál nr. 12440/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur sem staðfesti ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi eystra um frávísun kröfu um sanngirnisbætur. Niðurstaða nefndarinnar sýndi skort á skilningi á aðstæðum viðkomandi og ekki væri viðeigandi að hafna umsókninni á þeim forsendum að krafan hefði borist utan lögmælts kröfulýsingarfrests.  

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við að krafan hefði borist utan frests. Þá yrði ekki séð á hvaða lagagrundvelli hefði verið heimilt að víkja frá lögmæltum fresti. Að því marki sem kvörtunin beindist að efni þeirrar lagareglu sem mælti fyrir um frestinn tók umboðsmaður fram að starfssvið hans tæki ekki til starfa Alþingis. Því væri almennt ekki í verkahring hans að taka afstöðu til þess hvernig tekist hefði til með löggjöf sem Alþingi hefði sett.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. desember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 2. nóvember sl. sem beint er að úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur vegna úrskurðar nefndarinnar 12. október sl. í máli nr. 8/2023. Með úrskurði nefndarinnar var staðfest ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi eystra 20. júlí 2022 um frávísun kröfu yðar um sanngirnisbætur. Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefndinni ritað bréf 14. nóvember sl. þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrði afhent afrit af gögnum málsins. Svör nefndarinnar bárust 1. desember sl.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar var lagt til grundvallar að krafa yðar um bætur hafi borist 1. mars 2022, en frestur til að lýsa kröfu á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 47/2010, sem áður fjölluðu um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem féllu undir lög nr. 26/2007, en heita nú lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum fyrir fötluð börn og bera sama númer, hafi runnið út 20. desember 2012 í tilviki yðar. Hafi krafa yðar um sanngirnisbætur því komið fram utan lögmælts kröfulýsingarfrests. Teljið þér að framangreind niðurstaða nefndarinnar sýni skort á skilningi á aðstæðum yðar. Þá sé ekki viðeigandi að hafna umsókn um bætur á grundvelli þess að umsókn hafi borist utan umsóknarfrests.

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og fyrirliggjandi gögn tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar um að krafa yðar hafi borist utan lögmælts kröfulýsingarfrests. Þá verður ekki séð á hvaða lagagrundvelli úrskurðarnefndinni hefði verið heimilt að víkja frá hinum lögmælta fresti. Er þá horft til þess að í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 47/2010 segir að sé kröfu ekki lýst innan kröfulýsingarfrests falli hún niður. Aðeins megi víkja frá þessu ef sýnt þykir að þeim sem lýsir kröfu var það ekki unnt fyrr eða önnur veigamikil rök mæla með því en sú undanþága fellur niður að liðnum tveimur árum frá því að frestinum lauk.

Að því marki sem af kvörtun yðar verður ráðið að þér séuð ósáttar við efni framangreindrar lagareglu sem úrskurðarnefndin lagði til grundvallar að þessu leyti tek ég fram að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns hins vegar ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett.

Ég læt þess þó getið að í samráðsgátt íslenskra stjórnvalda er að finna drög að frumvarpi um sanngirnisbætur sem birt voru 2. desember 2022. Þar kemur fram að fyrirhugað sé að setja heildarlög um sanngirnisbætur þar sem einstaklingar sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða sem ekki fæst bættur á annan hátt vegna illrar meðferðar eða ofbeldis sem þeir hafa orðið fyrir vegna athafna eða athafnaleysis opinberra aðila hjá stofnunum ríkisins eða sveitarfélaga eða af hálfu einkaaðila á grundvelli ákvörðunar eða samnings við opinberan aðila eða samkvæmt opinberu leyfi samkvæmt lögum eiga rétt til greiðslu sanngirnisbóta. Umrætt frumvarp hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi en drög að því má nálgast á vefslóðinni www.samradsgatt.island.is.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.