Atvinnuleysistryggingar. Málshraði. Almennt um málshraða. Tafir á málsmeðferð. Tilkynning um tafir á afgreiðslu máls. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. F128/2023)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun viðvíkjandi töfum á afgreiðslu Vinnumálastofnunar á beiðnum um endurútreikning atvinnuleysisbóta til þeirra sem fengið höfðu greitt svonefndar hlutabætur árin 2020 og 2021. Tildrög athugunarinnar voru kvörtun sem umboðsmanni barst í nóvember 2022. Hafði viðkomandi óskað eftir slíkum endurútreikningi í maí 2022 í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála 24. febrúar þess árs þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að skerða atvinnuleysisbætur vegna orlofs, orlofsuppbótar eða desemberuppbótar í þeim mánuði sem sú greiðsla var innt af hendi. Við meðferð kvörtunarinnar komu fram þær skýringar af hálfu Vinnumálastofnunar að í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála hefði öllum þeim sem fengið hefðu greiddar hlutabætur árin 2020 og 2021 verið sent tölvubréf 3. maí 2022 þar sem upplýst var um að niðurstaða nefndarinnar kynni að hafa áhrif á útreikning atvinnuleysisbóta til þeirra og þeim stæði því til boða að óska eftir endurútreikningi. Í sama mánuði hefði stofnunin tekið í notkun nýtt tölvukerfi en innleiðing þess hefði haft í för með sér töluverðar tafir á úrlausnum mála. Þær tafir hefðu orðið þess valdandi að Vinnumálastofnun hefði ekki hafið vinnu við að taka til afgreiðslu beiðnir um endurútreikning atvinnuleysisbóta þar sem tölvukerfið byði enn ekki upp á lausn til að afgreiða slíkar beiðnir.

Umboðsmaður rakti almenn sjónarmið um málshraða í stjórnsýslunni. Benti hann á að rekja mætti þær tafir sem urðu á afgreiðslu beiðna um endurútreikning hlutabóta til atvika sem alfarið væru á ábyrgð stofnunarinnar og hefðu þær orðið þess valdandi að engar beiðnir hefðu verið afgreiddar í rúmlega eitt ár eða ekki fyrr en í apríl 2023. Taldi umboðsmaður það leiða af meginreglunni um málshraða í stjórnsýslunni að þótt eðlilegt væri að stjórnvöld styddust við rafrænar og eftir atvikum sjálfvirkar lausnir við útreikning á þeim lögbundnu greiðslum sem þeim bæri að inna af hendi væri það takmörkunum háð hve lengi þau gætu beðið átekta með afgreiðslu mála á meðan beðið væri eftir slíkri lausn og þá án þess að gripið væri til annarra tækra ráðstafana.

Það var álit umboðsmanns að Vinnumálastofnun hefði ekki fært fram fullnægjandi skýringar á því hvort unnt hefði verið að grípa til annarra ráðstafana til að vinna bug á þeirri stöðu sem upp var komin í starfsemi hennar en þeirra að vinna að endurbótum á tölvukerfi, s.s. að fela starfsmönnum stofnunarinnar að annast útreikninga handvirkt. Taldi hann ekki fram komið að slík úrræði hefðu verið óraunhæf m.t.t. fjölda þeirra beiðna um endurútreikning sem hefðu borist. Þó að slík framkvæmd kynni vissulega að vera tímafrekari í samanburði við þá rafrænu lausn sem Vinnumálastofnun hefði almennt stuðst við yrði ekki litið framhjá því að um eitt ár leið þar til að ásættanleg tæknilausn fannst og engin beiðni um endurútreikning var afgreidd á þeim tíma.

Umboðsmaður gerði jafnframt athugasemdir við að þrátt fyrir að upphafsmat Vinnumálastofnunar á þeim beiðnum sem henni bárust hefði verið á þá leið að skilyrði fyrir endurútreikningi bóta væru ekki uppfyllt í öllum tilvikum hefðu engar beiðnir verið afgreiddar. Samkvæmt skýringum stofnunarinnar var ekki lögð sérstök áhersla á að afgreiða beiðnir sem ekki uppfylltu skilyrði endurskoðunar eða tilhæfulausar beiðnir „á undan öðrum“. Taldi umboðsmaður að Vinnumálastofnun hefði verið í lófa lagið að afgreiða þau mál þar sem fyrir lá að skilyrði fyrir endurútreikningi væru ekki uppfyllt.

Að endingu tók umboðsmaður fram að þegar fyrirsjáanlegt hefði verið að afgreiðsla Vinnumálastofnunar á beiðnum um endurútreikning bóta myndi tefjast vegna innleiðingar á nýju tölvukerfi stofnunarinnar hefði henni verið skylt að upplýsa þá sem óskað hefðu eftir slíkum útreikningi að fyrirsjáanlegt væri að tafir yrðu á afgreiðslu, hverjar væru ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta. Þar sem það hefði ekki verið gert hefði verklag Vinnumálstofnunar að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 9. janúar 2023.

  

  

I Tildrög og afmörkun athugunar

Umboðsmanni Alþingis barst í nóvember 2022 kvörtun sem laut m.a. að töfum Vinnumálastofnunar við endurútreikning á áður innheimtum ofgreiddum atvinnuleysisbótum til þeirra sem fengið höfðu greitt orlof eða orlofsuppbót á meðan þeir voru á svonefndum hlutabótum árin 2020 og 2021, en sá sem bar kvörtunina fram hafði þegið greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli. Hafði hann óskað eftir slíkum endurútreikningi í maí 2022 í kjölfar úrskurða úrskurðanefndar velferðarmála 24. febrúar þess árs þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að skerða atvinnuleysisbætur vegna orlofs, orlofsuppbótar eða desemberuppbótar í þeim mánuði sem sú greiðsla var innt af hendi.

Í tilefni af kvörtuninni var Vinnumálastofnun ritað bréf 23. nóvember 2022 þar sem óskað var upplýsinga um hvort beiðni viðkomandi um endurútreikning hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar. Svör Vinnumálastofnunar bárust 26. janúar 2023 þar sem fram kom að í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála hefði öllum þeim sem fengið hefðu greiddar hlutabætur frá stofnuninni árin 2020 og 2021 verið sent tölvubréf 3. maí 2022 þar sem upplýst hefði verið að niðurstaða nefndarinnar kynni að hafa áhrif á útreikning atvinnuleysisbóta til þeirra og þeim stæði því til boða að óska eftir endurútreikningi.

Í svarinu kom fram að Vinnumálastofnun hefði á undanförnum mánuðum unnið að umfangsmiklum breytingum á starfsemi sinni sem lytu að þróun, uppsetningu og innleiðingu nýs tölvukerfis sem tæki til allra þátta starfseminnar. Kerfið hefði verið tekið í notkun í maí 2022 og enn væri unnið að innleiðingu þess. Þessi umfangsmikla breyting á starfsemi stofnunarinnar hefði valdið atvinnuleitendum, sem og starfsmönnum stofnunarinnar, erfiðleikum enda fylgdu breytingunum töluverðar tafir á úrlausnum mála. Þær miklu tafir sem fylgt hefðu innleiðingu tölvukerfisins hefðu valdið því að Vinnumálastofnun hefði ekki hafið vinnu við að taka til afgreiðslu beiðnir um endurútreikning atvinnuleysisbóta vegna þeirra sem fengið hefðu greitt orlof samhliða greiðslu hlutabóta, en tölvukerfið byði enn sem komið væri ekki upp á slíka lausn og væri frekari vinnu þörf til að unnt væri að ráðast í það verkefni. Stofnunin ítrekaði þó að lengi hefði verið unnið að undirbúningi og mögulegum útfærslum svo unnt yrði að framkvæma endurútreikning á sem skilvirkastan hátt. Ekki væri unnt að segja til um það með vissu hvenær beiðni kvartanda um endurútreikning yrði tekin fyrir en hún hefði verið móttekin og skráð í kerfum stofnunarinnar. Þó nokkrar beiðnir um endurútreikning hefðu borist stofnuninni og yrðu þær teknar fyrir í þeirri röð sem þær bárust.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtuninni 7. febrúar 2023 með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, einkum í ljósi þess að þær tafir sem orðið hefðu á afgreiðslu málsins væru af almennum orsökum en ekki bundnar við mál viðkomandi sérstaklega. Svör Vinnumálastofnunar urðu umboðsmanni þó tilefni til að taka þær tafir, sem orðið höfðu á afgreiðslu stofnunarinnar á áðurnefndum beiðnum um endurútreikning atvinnuleysisbóta, til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Hefur athugun umboðsmanns beinst að því hvort afgreiðsla og verklag Vinnumálastofnunar hafi samrýmst málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  

II Samskipti umboðsmanns og Vinnumálastofnunar

Í bréfi til Vinnumálastofnunar 9. febrúar 2023 var þess í fyrsta lagi óskað að veittar yrðu upplýsingar um hvort tölvukerfi stofnunarinnar hefði verið prófað áður en það var tekið í gagnið, m.a. með tilliti til þess hvernig það félli að starfsemi hennar. Í öðru lagi var farið fram á að veittar yrðu upplýsingar um umfang þeirra tafa sem orðið hefðu á afgreiðslu mála hjá Vinnumálastofnun vegna innleiðingar tölvukerfisins, þ.e. hvort þær væru bundnar við tiltekna málaflokka eða hvort þær tækju til starfsemi stofnunarinnar í heild. Í þriðja lagi var þess óskað að upplýst yrði hversu margar beiðnir um endurútreikning atvinnuleysisbóta hefðu borist stofnunni frá því í febrúar 2022 og hversu margar þeirra hefðu þegar verið afgreiddar. Í fjórða lagi var spurt um hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að endurútreikningur bótanna væri framkvæmdur með öðrum hætti en með notkun tölvukerfisins í ljósi þess að fyrir lægi að þær tafir sem hlotist hefðu af innleiðingu tölvukerfisins hefðu staðið yfir í töluverðan tíma. Loks var þess óskað að Vinnumálastofnun upplýsti hvort hún hefði að eigin frumkvæði upplýst þá sem óskað hefðu eftir endurútreikningi atvinnuleysisbóta um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu erinda þeirra, ástæður tafanna og hvenær þeir mættu vænta svars í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svarbréf Vinnumálastofnunar barst umboðsmanni 7. mars 2023. Þar kom fram að hið nýja tölvukerfi, sem tekið hefði verið í notkun í maí 2022, lyti að öllum þeim lögbundnu verkefnum sem stofnunin sinnti samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir. Skrá yfir laus störf, skráning atvinnulausra, útreikningur og greiðslur atvinnuleysisbóta og skipulag vinnumarkaðsaðgerða færi því í gegnum tölvukerfið. Eðli málsins samkvæmt krefðist innleiðing nýs tölvukerfis hjá stofnun sem sinnti svo fjölbreyttum verkefnum fjölmargra prófana yfir langt tímabil. Daglegar prófanir á kerfinu hefðu hafist í september 2020 en fyrir þann tíma hefði tveimur árum verið varið í að hanna og forrita kerfið með hliðsjón af starfsemi stofnunarinnar. Þá hefðu einnig verið haldnar fjölmargar vinnustofur, þar sem starfsfólk stofnunarinnar hefði fengið nauðsynlega fræðslu um kerfið og þjálfun í notkun þess. Tekið var fram að þróun kerfisins og þær prófanir, sem framkvæmdar hefðu verið, hefðu tekið mið af starfsemi stofnunarinnar sem krefðist skjótrar afgreiðslu umsókna og stöðugra samskipta við skjólstæðinga hennar.

Í bréfi Vinnumálastofnunar kom jafnframt fram að innleiðingu tölvukerfisins, sem tæki til nær allra þátta stofnunarinnar, hefðu eðlilega fylgt nokkrir hnökrar, enda þörfnuðust starfsmenn einhvers aðlögunartíma vegna svo umfangsmikilla breytinga. Þeir hnökrar hefðu þó staðið yfir í skamman tíma og hefði meðalafgreiðslutími stofnunarinnar frá því að tölvukerfið hefði verið tekið í notkun styst til muna. Yrði því að telja að undirbúningsvinna stofnunarinnar hefði sannanlega þjónað markmiði sínu. Þær tafir sem innleiðing tölvukerfisins hefði valdið væru einkum bundnar við endurútreikning hlutabóta í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála. Þróun og smíði á tölvukerfinu hefði verið hafin en ólokið þegar lög nr. 23/2020, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa, sem hefðu m.a. varðað greiðslu hlutabóta, tóku gildi. Hlutabætur hefðu verið afgreiddar og greiddar í gegnum sérsmíðaða hugbúnaðarlausn sem byggst hefði á eldri kerfum stofnunarinnar. Þegar nýtt kerfi hefði verið tekið í notkun hefðu tengingar við eldri kerfi rofnað en hið nýja tölvukerfi byði ekki upp á lausn til að afgreiða beiðnir um endurútreikning hlutabóta. Stofnunin hefði í samræmi við hugbúnaðarsérfræðinga unnið að lausn og væri virkni þeirrar lausnar í prófun hjá greiðslustofu Vinnumálastofnunar.

Í bréfinu var greint frá því að Vinnumálastofnun áætlaði að henni hefðu borist um 276 beiðnir um endurútreikning og hefðu engar þeirra verið afgreiddar. Meðal þeirra erinda sem borist hefðu stofnuninni um endurútreikning væru beiðnir sem ekki vörðuðu þau atvik sem úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála tækju til. Vinnumálastofnun hefði lagt upphafsmat á þau gögn sem borist hefðu stofnuninni um endurútreikning og ljóst væri að skilyrði fyrir endurútreikningi væru ekki uppfyllt í öllum tilvikum. Jafnframt sagði í bréfinu að engin tilkynning hefði að frumkvæði Vinnumálastofnunar verið send til þeirra sem óskað hefðu eftir endurútreikningi atvinnuleysisbóta um fyrirsjáanlegar tafir á úrlausn mála þeirra.

Með bréfi umboðsmanns til Vinnumálastofnunar 30. mars 2023 kom fram að ekki yrði annað ráðið af svari stofnunarinnar en að sú lausn sem hún hefði unnið að, svo unnt yrði að afgreiða beiðnir um endurútreikning hlutabóta, miðaðist við notkun hins nýja tölvukerfis. Hins vegar hefðu ekki borist skýr svör við þeirri spurningu hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að endurútreikningur bótanna væri framkvæmdur með öðrum hætti en með notkun tölvukerfisins. Af því tilefni var áréttuð fyrri ósk umboðsmanns um svar við þeirri fyrirspurn. Einnig var óskað eftir því að Vinnumálastofnun veitti skýringar á því af hverju þær beiðnir sem stofnunin teldi ekki uppfylla skilyrði fyrir endurútreikningi hefðu ekki þegar verið afgreiddar.  Loks var þess óskað að stofnunin lýsti afstöðu sinni til þess hvort og þá hvernig meðferð hennar á beiðnum um endurútreikning atvinnuleysisbóta hefði samrýmst 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og hvort fyrirhugað væri að veita upplýsingar í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins.

Svar Vinnumálastofnunar barst með bréfi 19. apríl 2023. Þar kom fram að stofnunin hefði nú lokið vinnu við ásættanlega tæknilausn og þegar hafið afgreiðslu mála sem borist hefðu. Afgreiðslu stofnunarinnar myndi ljúka í þeirri viku og umsækjendur fá tilkynningu þess efnis innan skamms. Tekið var fram að það hefði verið ætlun stofnunarinnar að afgreiða allar beiðnir með skjótum hætti en tækniörðugleikar hefðu komið í veg fyrir þær fyrirætlanir og tafir á viðunandi tæknilausn orðið lengri en áætlað hefði verið. Ekki hefði verið lögð sérstök áhersla á að afgreiða beiðnir sem ekki uppfylltu skilyrði endurskoðunar eða tilhæfulausar beiðnir á undan öðrum erindum. Þegar vinnu við ásættanlega tæknilausn hefði loks lokið hefði fyrst verið unnt að upplýsa skjólstæðinga stofnunarinnar um það hvenær mætti vænta ákvörðunar í máli þeirra. Nú þegar slík lausn hefði verið fundin væri ljóst að afar fljótlegt myndi reynast að afgreiða beiðnirnar.

  

III Álit umboðsmanns Alþingis

1 Almenn sjónarmið um málshraða í stjórnsýslunni

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er lögfest óskráð grundvallarregla um málshraða í stjórnsýslunni. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í reglunni felst að aldrei má vera um óréttlætanlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari almennu reglu hefur umboðsmaður Alþingis lagt til grundvallar að stjórnvöldum sé almennt skylt, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem stjórnsýslulögin gilda um eða aðra stjórnsýsluframkvæmd, að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þá meginreglu sem felst í ákvæðinu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 6. júlí 2018 í máli nr. 9164/2016.

Í stjórnsýslulögum er ekki kveðið á um fastákveðinn afgreiðslutíma eða hvenær dráttur á afgreiðslu máls teljist óréttlætanlegur. Þar sem lögákveðnum afgreiðslufrestum sleppir verður við mat á því hvað getur talist eðlilegur afgreiðslutími að meta meðferð í hverju máli heildstætt. Við matið þarf því að líta til umfangs og eðlis máls auk atvika hverju sinni. Þar hefur mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila jafnframt þýðingu, til að mynda þegar um er að ræða mál er varða verulega fjárhagslega og félagslega hagsmuni. Ég nefni í þessu sambandi að samkvæmt 2. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er markmið þeirra að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Eru greiðslur á grundvelli laganna þannig að jafnaði ætlaðar mönnum til framfærslu og verður því að miða við að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um rétt til slíkra greiðslna og fjárhæð lúti almennt að mikilvægum hagsmunum viðkomandi.

Við mat á því hvort tafir á afgreiðslu máls verði taldar óréttlætanlegar verður þó einnig að horfa til þess hvort ástæður þeirra verða raktar til stjórnvalda eða aðila máls. Þegar tafir á afgreiðslu máls verða alfarið vegna atvika sem stjórnvöld bera ábyrgð á og bera áhættuna af er að jafnaði talið að um óréttlætanlegar tafir sé að ræða sem brjóti gegn 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga eða fyrirmælum um annan lögákveðinn afgreiðslufrest. Stafi tafir á afgreiðslu mála af galla á tölvukerfi og afgreiðslukerfum stjórnvalda eða skorti á viðhlítandi búnaði til að sinna afgreiðslu þeirra verður að miða við að um sé að ræða slíkar tafir, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 12. júlí 1999 í máli nr. 2545/1998 (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson: Stjórnsýsluréttur. Málsmeðferð, Reykjavík 2013, bls. 452-454).

Samkvæmt framangreindu fellur það í hlut stjórnvalda að móta innri verkferla og haga starfsemi sinni og skiptingu verkefna milli starfsmanna með þeim hætti að þeim sjónarmiðum sem búa að baki 9. gr. stjórnsýslulaga sé fylgt í framkvæmd og óréttlætanlegar tafir verði ekki á afgreiðslu mála.

  

2 Samrýmdist framkvæmd Vinnumálastofnunar kröfum um málshraða?

Líkt og áður greinir liggur fyrir að í febrúar 2022 kvað úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurði þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Vinnumálastofnun hefði verið óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur vegna orlofs, orlofsuppbótar eða desemberuppbótar í þeim mánuði sem sú greiðsla var innt af hendi. Í kjölfar þess sendi Vinnumálastofnun öllum þeim sem fengið höfðu hlutabætur greiddar frá stofnuninni bréf 3. maí þess árs, þar sem upplýst var um þá niðurstöðu auk þess sem athygli þeirra var vakin á því að hún kynni að hafa áhrif á útreikning atvinnuleysisbóta til þeirra og þeim stæði til boða að óska eftir endurútreikningi. Vegna vandkvæða við innleiðingu nýs tölvukerfis hjá Vinnumálastofnun, sem tekið var í notkun í sama mánuði og samkvæmt stofnuninni bauð ekki upp á lausn til að afgreiða beiðnir um endurútreikning hlutabóta, voru þær beiðnir hins vegar ekki afgreiddar fyrr en í apríl 2023 eða rúmu ári eftir að fyrrgreindir úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála lágu fyrir.  

Sá dráttur sem varð á afgreiðslu Vinnumálastofnunar á téðum beiðnum um endurútreikning hlutabóta mátti samkvæmt framangreindu rekja til atvika sem alfarið voru á ábyrgð stofnunarinnar. Urðu þau atvik þess valdandi að engar beiðnir þessa efnis voru afgreiddar í rúmlega eitt ár. Samkvæmt skýringum Vinnumálastofnunar lutu þær ráðstafanir, sem stofnunin greip til í því skyni að vinna bug á því ástandi, alfarið að því að finna fullnægjandi tæknilega lausn. Því var hins vegar ekki skýrlega svarað af hálfu Vinnumálastofnunar, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þar að lútandi, hvort eitthvað hefði verið því til fyrirstöðu að endurútreikningur bótanna yrði framkvæmdur með öðrum hætti en með notkun tölvukerfis stofnunarinnar.

Sem fyrr greinir hvílir sú skylda á stjórnvöldum að haga starfsemi sinni með þeim hætti að ákvarðanir séu teknar í málum svo fljótt sem unnt er. Þá ber forstöðumaður ábyrgð á að stofnun, sem hann stýrir, starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og fjármunir, sem veittir eru til stofnunar á fjárlögum, séu nýttir í þessu markmiði á árangursríkan hátt, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Komi upp aðstæður í starfsemi stjórnvalds, sem verða þess valdandi að fyrirsjáanlegt er að ekki verði unnt að sinna lögbundum verkefnum þess, ber forstöðumaður stofnunar ábyrgð á því að gerðar séu viðhlítandi ráðstafanir til að koma starfseminni í lögmætt horf. Lúti starfsemi stofnunar að flóknum, og eftir atvikum tímafrekum útreikningum, verður að líta svo á að sú skylda hvíli á forstöðumanni að grípa til viðeigandi ráðstafana svo unnt sé að framkvæma þau verkefni. Þær ráðstafanir kunna m.a. að felast í því að sjá til þess að stofnunin hafi á að skipa starfsmönnum sem ráði við slíka útreikninga, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmann Alþingis 12. júlí 1999 í máli nr. 2545/1998.

Það leiðir af meginreglunni um málshraða í stjórnsýslunni að þótt eðlilegt sé að að stjórnvöld styðjist við rafrænar og eftir atvikum sjálfvirkar lausnir við útreikning á þeim lögbundnu greiðslum sem þeim ber að inna af hendi er það takmörkunum háð hve lengi þau geta beðið átekta með afgreiðslu mála á meðan beðið er eftir slíkri lausn og þá án þess að gripið sé til annarra tækra ráðstafana.

Það er álit mitt að Vinnumálastofnun hafi ekki fært fram fullnægjandi skýringar á því hvort unnt hefði verið að grípa til annarra ráðstafana til að vinna bug á þeirri stöðu sem upp var komin í starfsemi hennar en þá að vinna að endurbótum á tölvukerfi, s.s. með því að fela starfsmönnum stofnunarinnar að annast útreikninga handvirkt. Tel ég ekki fram komið að slík úrræði hefðu verið óraunhæf m.t.t. fjölda þeirra beiðna um endurútreikning sem höfðu borist. Þó að slík framkvæmd kunni vissulega að vera tímafrekari í samanburði við þá rafrænu lausn sem Vinnumálastofnun hafði almennt stuðst við verður ekki litið fram hjá því að um eitt ár leið þar til ásættanleg tæknilausn var fundin og var engin beiðni um endurútreikning afgreidd á þeim tíma.

Fyrir liggur að þótt upphafsmat Vinnumálastofnunar á þeim beiðnum sem henni bárust um endurútreikning, væri á þá leið að skilyrði fyrir honum væru ekki uppfyllt í öllum tilvikum voru engar beiðnir afgreiddar. Samkvæmt skýringum stofnunarinnar var ekki lögð sérstök áhersla á að afgreiða beiðnir sem ekki uppfylltu skilyrði endurskoðunar eða tilhæfulausar beiðnir „á undan öðrum“. Af þessu tilefni tek ég fram að sé ekki um lögbundna fresti að ræða er meginreglan sú að mál séu afgreidd í þeirri tímaröð sem þau berast. Hins vegar hefur verið litið svo á að frá þessu megi víkja og stjórnvöld geti forgangsraðað þegar kemur að afgreiðslu mála, enda sé slík framkvæmd reist á málefnalegum sjónarmiðum. Þannig tel ég að Vinnumálastofnun hefði verið í lófa lagið að afgreiða þau mál þar sem fyrir lá að skilyrði fyrir endurútreikningi voru ekki uppfyllt.

Með vísan til framangreinds tel ég að sá dráttur sem varð á afgreiðslu Vinnumálastofnunar hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða og þær skyldur sem á henni hvíla að þessu leyti. Þá tel ég aðfinnsluverð þau vinnubrögð stofnunarinnar að halda að sér höndum við afgreiðslu þeirra beiðna sem að mati hennar uppfylltu ekki skilyrði fyrir endurútreikningi eða voru tilhæfulausar.

  

3 Tilkynningar um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu máls

Í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því. Skuli þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Af ákvæðinu leiðir að stjórnvaldi ber að senda tilkynningu að eigin frumkvæði þegar fyrirsjáanlegar tafir eru á afgreiðslu máls. Hefur umboðsmaður lagt áherslu á að framangreind skylda stjórnvalda sé nauðsynleg forsenda eðlilegra samskipta almennings og stjórnvalda og þess trausts sem þau verði að njóta hjá almenningi, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 9. júní 1992 í máli nr. 497/1991. Til að stjórnvald geti sinnt þessari skyldu sinni, þegar ekki er mælt fyrir um ákveðna fresti í lögum, er nauðsynlegt að það taki afstöðu til þess hvað geti talist eðlilegur afgreiðslutími og þar með hvenær sú skylda verði virk að tilkynna um fyrirsjáanlegar tafir. Þá hefur ákvæðið þá sjálfstæðu þýðingu að ef í ljós kemur að áætlanir um afgreiðslu máls standast ekki ber stjórnvöldum að senda aðilum tilkynningu á nýjan leik þar sem greint er frá því hvenær búast megi við að máli viðkomandi verði lokið.

Þegar fyrirsjáanlegt var af hálfu Vinnumálastofnunar að afgreiðsla hennar á beiðnum um endurútreikning bóta myndi tefjast vegna innleiðingar á nýju tölvukerfi stofnunarinnar var henni í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skylt að upplýsa þá sem óskað höfðu eftir slíkum útreikningi að fyrirsjáanlegt væri að tafir yrðu á afgreiðslu, hverjar væru ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta. Af skýringum Vinnumálastofnunar verður ekki annað ráðið en að engin tilkynning þessa efnis hafi verið send aðilum. Hefur stofnunin í því sambandi vísað til þess að ekki hafi verið unnt að upplýsa hvenær niðurstöðu væri að vænta fyrr en ásættanleg tæknilausn hefði verið fundin.

Af þessu tilefni tek ég fram að upplýsingar til málsaðila um tafir og fyrirhugaðan afgreiðslutíma byggjast að öllu jöfnu á áætlun stjórnvalda og eru þannig almennt háðar óvissu að einhverju marki. Á stjórnvaldi hvílir engu að síður skylda til að gera slíka áætlun og kynna hana fyrir málsaðilum. Þar sem það var ekki gert er það álit mitt að verklag Vinnumálastofnunar hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

  

IV Niðurstaða

Það er álit mitt að sá dráttur sem varð á afgreiðslu Vinnumálastofnunar á beiðnum um endurútreikning hlutabóta vegna innleiðingar nýs tölvukerfis hjá stofnuninni hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 viðvíkjandi málshraða. Einnig tel ég aðfinnsluvert að stofnunin hafi ekki gert reka að því að afgreiða þær beiðnir sem hún taldi ekki uppfylla skilyrði fyrir endurútreikningi. Þá tel ég að Vinnumálastofnun hafi borið að tilkynna aðilum um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu mála þeirra í samræmi við kröfur 3. mgr. sömu greinar.

Þeim tilmælum er beint til Vinnumálastofnunar að hafa framvegis þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu í huga í störfum sínum.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra er sent afrit af álitinu til upplýsingar.