Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 12494/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Menntasjóðs námsmanna um að synja umsókn um námslán.  

Þar sem ákvörðun sjóðsins hafði hvorki verið borin undir stjórn hans né málskotsnefnd Menntasjóðs voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 15. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. desember sl. yfir ákvörðun Menntasjóðs námsmanna um að synja umsókn yðar um námslán. Af ákvörðun sjóðsins, sem var meðfylgjandi kvörtun yðar til umboðsmanns, verður ráðið að framangreind synjun hafi byggst á því að sjóðurinn telji yður ekki lánshæfa þar sem sjóðurinn hafi áður þurft að afskrifa lán gagnvart yður. Því þurfið þér að leggja fram veð eða tvo ábyrgðarmenn og að gangast undir greiðslumat. Niðurstaða sjóðsins virðist að þessu leyti einkum byggjast á gr. 10.1 í lánareglum Menntasjóðs námsmanna 2023-2024, en þar kemur m.a. fram að ábyrgðar á námsláni sé krafist ef lánþegi telst ekki tryggur lántakandi. Lánþegi teljist ekki tryggur lántakandi þegar hann er á vanskilaskrá, bú hans er í gjaldþrotameðferð eða ef sjóðurinn hefur þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi.

Samkvæmt 4. tölulið 4. mgr. 30. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, sker stjórn sjóðsins úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum. Samkvæmt 5. mgr. 30 gr. og 2. mgr. 32. gr. laganna er unnt að vísa ákvörðunum sjóðstjórnar varðandi málefni einstakra lánþega, umsækjenda og ábyrgðarmanna til málskotsnefndar Menntasjóðs sem sker úr um ákvarðanir sjóðstjórnar þar um séu í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Nefndin getur staðfest, breytt, eða fellt úr gildi ákvarðanir sjóðsins.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu lagaákvæði býr m.a. það sjónarmið að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er með kvörtun til aðila á borð við umboðsmann Alþingis sem stendur utan stjórnkerfis þeirra.

Þar sem ekki verður ráðið af kvörtuninni að þér hafið borið ákvörðun sjóðsins undir stjórn hans eða málskotsnefndina eru ekki skilyrði að lögum til að ég geti fjallað um kvörtun yðar og lýk ég því athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo að þér leitið til stjórnar sjóðsins og eftir atvikum málskotsnefndarinnar og teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu þeirra, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.