Skattar og gjöld. Innheimta.

(Mál nr. 5068/2007)

Kvartað var yfir innheimtu Tollstjórans í Reykjavík á opinberum gjöldum í kjölfar andláts foreldris. Nánar tiltekið hversu langur tími leið frá andlátinu þar til tollstjórinn hóf innheimtuaðgerðir með tilheyrandi kostnaði og dráttarvöxtum. Einnig var kvartað yfir aðgerðum Tryggingastofnunar.

Þar sem Tryggingastofnun gekkst við mistökum við meðhöndlun endurkröfu á dánarbúið var ekki ástæða til að aðhafast frekar hvað það snerti. Þá taldi umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við meðferð skattstjóra og tollstjóra á málinu. Einkum þar sem þeim sem skilaði inn skattframtali fyrir dánarbúið hafði þegar verið tilkynnt um þá breytingu sem gerð hafði verið á álagningu gjalda miðað við innsent skattframtal. Við þær aðstæður þurfi að gera ráð fyrir ákveðnu frumkvæði af hálfu skattaðila til að ganga úr skugga um að opinber gjöld séu að fullu greidd. Ekki væri heldur tilefni til að gera athugasemdir við þá málsmeðferð tollstjóra að hefja ekki beinar innheimtuaðgerðir fyrr en með tilkynningu einu og hálfu ári eftir andlátið. Enda megi innheimtumenn ríkissjóðs, í ljósi lögbundinnar tilkynningarskyldu skattstjóra, almennt ætla að skattaðilum sé kunnugt um skuldastöðu sína. Málið varð umboðsmanni þó tilefni til að vekja athygli ríkisskattstjóra á þeim almennu vandamálum sem kunna að skapast í tengslum við skattlagningu dánarbúa í þessu sambandi.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. febrúar 2008.

  

   

I.

Ég vísa til erindis yðar, dags. 17. júlí sl., þar sem þér kvartið yfir innheimtu Tollstjórans í Reykjavík á opinberum gjöldum í kjölfar andláts móður yðar. Fæ ég ekki betur séð en að kvörtun yðar lúti að því hversu langur tími hafi liðið frá andláti móður yðar þar til tollstjórinn hóf innheimtuaðgerðir, en í kvörtun yðar er rakið að um eitt og hálft ár hafi liðið þar til hann hóf innheimtu gjaldanna og þá með tilheyrandi kostnaði og dráttarvöxtum. Einnig kvartið þér yfir að Tryggingastofnun ríkisins hafi endurkrafið tollstjórann rang­lega um opinber gjöld sem móðir yðar hafði greitt og að fjárhæð sem hún átti inni hjá tryggingastofnun hafi verið sett á biðlaunareikning án þess að gerð hafi verið tilraun til þess að upplýsa erfingja móður yðar eða dánarbú hennar um umrædda innistæðu. Að lokum teljið þér ósam­ræmi í því að tryggingastofnun greiði bætur út þann mánuð sem bóta­þegi lést í en persónuafsláttur viðkomandi falli niður á dánardegi.

Af erindi yðar til mín og þeim gögnum sem fylgdu því má ráða að móðir yðar, B, lést 18. júlí 2005 og var systir yðar, C, skráð sem ábyrgðarmaður dánarbúsins hjá sýslu­manninum í Reykjavík í sömu viku. Í kvörtun yðar til mín kemur fram að í ágústmánuði sama ár hafi Tryggingastofnun ríkisins lagt inn á bankareikning móður yðar bætur fyrir þann mánuð en samkvæmt banka­yfirliti hafi stofnunin fengið þessar bætur endurgreiddar síðar í sama mánuði. Erfingjar móður yðar hafi síðan fengið tilkynningu, dags. 23. janúar 2007 frá Tollstjóranum í Reykjavík þar sem þeir eru krafðir um greiðslu á kr. 39.732 vegna ógreiddrar skuldar sem toll­stjóranum hafði verið falið að innheimta. Í kjölfarið höfðuð þér samband við Tollstjórann í Reykjavík og skattstofu auk trygginga­stofnunar. Við nánari eftirgrennslan hafi þá komið í ljós að dánar­búið átti inneign sem nam þeirri greiðslu sem móðir yðar hafði greitt. Þessi inneign hafi síðan verið sett á biðreikning hjá trygginga­stofnun þar sem bankareikningi móður yðar hafði verið lokað en þér teljið að tryggingastofnun hefði átt að skila fjárhæðinni til toll­­stjóra. Þér greidduð stofn skuldarinnar hinn 23. mars 2007 en ekki dráttarvextina og innheimtukostnað þar sem þér teljið að til þeirra hafi verið stofnað með óréttu þar sem tollstjórinn hefði getað fengið upplýsingar frá sýslumanni um hverjir væru erfingjar móður yðar og að tryggingastofnun sé ábyrg fyrir kostnaðinum þar sem hún hafi ranglega endurkrafið tollstjórann um endurgreiðslu á opinberum gjöldum sem móðir yðar hafði þegar greitt.

  

II.

Í tilefni af kvörtun yðar ritaði [ég] tollstjóranum í Reykjavík bréf, dags. 24. október 2007. Í bréfi mínu til tollstjóra rakti ég að athugun mín á kvörtuninni gagnvart embætti tollstjórans lyti að svo stöddu að því atriði hvort stofnað hefði verið til umræddra dráttar­vaxta og innheimtukostnaðar með óréttu þar sem tollstjóra hefði átt að vera fært að fá upplýsingar frá sýslumanni um hverjir væru erfingjar B. Af þessu tilefni óskaði ég eftir því að tollstjóri lýsti viðhorfi sínu til þessa atriðis, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og þá hvort embættið teldi rétt að aflað hefði verið upplýsinga um erfingja B í samræmi við þau sjónar­mið sem ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 byggir á. Jafn­framt óskaði ég eftir því að tollstjóri lýsti viðhorfi sínu til athuga­semda yðar um þann tíma sem leið frá því að tollstjóri hóf innheimtu gjaldanna á hendur dánarbúi B.

Sama dag ritaði ég Tryggingastofnun ríkisins bréf vegna kvörtunar yðar þar sem ég gerði stofnuninni grein fyrir því að ég hefði tekið til athugunar á grundvelli kvörtunar yðar hvort stofnunin hefði ranglega endurkrafið tollstjórann um opinber gjöld sem stofnunin hafði haldið eftir af bótagreiðslum til móður yðar og áður greitt, og ekki kannað hverjir væru erfingjar móður yðar heldur sett þá inneign sem hefði myndast á biðreikning. Í tilefni af þessum atriðum óskaði ég jafnframt eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, að stofnunin léti mér í té upplýsingar og skýringar um nokkur atriði, svo sem hvort það væri rétt að stofnunin hefði endur­krafið tollstjórann í Reykjavík um opinber gjöld móður yðar heitinnar með þeim hætti sem lýst væri í kvörtun yðar. Ef svo væri, beindi ég þeirri fyrirspurn til stofnunarinnar á hvaða lagalegu forsendum sú endur­greiðslubeiðni var sett fram. Enn fremur óskaði ég eftir upplýsingum um hvort rétt væri að stofnunin hefði ekki kannað hverjir erfingjar móður yðar heitinnar væru og, ef svo væri, hvernig stofnunin teldi þá framkvæmd samræmast þeim sjónarmiðum sem 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 byggir á. Loks spurði ég stofnunina að því hvort þau atvik sem lýst væri í kvörtun yðar væru í samræmi við það sem almennt gerðist í framkvæmd stofnunarinnar við andlát líf­eyris­þega.

Svarbréf tollstjórans í Reykjavík barst mér 20. nóvember 2007 en þar segir:  

„Þing- og sveitarsjóðsgjöld voru lögð á 1. ágúst 2006 og gjaldféllu í samræmi við 112. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Seinasti gjalddagi álagningarinnar var l. desember 2006. Í kjöl­far þess að öll álagningin var gjaldfallin hófust vanskila­að­gerðir gagnvart erfingjum [B] þar sem þeir höfðu fengið leyfi til einkaskipta. Þær aðgerðir hefjast eins og liggur fyrir í gögnum málsins í janúar 2007.

Sá tími sem líður frá dánardægri [B] og þar til innheimta hefst á rætur að rekja til lögbundinnar álagningar skatts en ekki til seinagangs hjá embætti toll­stjórans í Reykjavík.

Dráttarvextir leggjast á vangreiddar kröfur samkvæmt 114. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Innheimtumanni ber að innheimta vangreiddar kröfur með aðför ef ekki fæst greiðsla með vægara úrræði. Með vísan til 1. mgr. 7. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 er nauðsynlegt að birta greiðsluáskorun áður en hægt er að krefjast aðfarar á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar. Með vísan til álits Umboðsmanns Alþingis nr. 2878/1999 er það mat embættis toll­stjóra að fella beri kostnað vegna greiðsluáskorunar á skuldara vegna lögmætra innheimtuaðgerða. Ekki er um annan innheimtu­kostnað að ræða en vegna birtingu greiðsluáskorana.

Embætti tollstjóra fær upplýsingar frá sýslumanni um fram­vindu skipta dánarbúa þegar þau fá stöðu í kerfum sýslumanns. Með stöðu er átt við að niðurstaða sé komin um hvernig skiptin fari fram þ.e.a.s. hvort dánarbúi sé skipt einkaskiptum, opin­berum skiptum eða dánarbú sé skuldafrágöngubú. Þar til að staða dánarbús liggur fyrir er ekki ljóst að hverjum er heimilt að beina innheimtuaðgerð. Þar sem upplýsingar um framvindu skipta dánarbúa berast til tollstjóra jafnóðum og þær verða til er það sjónarmið embættis tollstjórans að 10. grein stjórnsýslulaga sé uppfyllt.“

Svarbréf Tryggingastofnunar ríkisins barst mér hins vegar 4. desember 2007 en þar sagði meðal annars:

„1. Varðandi það hvort rétt sé að Tryggingastofnun hafi endurkrafið tollstjórann í Reykjavík um opinber gjöld [B] með þeim hætti sem lýst er í kvörtun A og ef svo sé á hvaða lagalegum forsendum sú endurgreiðslubeiðni hafi verið sett fram er því að svara að Tryggingastofnun telur sig ekki hafa heimild til að endurkrefja opinber gjöld með þeim hætti að það hafi í för með sér skuld fyrir greiðsluþega hjá toll­stjóra. Hér var um að ræða mistök við meðhöndlun á endurkröfu ofgreiðslu sem myndaðist vegna greiðslu sem átti sér stað eftir andlát hennar og má það rekja til nýs tölvukerfis stofnunarinnar sem var tekið í notkun frá og með september 2005, þ.e. á sama tíma og verið var að leiðrétta greiðslur sem átt höfðu stað til hennar eftir að hún var látin.

2. Varðandi það hvort það sé rétt að stofnunin hafi ekki kannað hverjir erfingjar [B] heitinnar væru þá skal það tekið fram að eins og nú þegar er komið fram þá var þarna um mistök að ræða sem starfsmenn stofnunarinnar vissu ekki af fyrr en nú á þessu ári. Hefði vitneskja um þau verið fyrir hendi hefðu þau verið leiðrétt.

3. Varðandi það hvort þau atvik sem lýst er í kvörtuninni séu í samræmi við það sem almennt gerist í framkvæmd stofnunarinnar við andlát lífeyrisþega þá er því að svara að svo er ekki þar sem sambærileg staða myndi ekki koma til nú í dag.“

 

III.

Eins og áður segir fæ ég ekki betur séð af kvörtun yðar en að hún sé í meginatriðum tvíþætt. Fyrri þáttur hennar lýtur að framkvæmd inn­heimtu Tollstjórans í Reykjavík, þ.e. að tollstjóri hafi sent til­kynningu til yðar um gjaldfallna skuld ásamt áföllnum vöxtum og inn­heimtukostnaði, dags. 23. janúar 2007. Það hafi verið um einu og hálfu ári eftir andlát móður yðar, en fyrir sendingu til­kynningarinnar hafið þér ekki haft vitneskju um að umrædd skuld væri fyrir hendi. Samkvæmt blaði um hreyfingar á gjalddaga frá tollstjóra­embættinu, dags. 26. janúar 2007, felur skuldin í sér ógreiddan tekju­­skatt og útsvar.

Af skýringum tollstjórans í Reykjavík til mín verður ráðið að embættið telur sig ekki bera ábyrgð á því hversu langur tími hafi liðið frá andláti móður yðar þar til að yður var send tilkynning um innheimtu gjaldfallinnar skuldar dánarbúsins. Er í því sambandi vísað til þess að sá tími sem leið frá dánardægri móður yðar og þar til innheimta hófst eigi rætur að rekja til lögbundinnar álagningar skatts en ekki til seinagangs hjá embætti tollstjórans í Reykjavík. Um þessa lögbundnu tilhögun er fjallað í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003 en þar segir að skattar álagðir samkvæmt lögunum renni í ríkis­sjóð og hafi tollstjórinn í Reykjavík á hendi innheimtu þeirra í stjórn­sýslu­umdæmi Reykjavíkur en sýslumenn í öðrum stjórnsýslu­umdæmum, sbr. þó 2.–4. mgr. 111. gr. og ákvæði laga um staðgreiðslu opin­berra gjalda. Ljóst er af ákvæðum X. kafla sömu laga að álagning skatta er almennt í höndum skattstjóra en í 1. mgr. 98. gr. laganna er vikið sérstaklega að því hvernig skattyfirvöld skuli standa að því tilkynna skattaðilum um lok álagningar en þar segir svo:

„Þegar skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skulu þeir semja og leggja fram til sýnis eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests skv. 99. gr. álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu, en í henni skal tilgreina þá skatta sem á hvern gjaldanda hafa verið lagðir samkvæmt lögum þessum. Senda skal hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Jafnframt skal skattstjóri auglýsa rækilega, m.a. í Lögbirtingablaðinu, að álagningu sé lokið svo og hvar og hvenær álagningarskrár liggi frammi. Hafi skattaðili annað reikningsár en almanaksárið skal skattstjóri í stað auglýsingar skv. 3. málsl. senda honum tilkynningu um álagninguna með ábyrgðar­bréfi og birta álagninguna í næstu útgáfu á álagningar- og skattskrá. Þá skal skattstjóri senda viðkomandi innheimtu­manni ríkissjóðs skrá um þá aðila, sem á hafa verið lagðir skattar, svo og samrit til ríkisskattstjóra og ríkisendur­skoðanda.“

Eins og framangreint ákvæði 1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003 ber með sér þá er þar gert ráð fyrir því að hverjum skattaðila skuli send sér­stök tilkynning um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir, en ljóst er að dánarbú eru í hópi þeirra sem teljast til sjálfstæðra skatt­aðila samkvæmt lögunum, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Í ljósi þessarar tilkynningarskyldu skattstjóra ritaði ég skatt­stjóranum í Reykjavík bréf, dags. 1. febrúar sl., þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvernig fyrirsvarsmönnum dánarbús móður yðar hefði verið tilkynnt um álagningu skatta á búið. Þá óskaði ég jafn­framt eftir að embættið sendi mér afrit þeirra tilkynninga sem búinu hefðu verið sendar af þessu tilefni.

Svarbréf skattstjóra barst mér 13. febrúar sl. en í því bréfi segir meðal annars svo:

„Skv. 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hvílir framtalsskylda á hverjum manni, en erfingjar skulu telja fram fyrir bú sem er undir einkaskiptum og skiptastjórar skulu telja fram fyrir þrotabú og dánarbú. Framtölin skulu undirrituð af þeim sem framtalsskyldan hvílir á.

Framtal dánarbús [B] gjaldárið 2006 var móttekið þann 29. mars 2006, undirritað af [C], fyrir hönd dánarbúsins.

Með bréfi dags. 26. júlí 2006 tilkynnti skattstjóri um breytingar á skattframtali dánarbúsins vegna álagningar opin­berra gjalda gjaldárið 2006 með vísan til 95. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tilkynningar sem þessar eru að jafnaði sendar á skráð lögheimili skattaðila skv. þjóðskrá, en í þessu til­viki var tilkynning um breytingar á skattframtali 2006 send þeim aðila er undirritað hafði skattframtalið fyrir hönd dánar­búsins, sem var [C], þá til heimilis að [...].

Álagningu opinberra gjalda á menn var auglýst lokið með auglýsingu skattstjóra dags. 28. júlí 2006, sem birt var í 36. tbl. Lögbirtingablaðsins 2006. Í auglýsingunni kom fram að álagningarseðlar hefðu verið póstlagðir og/eða birtir á þjónustu­síðu viðkomandi á vef ríkisskattstjóra, en álagningar­skrár með gjöldum manna lægju frammi til sýnis á skattstofu hvers skattumdæmis dagana 28. júlí til 11. ágúst að báðum dögum meðtöldum, sbr. l. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003.

Álagningar- og innheimtuseðlar opinberra gjalda eru sendir á skráð lögheimili aðila skv. þjóðskrá. Álagningar- og inn­heimtu­seðill með upplýsingum um álögð gjöld 2006 og gjalddaga var sendur dánarbúi [B] á síðast skráð lög­heimili að [...] skv. þjóðskrá.

Tekið skal fram að óyggjandi upplýsingar um erfingja að dánar­búi [B] lágu fyrst fyrir hjá skattstjóra þann 7. september 2006, þegar afrit erfðafjárskýrslu vegna skipta á dánarbúinu þann 18.07. 2006 barst skattstjóra frá sýslu­manninum í Reykjavík, sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004 um erfðafjárskatt.“

  

IV.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var álagningar- og innheimtu­seðill vegna opinberra gjalda dánarbús [B] sendur á síðast skráð lögheimili hennar að [...] samkvæmt þjóðskrá á grundvelli 1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003. Þrátt fyrir að lög nr. 90/2003 mæli með þessum hætti fyrir um skyldu skattstjóra til að senda skattaðilum tilkynningu um álagningu opin­berra gjalda eru ekki í lögum sérstök ákvæði um skyldu innheimtumanna ríkis­sjóðs, þ.á m. tollstjórans í Reykjavík, til að senda gjaldendum til­kynningar um stöðu þeirra eða gjaldfallin gjöld þar til kemur að lögbundnum undanfara aðfarar. Hins vegar er í lögum kveðið á um gjald­daga, úrræði ef vanskil verða, vexti séu opinber gjöld ekki greidd á gjalddaga, skyldur launagreiðenda til að halda eftir að launum gjaldenda og ábyrgð á skattgreiðslum.

Ljóst er að sú starfsemi sem fólgin er í innheimtu tollstjóra sam­kvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003 er hluti af stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Það ræðst hins vegar almennt af efni þeirrar ákvörðunar sem taka þarf hverju sinni við framkvæmd innheimtunnar hvort ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi beint um hana en þegar þeim tilvikum sleppir getur reynt á almennar óskráðar grundvallar­reglur stjórnsýsluréttarins og vandaða stjórnsýsluhætti.

Við mat á því hvaða kröfur verði að gera að þessu leyti til inn­heimtu­manna ríkissjóðs við framkvæmd starfa þeirra tel ég að hafa verði í huga að greiðslufall opinberra gjalda leiðir að lögum almennt sjálf­krafa til þess að til vanefndaafleiðinga kemur í formi dráttar­vaxta, innheimtuaðgerða og kostnaðar sem þeim fylgir. Þannig er sú almenna regla sett í 113. gr. laga nr. 90/2003 að áfrýjun skatt­ákvörðunar eða deila um skattskyldu frestar ekki eindaga skatts né leysir undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Í þessu sambandi verður þó jafnframt að líta til þess að umrædd inn­heimta af hálfu hins opinbera beinist að fjölda gjaldenda og máls­meðferðin lítur ekki að málefni einstaks gjaldanda nema sérstakt tilefni verði til þess. Þá er ekki unnt að líta fram hjá því að undan­fari innheimtunnar er lögbundin álagning gjaldanna og þá yfir­leitt á grundvelli skattframtals. Af þeim sökum verður því að jafnaði að ætla gjaldanda að hafa ákveðið frumkvæði að því að fylgjast með niður­stöðu álagningar opinberra gjalda á hann hverju sinni og afla sér upplýsinga um hana ef hann telur ástæðu til að ætla að álagningin hafi leitt til greiðsluskyldu af hans hálfu og hann vill komast hjá van­efnda­afleiðingum.

Mál yðar hefur orðið mér tilefni til huga að því hvaða reglum og sjónarmiðum beri að fylgja um málshraða og tilkynningar af hálfu innheimtumanna ríkissjóðs og skattstjóra þegar um er að ræða dánarbú. Þá er rétt að kanna hvort atvik í þessu máli hafi verið með þeim hætti að þörf sé á að taka afstöðu til þess hvort vikið hafi verið frá slíkum reglum og sjónarmiðum og hverjar geti þá verið afleiðingar þess á réttmæti kröfu ríkissjóðs um dráttarvexti og kostnað.

Um málshraða stjórnsýslumála er fjallað í 1. mgr. 9. gr. stjórn­sýslu­laga. Samkvæmt ákvæðinu skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er en í því felst að aldrei megi vera um ónauðsyn­legan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Rétt er hér að minna á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að reglan um málshraða er byggð á óskráðri meginreglu stjórnsýslu­réttar sem hafi víðtækara gildissvið en umrætt lagaákvæði. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3292.) Það verður því að telja að í samræmi við þessa meginreglu sé stjórnvöldum skylt, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem stjórnsýslulögin gilda um, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, eða framkvæmd stjórnsýslunnar almennt, að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu svo fljótt sem unnt er.

Vegna eðlis þeirrar innheimtu sem hér er fjallað um og þeirra íþyngjandi afleiðinga sem vangreiðsla á opinberum gjöldum hefur í för með sér er hér einnig nauðsynlegt að líta til meðalhófsreglunnar sem eins og lýst er í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórn­sýslu­lögunum telst vera ein af grundvallarreglum stjórnsýslu­réttarins. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3292 og 3294.) Þótt meðal­hófs­reglan hafi nú verið lögtekin í 12. gr. stjórnsýslulaga leiðir það ekki til þess að stjórnvöld þurfi aðeins að fylgja henni þegar um er að ræða ákvarðanir sem lögin taka til. Meðalhófsreglan er grundvallarregla sem stjórnvöld þurfa almennt að fylgja í störfum sínum.

Tilkynning innheimtumanns ríkissjóðs til skuldara um vanskil og eftir atvikum næstu innheimtuúrræði er til þess fallin að hvetja skuldara til að greiða og þar með að gefa þeim kost á að forða því að frekari dráttarvextir og kostnaður falli á kröfuna. Ég hef áður í störfum mínum lýst þeirri afstöðu minni að á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttarins um málshraða og meðalhóf verði að gera þá kröfu til innheimtumanna ríkissjóðs að þeir tilkynni gjaldendum með hæfi­legu millibili um stöðu þeirra krafna sem þeir hafa til innheimtu og eru komnar í vanskil. Jafnframt leiða sömu sjónarmið til þess að rétt er að innheimtumenn geri gjaldanda sérstaklega viðvart þegar ætla má af atvikum, meðal annars langs tíma, að fyrri tilkynningar hafi ekki borist gjaldanda. Í þessu sambandi verður einnig að gæta þess að ef innheimtumaður telur að samtöl eða önnur óformleg samskipti við gjaldanda leiði til þess að ekki sé þörf á að senda slíkar tilkynningar er rétt að upplýsingum um þau sé haldið til haga.

Af gögnum máls yðar verður ráðið að álagningar- og innheimtu­seðill um álagningu opinberra gjalda á dánarbú móður yðar heitinnar hafi verið sendur dánarbúinu á síðast skráð lögheimili móður yðar að [...] samkvæmt Þjóðskrá í kjölfar þess að álagningu lauk 28. júlí 2006. Tveimur dögum áður, eða 26. júlí 2006, hafi skatt­stjóri hins vegar sent C, til heimilis að [...], tilkynningu um breytingu skattframtali samkvæmt 95. gr. laga nr. 90/2003. Í síðastnefnda ákvæðinu er kveðið á um það að skatt­stjóri skuli þegar framtalsfrestur er liðinn leggja tekjuskatt á skatt­aðila samkvæmt framtali hans en þó skuli skattstjóri leiðrétta augljósar reikningsskekkjur. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að skattstjóri geti leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og ein­staka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skuli skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Í skýringum skattstjóra til mín kemur fram að ástæða þess að umrædd tilkynning á grundvelli 95. gr. laga nr 90/2003 var send C hafi verið sú að hún hafi undirritað skattframtalið fyrir hönd dánar­búsins.

Ég tel ljóst af ákvæði 1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003 að þeirri tilkynningarskyldu skattstjóra sem þar er mælt fyrir um er að megin­stefnu ætlað það hlutverk að tryggja að skattaðilar fái sem fyrst upplýsingar um þær ákvarðanir sem skattstjórar taka um álagningu opinberra gjalda á þá þannig að þeir geti sem fyrst tekið afstöðu til þess hvernig þeir bregðist við slíkum ákvörðunum, hvort sem það er með því að greiða þau gjöld sem þeim hafa verið ákvörðuð eða með því að láta reyna á réttmæti ákvörðunarinnar, eftir atvikum með stjórnsýslukæru. Kvörtun yðar sem og almennar ábendingar sem mér hafa borist vegna skattlagningar dánarbúa á undanförnum árum hafa orðið mér tilefni til íhugunar um hvort þessu markmiði tilkynningar­skyldu skattstjóra sé fyllilega náð við álagningu á dánarbú þegar tilkynning er einungis send á það heimilisfang þar sem lögheimili hins látna var síðast skráð. Hef ég þá í huga að málum kann í ein­hverjum tilvikum að vera þannig háttað að erfingjar hafi ekki lengur aðgang að heimili hins látna með þeim afleiðingum að tilkynningar skattstjóra berast þeim ekki og þeim verði því ekki kunnugt um slíkar ákvarðanir fyrr en fyrst þá þegar innheimtumenn ríkissjóðs hefja innheimtuaðgerðir.

Ofangreind atriði hafa orðið mér tilefni til þess að rita ríkis­skattstjóra meðfylgjandi bréf, þar sem athygli er vakin á þeim almennu vandamálum sem kunna að skapast í tengslum við skattlagningu dánarbúa í þessu sambandi. Eins og atvikum í máli yðar er háttað tel ég hins vegar mig ekki hafa ástæðu til að gera athugasemdir við með­ferð skattstjóra og tollstjóra í máli yðar. Hef ég þá einkum í huga að þeim einstaklingi sem skilaði inn skattframtali fyrir dánarbúið hafði þegar verið tilkynnt um þá breytingu sem gerð hafði verið á álagningu gjalda miðað við innsent skattframtal. Tel ég að við slíkar aðstæður verði að gera ráð fyrir ákveðnu frumkvæði af hálfu skatt­aðila til að ganga úr skugga um að opinber gjöld séu að fullu greidd. Þá tel ég mig ekki hafa tilefni til að gera athugasemdir við þá málsmeðferð tollstjóra að hefja ekki beinar innheimtuaðgerðir fyrr en með tilkynningu, dags. 23. janúar 2007, enda mega innheimtumenn ríkis­sjóðs í ljósi lögbundinnar tilkynningarskyldu skattstjóra almennt ætla að skattaðilum sé kunnugt um skuldastöðu sína. Er þá ekki óeðlilegt að mínum dómi að þeir veiti skattaðilum sanngjarnt ráðrúm til að gera ráðstafanir vegna hennar, áður en formleg inn­heimta hefst.

  

V.

Um þann lið kvörtunar yðar sem snýr að þætti Tryggingastofnunar ríkisins í málinu þá kemur fram í skýringum stofnunarinnar til mín að stofnunin telji sig ekki hafa heimild til að endurkrefja opinber gjöld með þeim hætti að til skuldar stofnist í innheimtukerfi ríkisins. Fæ ég ekki betur séð en að í skýringum stofnunarinnar sé gengist við því að mistök hafi orðið við meðhöndlun á endurkröfu að því er snertir dánarbú móður yðar.

Í ljósi þess sem fram kemur í skýringum stofnunarinnar um þetta atriði tel ég ekki tilefni til að ég aðhafist frekar vegna þessa þáttar kvörtunar yðar. Ég tel í því sambandi rétt að taka fram að ég tel ekki fyrirfram útilokað að hugsanleg mistök starfsmanna trygginga­stofnunar kunni að hafa í för með sér bótaskyldu af hálfu ríkisins að öðrum skilyrðum uppfylltum. Úrlausn slíkra álita­­efna heyrir hins vegar undir dómstóla og fellur því utan starfs­­sviðs míns sem umboðsmanns Alþingis, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér teljið tilefni til getið þér leitað til tryggingastofnunar með erindi vegna hugsanlegrar bótaskyldu og það er þá ákvörðun stofnunarinnar hvort það tekur afstöðu til erindis yðar eða vísar málinu til ríkislögmanns en samkvæmt 2. gr. laga nr. 51/1985 fer ríkis­lögmaður með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði. Bregðist tryggingastofnun ekki við slíku erindi yðar með þeim hætti sem þér teljið rétt þá getið þér leitað með það til félags- og tryggingamálaráðuneytisins, en það ráðuneyti fer með eftirlit með starfsemi tryggingastofnunar í samræmi við almennar reglur um eftirlit æðra stjórnvalds með lægra settum stjórnvöldum. Vegna þeirra sjónarmiða sem leidd verða af c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 og rakin eru hér að framan tek ég hins vegar enga afstöðu til þess hvort slík bótaskylda kunni að vera fyrir hendi.

Með vísan til framangreinds lýk ég máli yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   

  

----------

  

Bréf umboðsmanns til ríkisskattstjóra 22. febrúar 2008.

   

Hinn 23. júlí 2007 leitaði til mín A, [...], með kvörtun yfir innheimtu Tollstjórans í Reykjavík á opinberum gjöldum sem ekki voru greidd þegar móðir hans lést. Laut kvörtun hans nánar tiltekið að því hversu langur tími hefði liðið frá andlátinu þar til tollstjórinn hóf innheimtu­aðgerðir, en um eitt og hálft ár hafi liðið þar til hann hóf innheimtu gjaldanna og þá með tilheyrandi kostnaði og dráttarvöxtum.

Ég hef í dag lokið athugun minni á kvörtun A. Eins og þar kemur fram laut athugun mín á kvörtuninni meðal annars að því atriði að tilkynning sú sem skattstjórinn í Reykjavík sendi dánarbúinu um álagningu opinberra gjalda, dags. 28. júlí 2006, á grundvelli  1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003, hefði einungis verið send á það heimilisfang sem móðir hans heitin hafði síðast. Í bréfi mínu til A lýsi ég þeirri afstöðu að ég telji ljóst af ákvæði 1. mgr. 98. gr. að þeirri tilkynningarskyldu skattstjóra sem þar er mælt fyrir um er að meginstefnu ætlað það hlutverk að tryggja að skattaðilar fái sem fyrst upplýsingar um þær ákvarðanir sem skattstjórar taka um álagningu opinberra gjalda þeirra þannig að þeir geti sem fyrst tekið afstöðu til þess hvernig þeir bregðist við slíkum ákvörðunum, hvort sem það er með því að greiða þau gjöld sem þeim hafa verið ákvörðuð eða með því að láta reyna á réttmæti ákvörðunarinnar, eftir atvikum með stjórnsýslukæru.

Kvörtun A sem og almennar ábendingar sem mér hafa borist vegna skattlagningar dánarbúa á undanförnum árum hafa orðið mér tilefni til umhugsunar um hvort þessu markmiði tilkynningar­skyldu skattstjóra sé fyllilega náð við álagningu á dánarbú þegar til­kynning er einungis send á það heimilisfang þar sem lögheimili hins látna var síðast skráð. Hef ég þá í huga að málum kann í einhverjum tilvikum að vera þannig háttað að erfingjar hafi ekki lengur aðgang að heimili hins látna með þeim afleiðingum að tilkynningar skattstjóra berast þeim ekki og þeim verði því ekki kunnugt um slíkar ákvarðanir fyrr en fyrst þá þegar innheimtumenn ríkissjóðs hefja aðgerðir til innheimtu vangreiddra gjalda. Síðastnefnda atriðið kann síðan að hafa í för með sér að skuld dánarbúsins við ríkissjóð eykst verulega, en samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, bera erfingjar í dánarbúi, sem skipt er einkaskiptum, óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hins látna og dánar­búsins. Með tilliti til þessarar ábyrgðar erfingja á skatt­greiðslum dánarbúsins og hins látna er að það að mínum dómi í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, ef erfingjarnir fengju einnig til­kynningu um álagningu opinberra gjalda.

Ég tek fram að vegna ákvæða laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., um tilkynningarskyldu erfingja við andlát og skil­yrðum fyrir skiptum, þá fæ ég ekki betur séð en að upplýsingar um erfingja og heimilisföng þeirra ættu að vera skattyfirvöldum aðgengilegar án teljandi fyrirhafnar. Bendi ég jafnframt á að þegar erfingjar hafa fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi skv. 31. eða 74. gr. sömu laga þá fara þeir í sameiningu með forræði búsins og eru einir bærir um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess, þar á meðal við samningsgerð, fyrir dómi eða stjórnvöldum þangað til skiptum lýkur, sbr. 1. mgr. 85. gr. laganna. Þá segir í 2. mgr. 85. gr. laganna að erfingjum sé heimilt að fela tilteknum manni, einum eða fleiri, að koma fram af hálfu búsins gagnvart öðrum í vissum lögskiptum eða í öllu tilliti eftir því sem þeir ákveða nánar, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Í síðastnefnda ákvæðinu kemur enn fremur fram að séu erfingjar fleiri en einn sé þeim rétt að til­nefna í beiðni sinni um einkaskipti einn eða fleiri úr sínum hópi eða annan tiltekinn mann sem má beina tilkynningum til í þágu búsins. Í beiðni megi einnig tilnefna erfingja eða annan mann og veita honum eða þeim heimild til að gera tilteknar ráðstafanir í nafni búsins um hagsmuni þess.

Með vísan til samræmingar- og eftirlitshlutverks embættis yðar með störfum og ákvörðunum skattstjóra, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 hef ég ákveðið að koma ábendingum um framangreind atriði á framfæri við embætti yðar. Telji embætti yðar tilefni til að taka umrætt atriði til frekari athugunar óska ég eftir því að mér verði tilkynnt um það og aðrar ákvarðanir sem embættið kann að taka vegna þessa máls.